Untitled

Það hefur ekki farið hátt en í dag er svokallaður Daloon dagur. *** Það er haugur af Óratorrekum á skrifborðinu mínu. Ég datt alveg úr sölugírnum þegar ég fór til Skandinavíu í júní. En hún er til og það er bara að hafa samband ef mann langar í áritað eintak. Ég ætti að reyna að brenna eitthvað suður fyrir jólin, þegar flóðið er komið í gang, og lesa svolítið. Mér var boðið á Litlu Ljóðahátíðina, sem hefði verið fyrirtak, en afþakkaði til að mæta í afmæli Arams Nóa – en mér var ekki boðið á Bókmenntahátíðina, sem var pínu skúffelsi, en sennilega hentar nú samt betur að gera þetta seinna í haust. *** Eiginlega meikar samt ótrúlega lítið sens að bjóða mér á bókmenntahátíð. Það búa nær allir íslenskir rithöfundar í kallfæri við miðbæ Reykjavíkur – en það þyrfti að borga undir mig flug og gistingu. Það þarf að vísu að gera alltaf þegar það koma höfundar hingað vestur, en við búum þá ekki við að geta valið úr öllum hinum fyrir ekkert nema upplestrargjaldið. *** Ég held ég ljúgi því ekki að ég hafi aldrei fengið borgað flug eða gistingu suður. Ég fer 3-4 sinnum á ári til Frakklands og 6-7 sinnum til norðurlandanna og 1-2 eitthvað annað og það er allt borgað. Að meðtöldu flugi til Reykjavíkur og gistingu þar ef þarf (eða á flugvallarhótelinu í Keflavík, þar er ég reglulega gestur). En í útlöndum er líka minna framboð af mér, svona almennt. Ég enda alltaf í borginni hvort eð er, með reglulegu millibili. Þetta er svolítið einsog með ókeypis upplestrana – ef það eru nógu margir sem lesa upp ókeypis þýðir ekkert fyrir hina að biðja um að fá borgað. Þá er maður ekkert beðinn. *** Ég hef vel að merkja fengið flug og gistingu víða annars staðar á Íslandi. Eða bensín greitt. Svo til allan hringinn. En ekki til Vestmannaeyja. Ég hef aldrei komið til Vestmannaeyja og finnst það leiðinlegt. Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að mér muni líka vel við Vestmannaeyjar, hvað sem líður klisjunni um að þeir hati listamenn – það eru alveg áreiðanlega fleipur. *** Og ég á nú yfirleitt einhvern innan handar sem getur leyft mér að gista á sófanum hjá sér í Reykjavík. Ég er bara svo einrænn og verð meira einrænn með árunum að mér finnst erfitt að hafa ekkert afdrep – einhvern vegg til að stara á aldeilis einn og yfirgefinn. *** Ég þarf að spyrja Lomma hvort hann og Kristín Svava séu ekki með neitt á prjónunum í haust. Þegar ég var á leiðinni út í sumar las ég upp á Café Catalinu í Kópavogi. Það var mjög gaman. *** Svo er ég reyndar alltaf í útvarpinu líka. Lestin spilar úr Óratorreki af og til. *** Og ég er svolítið ferðaþreyttur. En það eru fáar utanlandsferðir í kortunum í haust og ég er með bók og ætti að reyna að minnsta kosti að sýna dálítinn lit í jólabókaflóðinu, þótt það hafi verið „vorbók“.