Þegar við fórum á Ricky Gervais standöppið í Hörpu í vor eyddi hann alveg absúrd löngum tíma í að ræða PC-gengið sem þolir ekki húmor og vill frið frá því að láta stuða sig. A.m.k. þegar „vissir hlutir“ eru til umræðu – sennilega er listinn kyn, kynþættir og trú (nánar tiltekið Islam). Ég hef alveg dálitla samúð með þessu sjónarhorni, og kannski alveg ríflega og oft yfirdrifna, en mér fannst punkturinn samt alltof einfaldur til að eyða svona miklum tíma í hann. *** Þetta er að verða mantra hjá grínistum líka – Stefán Karl er að fara með standöpp og steig á vagninn í síðustu viku. Og ekki bara hvítir gagnkynhneigðir karlar heldur, vel að merkja, einsog er stundum látið. *** Ég held þetta snúist um sjónarhorn. Grínistar – einsog sumir aðrir listamenn – vinna vissulega við að stuða fólk og dilla sér á grensunni milli hins siðlega og ósiðlega. Grín er iðulega bölvaður dónaskapur. Það er oft á tíðum hýpóþetískt á mjög gróteskan hátt og ryðst í gegnum viðkvæmustu svæði mannlífsins – og veitir okkur kaþarsis. Ég man eftir að hafa lesið í ritgerð um húmor á tímum helfararinnar að Gyðingarnir í fangabúðunum og fangaverðirnir hafi mikið til verið að segja sömu brandarana. Þú veist, hvað kemur maður mörgum Gyðingum fyrir í Volkswagen, og svo framvegis. En brandarinn er augljóslega ekki sami hluturinn – húmor, einsog öll list og öll mannanna verk, litast af samhengi sínu, einmitt vegna þess að tilvist okkar sem slík er aldrei merkingarlaus. *** En vegna þess að grínistar vinna á þessari erfiðu línu fá þeir sennilega ansi ríflegan skerf af versta og heimskulegasta PC-röflinu. Ég man eftir að hafa verið á standöppi hjá Jonas Gardell í Svíþjóð fyrir 7-8 árum þar sem hann var að segja sögur af blogginu sínu. Einhverjum mánuðum fyrr hafði hann verið að rannsaka hommaklám (hann er hommi sjálfur) – „rannsaka“, ég held að gæsalappirnar hafi verið með, en minnir að það hafi líka verið eitthvað stærra samhengi, hann var í alvöru að forvitnast um eitthvað. Og hann bloggaði um myndband sem hann hafði fundið þar sem karlmaður gerir gat á melónu, setur smokk í gatið og ríður svo melónunni. Gott og vel – í kjölfarið fylltist svo kommentakerfið af velmeinandi fólki sem byrjaði að útskýra fyrir honum að klám væri einhver ljótasta birtingarmynd kvenfyrirlitningar í samtímanum. Og það skipti engu máli þótt hann ítrekaði að þetta hefði verið hommaklám, af einum karlmanni, að ríða melónu og „engin kona hefði orðið fyrir skaða við gerð myndbandsins“. *** Ég held sem sagt að ef maður er grínisti – að minnsta kosti þess lags grínisti sem dansar á þessari frægu línu og nógu þrjóskur til að gera sér ekki sérstaklega far um eitthvað virtue signaling, til að láta vita að maður sé góður gæi en ekki nasisti – þá fái maður ansi mikið af heimskulegu kvabbi í eyrun sem við hin dauðlegu og ófyndnu heyrum sjaldnast af nema við gerum okkur far um að lesa þannig þræði. *** Ég þekki annars fullt af fólki sem kallar PC „skáldskap“ eða „fake news“ – oftar en ekki í einhverjum merkingarlitlum skylmingum við Jakob Bjarnar – og ég á alveg svolítið bágt með að átta mig á því hvort það fólk þekkir bara engan sem er PC eða er svo PC sjálft að það sjái ekkert athugavert við neitt af þeim umkvörtunum, finnist þær aldrei vera overboard og hvað þá ríða húsum, og það fólk verður þá sennilega bara alls ekki vart við nein átök í samfélaginu. Eða eitthvað.