Lækna-Tómas skrifar grein í Fréttablaðið í dag um hvað hann sé ofsóttur og vitnar út og suður. Einhver efaðist víst um kynhneigð hans. Öðrum fannst hann tala niður til Vestfirðinga (hann er fáránlega patróníserandi og ég skil ekki fólk sem sér það ekki – byrði hvíta mannsins er alveg að sliga hann). Svo klykkir hann út með að það sé fáránlegt að kalla hann óvin Vestfjarða – hann sem hafi þvælst hér út um öll fjöll og firnindi. Sem er svolítið einsog að koma því að – í umræðu um atvinnuhagsmuni blökkumanna – að maður eigi allar plöturnar með James Brown. Geta þessir negrar ekki bara spilað á bassa? Það er heiðarleg atvinna og öllum er sómi og gleði af henni. Tónlistin er þeim líka í blóð borin. *** Einhver sagði að það þyrfti að búa til klúbb eða hasstagg fyrir fólk sem er ekki hlynnt virkjunum en meikar samt ekki Lækna-Tómas. *** Það er lenska nútildags að krossfesta sjálfan sig með allra verstu dæmunum um það sem hefur verið sagt um mann. Allir sem „lenda í umræðunni“ – ég tala nú ekki um þeir sem kasta sér í hringiðuna einsog þeir séu eina fólkið á jarðríki sem hafi velt fyrir sér verðmætum og hagsmunum – fá ein og önnur ummæli um sig á kaffistofum samtímans, athugasemdakerfunum. Og innlitið á kaffistofuna er ekki alltaf gott – þar er allt látið flakka og menn spæna sig upp í alls kyns kjafthátt og vitleysu. Sennilega var þetta miklu verra einu sinni. Mig minnir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi einhvern tíma verið spurður hvort hann tæki ekki „umræðuna á netinu“ nærri sér og hann hafi svarað því til að maður sem hefði mestmegnis stundað kosningabaráttu með því að þvælast milli beitningaskúra á Vestfjörðum færi nú ekki að fölna yfir kommentakerfunum. *** Það segir kannski sitt. Og ekki endilega allt gott um sveitunga mína. Eða – þessi talsmáti er kannski ekki alltaf taktískastur. Heimurinn er hrifnari af fínhreyfingum og kurteisi en hann var einu sinni. Sú stemning hefur ekki borist jafn rækilega hingað. Því miður og sem betur fer. *** Nú á að boða til „borgarafundar“ á Ísafirði í lok mánaðarins. Um laxeldi, Teigskóg og Hvalárvirkjun. Ég meika það ekki alveg heldur. Pétur Markan vinur minn í Súðavík talar um „herkvaðningu“ – þá fæ ég mikinn aulahroll. Í hvaða hjólför erum við að fara? Já – sérfræðingarnir að sunnan eru patróníserandi og já millistéttin í Reykjavík virðist ekki alveg á því að hagsmunir okkar skipti máli. En ég er ekki viss um að hergöngumarsar séu málið. *** Ég skil heldur ekki hvers vegna það er verið að rugla þessu öllu saman í eitt. Samgöngumálum, raforkumálum og atvinnumálum (þótt þau tengist í umhverfismálunum). Svona fundur er sennilega bara upp á stemninguna og ekkert annað. Það er enginn tími til þess að ræða þrjú svona stór mál á einu bretti (jú, ókei, Teigsskóg á ekkert að þurfa að ræða lengur – tvö mál). Það er verið að búa til falskan pakka – smygla öllu inn á einu bretti. *** Ég er mótfallinn Hvalárvirkjun. Ég held það hafi komið fram hér áður. Frábærir fossar og það allt. Ég væri hlynntur henni, hins vegar, ef það væri gulltryggt – með aðgerðaáætlun, fjármögnun, lögum, öllu sem til þarf – að hún myndi laga raforkuástandið í fjórðungnum. Þá mætti loka þessum fossum fyrir mér og Tómas gæti bara farið eitthvert annað að ganga – til dæmis í Hornstrandafriðlandið með Nanný og Rúnari. Það er hins vegar ekki. Og mér finnst ástæðulaust að kasta þessum fossum í eitthvað veðmál, sem er líklegra en ekki að við töpum. *** Laxeldið. Hlynntur því. Var ég búinn að koma því að einhvern tíma? Mér finnst það liggja beint við og held að allir sem kynntu sér það – og á annað borð kæra sig um að fólkið hérna njóti líka vafans (því auðvitað eru áhættur í öllu) – myndu sjá það. Enda flest fólk skynsemdarfólk. *** Teigsskóg ætti bara ekkert að þurfa að ræða lengur. Nenni því ekki einu sinni.