Sjálfstætt fólk

Sænski útgefandinn minn – og góðvinur – kynnir mig stundum á svið með þeim orðum að ég sé eini íslenski rithöfundurinn sem hafi ekki lesið „Fria män“ eftir Halldór Laxness. Það er að segja Sjálfstætt fólk. Á dögunum kom svo fram í útvarpspistli að Kára Tulinius ofbauð svo meðferðin á Ástu Sóllilju – og fannst sálarlíf hennar svo óskiljanlegt – að hann lagði hana frá sér hálfkláraða fyrir margt löngu og hefur aldrei litið við henni aftur (né, að heyra mátti á pistlinum, neinu því sem skrifað hefur verið um hana). Um það mætti svo sem segja margt og flest af því myndi lýsa samtímanum ágætlega en við skulum láta það vera – þetta varð til þess að ýta við mér, nú væri kominn tími til að lesa þessa bók sem allir eru sammála um að sé öðrum ágætari. Fyrst ég væri alls ekki eini íslenski rithöfundurinn til að hafa ekki lesið hana. (Að vísu gæti verið eins farið um Sjálfstætt fólk og 1984 – en félagsfræðingar hafa sýnt fram á að a.m.k. fjórðungur þeirra sem segjast hafa lesið hana hafi alls ekki lesið hana; en margir þeirra telji sig jafnvel hafa gert það, af því hún er orðin hluti af einhverri almannavitund, rist í þjóðarsálina). Fyrir nokkrum vikum var ég síðan staddur í fríhöfninni og kippti með mér eintaki sem ég komst reyndar ekkert í fyrren nokkru eftir að ég var kominn aftur heim. Þá uppgötvaði ég mér til tafarlauss hryllings að þetta fríhafnareintak var með „nútímastafsetningu“ og þess utan fullt af orðskýringum neðanmáls. Einhvern tíma hafði ég íhugað að lesa þessa bók á ensku – ef ekki hreinlega bara á sænsku – í þeim tilgangi að fremja einhvers konar andleg landráð en mér hafði aldrei dottið þetta í hug, að lesa hana bara uppfærða og útskýrða í drep (a.m.k. helmingurinn af orðskýringunum er á orðum sem finna mætti í hvaða nútímaskáldsögu sem er). Ég veit ekki hvort það eru sams konar landráð – en ekki er það sérlega eðlilegt heldur. Stafsetningin truflar mig að vísu lítið, þótt mér finnist stafsetning HKL fallegri á hans eigin bókum, en neðanmálsgreinarnar voru að gera mig vitlausan – ekki af því það væri ekkert á þeim að græða heldur vegna þess að ég get ekki lesið svona með augun á þeytispani út um allar síður, fram og aftur, upp og niður. Ég legg frá mér símann og fer að lesa bók einmitt til þess að komast út úr slíku einbeitingarleysi – komast í einhvern viðstöðulausan þráð, falla inn í annan heim, sem er heill og ekki með einhverju orðabókar-voice-over-i. Og ég er ekki gæddur þeirri athyglisgáfu að geta sleppt því að lesa neðanmálsgreinarnar heldur. Ég á satt að segja mjög bágt með að ímynda mér að það sé auðveldara fyrir nútímamann (nútímaungmenni? fyrir hvern er þetta gert?) að lesa þessa útgáfu en þá upprunalegu. Það tekur áreiðanlega nokkrar síður að venjast stafsetningunni hafi maður aldrei komist í kynni við hana, og undarleg orð lærir maður að skilja af samhengi sínu, það er nú meðal annars listin að lesa – en þetta er einsog að reyna að lesa orðabók og skáldsögu samtímis. Einsog einn amerískur vinur minn orðaði það: „It’s not like it’s Beowulf“. Mér leið í öllu falli einsog ég væri kominn á skólabekk. Ég las þetta samt – mjög hægt fram yfir miðja bók, fram yfir hina hræðilegu senu sem áður var nefnd (og birtist raunar nokkrum síðum eftir að gert er gys að nafninu Tulinius – hjá kaupmanninum Tuliniusi Jensen) – og gafst svo upp og sneri mér að hljóðbókinni í staðinn. Hún er ágæt en ég hlusta eiginlega bara á hljóðbækur þegar ég er að sinna húsinu eða keyra og þessa dagana er ég að gera hvorugt. Svo þetta gengur mjög hægt hjá mér. Ég gæti að vísu hæglega fengið orginalinn lánaðan en ég er byrjaður að lesa annað (Sportswriter eftir Richard Ford byrjar vel; Blixthalka eftir Erik Helmerson var hræðileg; Áður en ég breytist eftir Elías Knörr dásemd) og ætla á aðrar slóðir. Kannski finnst mér hún ekki heldur bara góð – þótt ég sjái hvers vegna hún er það. Auðvitað er þetta „helvíti gott“ en þetta er líka helvíti tilgerðarlegt – hann er rosalega mikið að flexa og virðist hafa haldið að fólk ætti að hafa endalausa þolinmæði fyrir rómantískum deleringum sínum um eðli mannlífsins. Þær eru stundum fínar þessar „perlur í verkum Laxness“ en þær eru líka óþolandi. Þá líður mér svolítið einsog ég sé orðinn tvítugur aftur þegar ég les HKL – og ekki á góða mátann. Ég hef nefnilega ekkert gert það frá því ég var um tvítugt og las megnið – en skildi þessa eftir. Og það var sennilega bara eitthvað fleira en stælar sem gerði það að verkum að ég las ekki þessa bók fyrren nú (sem ég hef auðvitað bara hálflesið enn sem komið er – en það er víst í tísku að tjá sig um hálflesnar bækur). Annars er bara allt mjög gott að frétta!