Ég er farinn í sumarfrí. Sem gæti reyndar þýtt að ég bloggi meira, frekar en minna, þótt ég vilji helst engu lofa um það. Ég yfirgaf Ísafjörð í morgun, keyrði til Hólmavíkur og fékk mér hálftíma lúr á bílastæðinu við sundlaugina, hélt svo áleiðis í Búðardal (þar sem vera má að ég hafi séð Jón Karl Helgason út undan mér, á hlaupum – ég, ekki hann, mér var mál á klósettið og við erum ekki nema rétt svo nikk-kunnugir), þaðan brunaði ég um dalina upp á fjall og niður Bröttubrekku – sem mætti nú alveg kalla Bi-Frost, fyrir túristana – í Borgarnes þar sem ég fékk mér borgara og bensín (og pissaði meira) og stoppaði ekkert fyrren ég kom að Heklu – ekki eldgosinu, þar er ekkert eldgos, ég sá hitt eldgosið frá Akranesi, en ég er að meina bílaumboðið við Laugaveg. Þar var bíllinn minn bilanagreindur og fékk tíma í viðgerð einhvern tíma um miðjan september (þetta er að verða einsog heilbrigðiskerfið). Þá ákvað ég að fara í sund, keyrði að Laugardalslauginni þar sem var stappfullt af fólki sem var augljóslega á leiðinni í sólbað, sem mér fannst ekki sjarmerandi svo að ég keyrði upp í Árbæ – í þá laug hafði ég farið einu sinni (með framúrstefnuskáldi) og þá var tómt en nú var allt fullt af fólki með sundbolta undir hendinni á leiðinni í sólbað svo ég hætti bara við þessi andskotans sundplön og fór niður í Nauthólsvík til að hitta Hauk Má þar sem við fórum hreinlega í göngutúr. Þangað hafði ég ekki komið frá því við Haukur héldum sameiginlega upp á afmælið okkar fyrir líklega 23 árum síðan. Margt hefur breyst en ég ætla ekkert að fara að telja það upp. Eftir kaffi og göngutúr lét ég Hauk fá bók til þess að skila til Lomma fyrir mig – God’s Anatomy eftir Francescu Stavrakapoulou, en vegna nýju bókarinnar minnar þurfti ég nauðsynlega að kynna mér líkamslýsingar á Drottni almáttugum, Lommi var vant við látinn og gat ekki tekið við henni sjálfur (að á áheyrn hjá Lomma er einsog að fá áheyrn hjá páfanum). Nú loks keyrði ég í áttina að eldfjallinu, á bilaða bílnum mínum, og svo framhjá því – akkúrat um það leyti [SPOILER ALERT] sem Ásta Sóllilja lést og Sjálfstæðu fólki í flutningi Jóhanns Sigurðarsonar (á 1,5 hraða) lauk – til Keflavíkur þar sem ég fékk mér tælenskan skyndibita. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu. Hér sef ég í nótt og flýg til Svíþjóðar í fyrramálið. Þar verð ég fram að mánaðamótum en þá förum við Nadja til Montpellier í tæpar tvær vikur.