Aflýsingamálin (og ólæsið)

Ég tók ekki covidpróf af því ég væri slappur. Ég gerði það ekki heldur bara af því að dóttir mín er veik, heldur vegna þess að í ofanálag átti ég að lesa bæði hjá bókaklúbbi eldri borgara og á elliheimilinu fyrir enn eldri borgara – og allur er varinn góður. Og fékk auðvitað fullt hús á prófinu. Þetta var í morgun og nú er ég slappur. Það er næstum einsog ég hafi veikst af því að taka prófið. Auðvitað getur bæði verið að maður veiti því litla athygli að maður sé slappur þegar maður er bara á fúll fart í lífinu og hefur ekki tíma til veikinda – og að prófin hafi geðvefræn áhrif og maður beinlínis lyppist niður gagnvart óyggjandi niðurstöðum þeirra. Við Nadja erum bæði frekar gjörn á að verða ekkert veik fyrren við erum komin í frí. Sem er auðvitað bagalegt. Það er miklu skárra að verða veikur þegar maður á að vera í vinnunni (ég var eitthvað að grínast með það líka í morgun að þetta væri agalegt, ég fengi ekki einu sinni frí á Fiðlaraæfingu). En ég aflýsti ellismellunum og líka upplestri hjá Félagi kvenna í fræðavísindum á morgun. Svo hef ég ekki undan að afþakka upplestra í Reykjavík nú loksins þegar ég er ekki lengur á höfuðborgarsvæðinu. Afþakkaði líka eitthvað sprell í Gísla Marteini. Ég held í vonina um að komast í Vísindaport í Háskólasetrinu á föstudag – það gæti orðið síðasta gigg fyrir jól. Veit auðvitað ekkert hvenær ég smitaðist og get varla sagt að ég sé með „einkenni“ þótt ég liggi í rúminu – með þreytu annars vegar og undarlega lykt í nösunum hins vegar. Ég testa mig út úr húsi á endanum. Annars er fremur jólalegt hérna milli þess sem maður er með böggum hildar yfir ÚTL og Palestínu og skökku niðurstöðunum frá PISA. Ég get varla hugsað af gremju út af fyrstnefndu atriðunum – og hef tjáð mig um þau á FB – en PISA er auðvitað bara að mæla það sem við vitum öll. Ég yrði ekki hissa þótt mælingar myndu líka sýna að okkar eigin lesskilningi – roskinna góðborgara sem fengu fínar PISA niðurstöður á sínum tíma – hafi líka hrakað mjög. Það er allavega alveg á hreinu að bóklestur hefur hrunið. Og bóklestur karla hefur sennilega dregist alveg jafn mikið saman og lesskilningur drengja. Við lesum sjálf nærri því allt á skjá – eða skjám, réttara sagt, með marga glugga opna, skimandi málsgreinar meðan tilkynningar pípa úr öllum áttum og auglýsingar gala á athygli okkar. Og ráðum í samræmi við það illa við að vinna úr þeim upplýsingum sem við meðtökum – og missum af. Þetta er ekki barna- og unglingavandamál heldur vandamál alls samfélagsins. Við erum öll smám saman að verða ólæs. Þetta er eftir öðru því við mælum líka gæði texta – hvort sem það eru bókmenntir eða fréttir eða annað – í smellum. Í því hversu miklar auglýsingatekjur þeir framleiða. Hversu mikinn hagvöxt. Í því hversu hratt við færum okkur frá einum texta að þeim næsta. Sem er eins handónýtur mælikvarði og hann getur orðið, því hann kallar á að við förum á hundavaði í gegnum allt – það má ekkert halda athygli okkar í meira en nokkrar sekúndur af því það er beinlínis gróði í því að við drífum okkur strax yfir í næstu skilaboð, næsta texta. Þessi augnablik sem við veitum hlutum athygli eru markaðsvara – sennilega verðmætasta vara sem fæst á annað borð keypt. Athyglisveiðamaskínan malar gull og það er stórtap á hverjum þeim textaneytanda sem slær slöku við – sá sem slekkur á vélinni er beinlínis ógn við hagkerfið. Lengri textar – að ég tali nú ekki um bækur – keppa ekki við þetta (og eiga ekki að gera það – í guðanna bænum – það sem lengri textar hafa til síns ágætis snýst um hitt, rýmið fyrir sleitulausar ótruflaðar hugsanir og eilífðina sem glittir í að baki þeirra). Og við hömpum bókum líka fyrst og fremst með því að rýna í sölutölur þeirra – sem segja ekkert um gæði, ekkert um endingu, ekkert um hvort þær hafi ögrað skilningi okkar á heiminum, uppljómað okkur eða einu sinni skemmt okkur. Þetta er ekki gott og fer ekki vel.