Untitled

Í gær spratt upp umræða um þjóðsönginn á Facebook – Óttari Martin fannst eitthvað pínu nasískt að syngja um „Íslands þúsund ár“ í ljósi hugmynda um þúsundáraríki Hitlers. *** Hugmyndin um þúsundáraríkið er auðvitað ekki frá Hitler. Þúsundáraríkið er úr biblíunni (og hugsanlega/sennilega eldra) – það sem tekur við eftir síðari komu Krists. Þá hefur öllum syndurum verið tortímt og á jörðinni búa einungis réttlátir og Jesús ræður ríkjum í þúsund ár, eða þar til lokadómur er kveðinn upp. Sirkabát, minnir mig. *** Þetta á sér augsýnilega samsvörun í hreinleikahugmyndum Hitlers. *** En þúsundáraríkið er líka vísun í hið heilaga rómverska ríki – þýska keisaraveldið – sem stóð í nærri því þúsund ár, frá 962 til 1806. Sem einhvers konar fordæmi fyrir stöðugleika og langdrægni. *** Þúsund ár Íslands – í þjóðsöngnum – hefur svo ekkert að gera með þetta, annað en að árafjöldinn er sami og ein þjóðremba er öðrum skyld. En það er svolítið einsog með hakakrossinn – sem nasistar fundu ekki upp, og er til dæmis afar venjulegur í Víetnam, þar sem ég bjó um hríð, en manni finnst hann samt óþægilegur. Það er ekki beinlínis spurt um einhver rökræn tengsl, enda virka symból og hugtök ekki bara rökrænt – óþægindin geta verið alveg þau sömu. *** Þess vegna var hakakrossinn til dæmis fjarlægður úr Eimskipalógóinu. *** Svo er ekkert óhugsandi að Matta hafi verið hugsað til þúsundáraríkis Krists eða hins heilaga rómverska ríkis þjóðverja. Hugrenningartengslin eru til staðar strax og maður talar um þúsund ára líftíma ríkis. Og Matta var vissulega nokkuð hugsað til guðs. *** Hins vegar hjó ég eftir þeim hugmyndum í þessari samræðu, sem komu mér á óvart, að íslensk þjóðernishyggja – eða þjóðernishyggja 19. aldarinnar, ættjarðarrómantíkin – væri einhvern veginn alveg fullkomlega óskyld því sem gerðist í Þýskalandi og víðar í Evrópu á þriðja og fjórða áratugnum. Hefði ekkert með uppgang nasismans í Evrópu að gera. Það væri jafnvel fáránlegt að gera því skóna – því Lofsöngur hefði verið ortur löngu fyrir tíma Hitlers. *** Um það er auðvitað að segja: húmbúkk. Hitler gerðist ekki í sögulegu tómi og nasisminn var ekki hreinþýskt fyrirbæri og ættjarðarrómantík var ein af grunnstoðum hans. Um þetta hafa verið ritaðar ótal bækur. Það voru ekki bara nasistar á Íslandi heldur og nasískir straumar í hinum ýmsustu kreðsum. Og eru enn – þeirra má til dæmis sjá mjög greinilega stað í allri bjúrókrasíu sem tengist hælisleitendum, flóttamönnum og innflytjendum. *** Það þýðir vel að merkja ekki að allir sem syngi með í þjóðsöngnum á fótboltaleikjum séu nasistar. Því fer raunar fjarri. Það eru ekki bein tengsl – ekki einu sinni slippery slope – en það er samt absúrd og sennilega hættulegt að hafna skyldleikanum með öllu, einsog manns eigins þjóðernishyggja geti aldrei haft chauvinískar afleiðingar vegna þess að maður sjálfur sé svo almennilegur og meini svo vel. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að fólk hefur – sérstaklega síðustu 60-70 árin – haft varann á gagnvart ættjarðarástinni/þjóðernishyggjunni. Hún hefur víða leitt menn í gönur, ekki bara í Þýskalandi – og leiðir þá enn í gönur. *** Shalom Auslander skrifaði einu sinni að vildi maður skilja nasista yrði maður fyrst að átta sig á því að stefnan byggir ekki (fyrst og fremst) á hatri, heldur á von – von um betri heim. Að tilfinningarnar sem liggja nasismanum til grundvallar eru ekki (bara) froðufellandi vitleysa, heldur margt af því fallegasta sem við eigum: ástin, samstaðan, fegurðin og – einsog Adorno benti á – ljóðlistin. *** Og þá er ég ekki heldur að segja að allir sem lesi ljóð séu nasistar. Ekki einu sinni allir sem skrifa ljóð eru nasistar. En ég er að gangast við því að fegurðin sé próblematísk – hún sé ölvandi og svipti mann jafnvel dómgreindinni á köflum, og manni beri að umgangast hana af varúð og virðingu. *** Kannski er samt skrítnast að syngja þjóð sinni lof, þegar maður skammast sín fyrir hana – hvernig hún agerar pólitískt, hvernig hún sendir sína aumustu út á guð og gaddinn, á þeirri forsendu að þeir tilheyri ekki „okkur“ – og það alveg jafnt þótt sumir þegnanna séu góðir í fótbolta og það sé gleðiefni.