Tiltekt

Stundum held ég að lífið snúist um að finna stöðugt lausnir sem enginn er svo óánægður með að hann gefist upp. Ég hallast síðan að því til skiptis að það að vera fullorðinn sé að sætta sig við þetta hlutskipti og að sætta sig ekki við það – krefjast þess að vera ánægður, sama hvað það kostar. Börnum þykir yfirleitt alltaf óréttlæti ef á þau hallar – og eiga ríkari kröfu á að vera ánægð en aðrir – en fullorðnir eiga að reyna að setja hlutina í samhengi og fórna eigin hagsmunum, ef við á – fórna réttindum fyrir skyldur, jafnvel, eða í öllu falli leysa úr hagsmunaárekstrum eða ólíkum löngunum með málamiðlunum eða öðrum álíka lausnum, sem eru sem sagt ekki alltaf þess eðlis að allir sem að þeim koma séu bara glaðir. Stundum eru allir bara jafn vonsviknir. Sem er sennilega betra en að allir séu misvonsviknir – að einhver sigri og annar tapi. *** Ég hef lítið sofið frá því flensan leið úr mér. Þetta er að verða viðtekið vandamál – að flensum fylgi margra daga andvökur, stundum með fótaóeirð og stundum án. Ég held ég hafi sofið í tvisvar sinnum tvo tíma í nótt – með göngutúrum um húsið og lestrarpásum inn á milli. Sem er minna en næturnar tvær á undan en ég er samt skárri í dag en í gær þegar ég var líka með einhvers konar mígreni. Ég er ekkert að skrifa. Það er hluti af vandamálinu. Það þarf líka að sinna öðru – hef til dæmis verið að taka til á skrifstofunni, sem var áríðandi verk – en ég veit alveg hvernig það fer með mig. Ekki tiltektin sem slík heldur stefnuleysið utan bókar. Ég hef lifað næstum jafn mikið í fiksjónal heimum síðustu 25 árin – í mínútum og klukkustundum talið – og ég hef lifað lífinu utan þeirra og er löngu orðinn háður þessu. Að ráða aðstæðum. Leika guð. Lífið utan skáldskaparins er alltaf sýsífosískara – eða skortir í öllu falli lögun, það heldur bara áfram, án endurskrifta, athugasemda, eða sjáanlegrar niðurstöðu eða lendingar. Þar er maður líka peð sem bíður þess eins að vera hreyft. Altso, það eru of margar senur þar sem aðalsöguhetjan hangir bara í símanum og veltir því fyrir sér hvort hann hafi skoðun á einhverju (sem maður hefur alltaf, þegar maður hefur hugsað um það nógu lengi – en til hvers?) *** Það er mjög fínt á skrifstofunni minni. Ég hengdi upp gömul nýhilplaköt og verðlaunaskjöl sem ég lét hverfa einhvern tíma í fyrra, þegar þau voru farin að fara í taugarnar á mér. Ég pússaði meira að segja Íslensku bókmenntaverðlaunin mín, sem voru orðin klístruð af gömlu ryki og dálítið bogin eftir að ég notaði þau til þess að negla nagla í skáp – um svipað leyti og ég lét skjölin hverfa. Skrítið hvernig svona hlutir – gamlir sigrar – geta nánast valdið manni jafn mikilli skömm og stolti. Eða kannski er það ekkert skrítið. Velgengni er líka umsátur um sjálfsmynd manns og ég hef alltaf verið viðkvæmur fyrir því að leyfa utanaðkomandi öflum að ákveða hver ég er. En ég hef sem sagt tekið þetta allt í sátt – í bili – og fundið fínan stað fyrir þetta í hillunum, sem er búið að skipuleggja, ljóðabókunum hefur aftur verið raðað í stafsrófsröð, ég er búinn að hækka skrifborðið mitt, þurrka af því kaffiblettina og panta mér nýjan stól, skúra gólfið og búa til nýjar bókastoðir. Hér er allt sem sagt að verða tilbúið fyrir næstu bók. Ég er meira að segja með frekar skýra hugmynd um uppleggið en þarf að vinna dálitla – kannski mikla – heimildavinnu áður en ég get hafist handa. Sem er auðvitað hræðilega frústrerandi. En lífið getur ekki verið endalaus rússíbanareið. Svo bíður líka nittpikk og próförk að nýju skáldsögunni. Og kápa. Auk þess er ég búinn að lofa að kynna hana einhvern veginn á Tálknafirði í næsta mánuði – er með óljósa hugmynd um hvernig ég fer að því, sem ég þarf að vinna betur í. Mig langar svolítið að fara löngu leiðina suður í haust – fara á suðurfirðina og þaðan á Strandir, Norðurland, Austurland, Suðurland og lesa upp víða og þá þarf ég eiginlega að vera með upplegg sem virkar fyrir mig einan. Og eitthvað gistingaplan sem kostar ekki handlegg – því það eru víst ekki miklir peningar í upplestrartúrum. Tálknafjörður mun sennilega skera úr um þetta – hvort þetta sé vænlegt verkefni. Ég er með einhverja óljósa hugmynd líka um að jólabókaflóðið sé bærilegra ef ég held mér bara sæmilega uppteknum.