Lífið einkennist af stressi og eirðarleysi til skiptis. Ég veit ekki hvort þetta heitir jólastress eða þriðja vaktin eða hvað – fyrir utan allt annað er dagatal annars barnsins svo þéttbókað að hún þyrfti eiginlega að vera með mann í fullri vinnu við að minna sig á allt sem hún þarf að gera. Gagnvart mörgu öðru er ég sennilega bara með samviskubit að hafa ekki tekið nægan þátt. Það er líka orkufrekt að vera með samviskubit. En ég er að reyna að vera ekki meðvirkur með þessu öllu saman – sjálfboðastörf eru kölluð sjálfboðastörf einmitt svo þau megi aðgreina frá skyldustörfum. Heimilisstörf eru svo þarna mitt á milli einhvers staðar – það verður að sinna þeim en það má líka fresta þeim ansi lengi, einsog dæmin sanna. Ég tók mér frí í vinnunni í gær til þess að taka til og skúra. Það er auðvitað ákveðinn lúxus að geta það en það vill líka til að ef ég er ekki að lesa upp eða sprella eitthvað er ekki mikið gagn af mér í vinnunni í desember. Það eru takmörk fyrir því hvað ég get grobbað mig mikið á Facebook á einum vinnudegi. Og svo verð ég líka að minna sjálfan mig á, þegar ég fæ samviskubit yfir því að taka mér skúringafrí, að ég byrjaði árið á 4-5 mánaða frídagalausu tímabil (skrifaði s.s. allar helgar og páska og alla daga) og tók svo aftur mánuð frídagalaust á túrnum. Ég má alveg taka mér frí og ég má meira að segja taka mér frí til þess að gera eitthvað skemmtilegra en að skúra og það væri enn í lagi þótt ég væri að skrópa í sjálfboðastörfum. Ég er sem sagt að reyna að fá frið í kollinn á mér, eina ferðina enn. Þetta er eilífðarverkefni. Fljótlega eftir áramót ætla ég að skrúfa niður í samfélagsmiðlunum og netfréttunum líka. Ég gerði þetta 2022 – „hélt út“ í um 8-9 mánuði án annarra miðla en prentaðra eða útsendra á ljósvakanum. Las mjög mikið Moggann! Sem var skárra en maður gæti haldið, en saup samt alveg hveljur af og til. Hlustaði á morgunfréttir klukkan 8 og horfði á kvöldfréttatímann. Og las bækur og horfði á bíómyndir. Og missti þar með ekki af neinu sem máli skiptir. Ég var næstum búinn að ýta Generation X eftir Coupland að Aram í fyrradag – gluggaði inni í hana og ákvað að þetta væri kannski aðeins of mikið, minnti að hún væri meira léttmeti – en fór svo með hana sjálfur upp í sófa. (Aram tók Myrkrið milli stjarnanna eftir Hildi Knúts). Þetta er ríflega þrjátíu ára gömul bók sem á að lýsa þjóðfélagsástandinu einsog það blasti við fólki sem þá var um þrítugt – X-kynslóðinni, elstu fulltrúar hennar eru þá um sextugt núna en þeir yngstu á mínum aldri. Þetta er frá því fyrir internet, fyrir tik tok og adhd og áhrifavalda og útbreidd þunglyndislyf – þetta er meira að segja frá því fyrir Grunge-tónlist, frá þeim tíma þegar það þótti enn dálítið undarlegt að hvítt fólk væri að hlusta á hipphopp (þetta er ári eftir Ice, Ice, Baby, ári fyrir I’m Too Sexy). Þetta er í fornöld og í sem stystu máli hefur ekkert breyst. Kjarnorkuógnin er minni (í hjörtum okkar, í raunveruleikanum er hún söm) en loftslagshlýnunarógnin meiri. Fólk er sítengdara – það skilur ekki eftir skilaboð á símasjálfsvörum, fólk er aldrei fjarri, alltaf í símanum – en nevrósan er sú sama. Ósjálfstæðið. Vonleysið. Poppkúltúrsbrjálæðið. Neyslusamfélagið. Skyldan til sjálfsuppfyllingar. Þegar ég las þessa bók síðast var ég áratug yngri en sögupersónurnar – varla tvítugur og sennilega enn með augastað á því að fara í skóla, ekki kominn að þessu hyldýpi sem blasir víst við fólki þegar það vill eða getur ekki menntað sig meira og þarf að fara að „koma sér fyrir í þjóðfélaginu“. Coupland skrifar einhvers staðar að þetta fólk geti ekki keypt sér fasteign og klæðist því peningunum sínum, eyði þeim í dýr föt. Sumir eru PC aðrir eru edgy. Veröldin er að farast. Sumt þarna er kunnuglegt úr eigin lífi en annað ekki – ég hef t.d. aldrei verið neitt stefnulaus, a.m.k. ekki um hvað ég ætli að „verða“. Í dag er ég einum og hálfum áratug eldri en sögupersónurnar – það sem var stefnulaust fullorðið fólk fyrir mér er nú stefnulausir krakkakjánar. Sögupersónurnar eru allar barnlausar – og sjá sig sem börn foreldra sinna, þau eru sjálf yngsta fólkið í bókinni og fyrst og fremst umkringd öðru barnlausu fólki um þrítugt. Hættir maður ekki að sjá sig sem barn fyrren maður eignast börn sjálfur? Hvenær gerist það? Hvenær gerist það hjá þeim sem eignast alls engin börn? Þegar ég segi barn á ég ekki við aldurinn – í aldri erum við öll börn, öll með innra-barnið í vasanum, það gægist fram og tekur stjórnin af og til, við erum bara að þykjast vera fullorðin – heldur þetta kynslóðasamband. Að sjá sig enn sem framtíðina. Sjá foreldra sína sem hverfandi fortíð. Og svo þegar maður hættir að sjá sig sem framtíðina, fer jafnvel að örvænta um að tíminn sé að verða uppurinn – fyrst að maður sé ekki lentur á nógu góðum stað til þess að dvelja á þennan bróðurpart ævinnar sem tekur við, og svo að maður sé hreinlega bara að fara að drepast. Hvað varð um æskuna mína, spyr fólk þá. En að því spyrja þau ekki, sögupersónur Generation X, þau eru mest í því að drepa bara tímann. Það liggur við að þeim væri nokkur huggun að uppgötva að þau væru við grafarbakkann. Það hvarflar að mér eftir lesturinn að Generation X fjalli eiginlega ekkert um þessa kynslóð – mína kynslóð – heldur bara allt þrítugt barnlaust fólk í nútímanum, a.m.k. frá 1991 til dagsins í dag. Hún sé þannig hin fullkomna kynslóðarbók og allar kynslóðir séu þaðan í frá X. Annars hugsa ég meira og meira um að losna af hefðarklafanum. Það gerist eðlilega ekki meðan maður er með börn heima – börn á grunnskólaaldri eiga skilið næði frá rótleysi foreldra sinna meðan þau eru að verða til – og kannski gerist það aldrei en mig dagdreymir samt stundum um að draga saman, selja dótið, fara á flakk og verða laus undan hlutum einsog jólastússi – að ég tali nú ekki um skúringafríin. Þá kannski fæ ég frið í kollinn á mér.