N’importe qui

Á meðan Nadja situr námskeið um hvernig maður kennir frönsku sit ég heima á hóteli og læri frönsku einn og óstuddur. Eða svona – ég nota duolingo, youtube og smásagnahefti. Og nýja tvíhálsa bassa-og-tenór ukuleleið mitt til þess að syngja Les Champs Elysée. Í gær fór ég líka í bíó á stórgóða ítalska mynd með frönskum texta – Vers un avenir radieux / Il sol dell’ avvenire – og skildi allt sem ég þurfti að skilja. Ég hef í sjálfu sér lengi getað stautað mig í gegnum einfalda franska texta án þess að geta notað málið að ráði – ég skil illa það sem aðrir segja og orðaforðinn minn er nær allur passífur (þ.e. ég þekki orðin oft þegar ég sé þau skrifuð, en get illa kallað þau fram sjálfur). Eiginlega er synd hvað ég er góður í bæði frönsku og þýsku án þess þó að vera nógu góður til þess að þau gagnist mér að ráði – ég get eiginlega ekkert talað þau og lítið lesið af bókmenntum. Nema hvað. Loturnar hér eru þá: skrifa, læra, skrifa, spila á ukulele, læra, skrifa, borða, skrifa, læra, spila á ukulele, göngutúr, borða, göngutúr, sofa. Með þessu öllu hef ég ógrynni af svörtu kaffi, eitthvað af víni, smá pastís, smá bjór og talsvert af hvítu brauði. *** Áður en við komum sáum við Barbie myndina með krökkunum. Það var í Västerås. Sennilega er þetta meira fullorðins mynd en barna – eða meiri barna og fullorðins en minni unglinga. Krökkunum (10 og 14 ára) fannst hún alveg skemmtileg en ég held þau hafi átt von á meiru. Kannski hélt ég bara sjálfur að þau yrðu upprifnari og varð hissa þegar þau urðu það ekki – internetið blekkir mann stundum svo, lætur mann halda að fólk sé spenntara en það er. Mér fannst hún fyndin en kannski ekki mikið meira en það – það truflaði mig sennilega talsvert þegar farið var að gera grín að körlum sem spila á gítar fyrir kærusturnar sínar („Ekki mynd fyrir óörugga karlmenn“ var einhver fyrirsögn, kannski í mogganum, og ég þekkti mig þar aftur – ég er líka aldrei eins óöruggur og þegar ég sit með gítar í fanginu og reyni að komast yfir tilhugsunina um að einhver heyri í mér). En nei, grín, það truflaði mig ekkert (mjög) – hins vegar gat ég ekki látið hjá að hugsa að þessi mynd væri svolítið einsog markaðsdeildin hefði skrifað hana sjálf og ákveðið að velja ekki neinn sérstakan markhóp heldur tikka bara í öll boxin. Þannig er hún bæði ægileg kroppasýning og body-positive, bæði langdregin auglýsing fyrir glóbal vörumerki og gagnrýni á kapítalismann (og svona gagnrýni á kapítalisma er auðvitað löngu orðin markaðsvara í sjálfri sér – ég á líka bolinn og hann var áreiðanlega saumaður af launalausu barni í Bangladesh), bæði alvörulaus skemmtun, óður til léttleikans og brýn gagnrýni á ónýtan heim. Það mætti meira að segja segja að hún sé bæði feminísk og andfeminísk – ef það er túlkað svo að Barbie-heimurinn sé Raunveru-heimurinn á hvolfi eru Barbie og vinkonur hennar auðvitað ígildi Karla, sem þrátt fyrir augljóst hæfi sitt og vanhæfi hins kynsins missa stöðu sína í nafni innihaldslausrar félagsfræði sem einhver heilalaus dúfus nær í á háskólabókasafni í útlöndum (einsog þar sé eitthvað hægt að læra). Mér finnst blasa við að það sé a.m.k. þannig sem karlrembunum líði upp á síðkastið. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart síðan að mynd sem höfðar til allra skuli verða vinsælasta mynd ársins. Annars er ég líka búinn að vera að lesa – endurlas frú Bovary og frumlas Tenth of december og gaf Annie Ernaux sinn þriðja séns, eftir að hafa fundist tvær bækur hennar æði ómerkilegar, og það reyndist auðvitað algerlega þess virði. The Years, einsog hún heitir á ensku – þar sé ég loks höfund sem á öll sín nóbelsverðlaun skilið, þar er samband höfundarins við minnið – sem hún er svo prísuð fyrir – loksins eitthvað til þess að bíta í, og hversdagsleikinn meira en bara eitthvað meh.