Ég byrjaði vinnudaginn á því að lesa grein um einkavædda barnavernd í Noregi. Punkturinn var ekki sá sem hann er yfirleitt þegar ég les um barnavernd í Noregi – að hún sé oft á tíðum ótrúlega gröð í að fjarlægja börn af heimilum – eða bara að furða sig á því að hægt væri að einkavæða barnavernd, sem er svo sem ástæða til að skrifa nokkur þúsund dagblaðapistla. Heldur að fyrirtækin á „barnaverndarmarkaðinum“, sem sennilega reka barnaheimili frekar en að taka ákvarðanir um að fjarlægja börn af heimilum, séu meira og minna á vegum fyrirtækja sem eru skráð í einhverjum Tortólum. Í fréttinni kom fram að gróðinn af meðalbarnaverndarfyrirtæki sé allt að þrefaldur á við meðalgróðann í öðrum brönsum í Noregi. *** Fyrst hélt ég að ég væri að verða geðveikur. Eða í það minnsta fá sótthita. Svo fór ég að velta því fyrir mér hvort að norskan mín væri bara ekki betri en þetta – þetta gæti varla staðist. *** „Ifølge en rapport gruppen har bestilt fra De Facto kunnskapssenter for fagorganiserte, er lønnsomheten i barnevernet større enn i noen annen bransje i Norge. Ifølge rapporten har de fem konsernenes totalrentabilitet ligget på 22-23 prosent i perioden 2011-2015, mens gjennomsnittet for alle næringer lå på 7-8 prosent.“ – VG *** Og ég bara .. ha? Ha? *** Ég gúglaði norska barnevernet til að lesa mér til um þessa „einkavæðingu“ – eða útboð – og önnur niðurstaðan var þá frétt af BBC sem fjallaði einmitt um að norska barnaverndin væri umdeild vegna þess að hún færi of geyst í að fjarlægja börn af heimilum – sérstaklega þegar foreldrarnir væru innflytjendur. Og einhvern veginn get ég ekki látið vera að hugsa að þetta tengist – þótt nefndin sé á vegum ríkisins og barnaheimilin á vegum einkaaðila. Að börnin séu seld. *** En ég tek fram að ég hef ekkert vit á þessu – var bara að uppgötva þetta – og til að taka af allan vafa (þetta vefst svolítið fyrir fólki) þá er allt sem birtist á þessari síðu „blogg“ en ekki „grein“ og þaðan af síður „ritgerð“ eða „fréttaskýring“. *** Þetta er bara dagbókin mín og ég er bara að hugsa. *** En það er mikill misskilningur á Íslandi – og sennilega minnkandi dönskukunnáttu um að kenna – að það sé eitthvert norrænt módel eftir. Það er löngu farið á haugana.