Mig langar í nýtt hljóðfæri. Í vor var ég mikið að skoða fimm og sex strengja bassa – einhvern eins ólíkan þeim sem ég á (Fender Jazz Bass með flatwound strengjum) og hugsast getur, eitthvað agressíft hljóðfæri með biti. Síðustu daga hef ég svo haft augastað á tvíhálsa hýdru frá Ortega – sem er tenór-ukulele að neðan en bassa-ukulele að ofan. Ég hef líka verið að skoða mandólín. Áðan las ég svo grein í New Yorker – frekar tilgerðarlega, einsog við á í því riti, en samt einlæga, hugsa ég, og að mörgu leyti fallega – um það hvað hljóðfæri gætu kennt manni um lífið og tilveruna. Og þá fór ég að hugsa um oud og dan bau og fleira gott. Ég er vel að merkja hljóðfærislaus á ferðalagi. Við erum núna hjá bróður Nödju og þar er blessunarlega bassi og klassískur gítar sem ég rauk í strax og við komum inn um dyrnar. Einsog fíkill eftir viku abstínens. Í Svíþjóð er allt annars gott. Vinir okkar, Dóra og Bjarki og fjölskylda, hafa verið í heimsókn. Við eyddum nokkrum dögum í bústað – syntum í stöðuvatni og héngum í heitum potti og grilluðum og sulluðum í bjór. Nú erum við í Västerås – þar sem við höfum meðal annars sýnt þeim fyrstu H&M búðina. Á morgun ætlum við svo að skoða dómkirkjuna. Milan Kundera dó og þá fór ég að rifja upp Óbærilegan léttleika tilverunnar – ég les alltaf Brandarann reglulega en hef ekki litið í léttleikann frá því upp úr aldamótum. Sennilega fer samtíminn fram á að maður lesi hana með kynjagleraugunum einum saman – með þótta ef ekki festu – sem er synd því hún er stórmerkileg ef maður leyfir þeim ekki að vera eina túlkunarlinsan. Og hugsanlega segir manni hún einmitt líka margt um feðraveldið ef maður leyfir henni að tala án þess að líta á hana sem manífestó um konur (sem mér hefur stundum sýnst fólk gera). Ég er ekki heldur viss um að það þyki fínt lengur að vera mjög gáfaður rithöfundur. Eða vera á öndverðum meiði við velmeinandi fólk. Í næstu viku förum við Nadja svo til Frakklands. Þar er víst fremur óþægilega heitt. Við verðum í tvær vikur – ég að vinna og Nadja á ráðstefnu. Ég sef illa – vakna yfirleitt eftir 4 tíma og móki svo í 8 tíma í viðbót og fer þá fram úr gríðarþreyttur. Enn með hælspora og fótafúinn einsog gamalmenni. Þreyttur í öxlum og baki en fæ endalausar auglýsingar á netmiðlum við verk í mjóbaki – sem er um það bil það eina sem hrjáir mig ekki. Samt finnst mér einsog netið sé að njósna um mig. Því ég hef engu gúglað og ekkert gert til að gefa í skyn verki mína – nema þetta, hér, nú, að blogga um það. Annars líður mér ágætlega.