Sýslumaður og biskup

Einhvern tíma í vor skrifaði Steinar Bragi mér og spurði hvort ég hefði áhuga á ljóðabókum úr dánarbúi og sendi mér myndir af kjölum. Ég safna ljóðabókum og pikkaði út ýmislegt áhugavert en svo dróst að ég kæmist að sækja þær. Um daginn átti ég loksins leið um Reykjavík og stökk til og náði í þetta – tvo poka af bókum – og keyrði með þá vestur. Á helginni fór ég í gegnum pokana og skoðaði og kom fyrir í safninu. Tók ég þá eftir því mér til nokkurrar furðu að margar þeirra voru stimplaðar með nafninu „Jón Hallvarðsson“ og jafnvel áritaðar „til Jóns Hallvarðssonar“. Ég spurði Steinar út í þetta og hann sagði mér að langafi sinn – sem lést 1968 – hefði heitið þetta og verið sýslumaður á Stykkishólmi. Og þá var mér eiginlega öllum lokið. Ein aðalsöguhetja bókarinnar sem ég lauk við fyrir fáeinum vikum – ef ekki bara stjarna bókarinnar – heitir nefnilega Jón Hallvarðsson og er embættismaður frá Stykkishólmi. Að vísu ekki sýslumaður heldur biskup – yngsti, fegursti og óviljugasti biskup Íslandssögunnar – en það er sama. Það fylgir því talsverð óraunveruleikatilfinning að raða ljóðabókum í hillurnar mínar sem stimplaðar eru með þessu nafni á sama tíma og ég er að lesa bókina aftur og aftur. *** Ég er annars frekar peppaður fyrir þessu jólabókaflóði. Kannski væri ráð að halda það bara á sumrin. Maður er svo miklu peppaðri í júní en í nóvember. Svo skrifaði ég líka fyrstu tvær setningarnar í næstu bók áðan. Ég er ekki síður peppaður fyrir þeim.