Mér finnst erfitt að tjá mig um Ísrael. Í síðustu viku flutti ég ræðu á samstöðumótmælum með Palestínu og tjáði mig meðal annars um þessa erfiðleika, en lagði, einsog eðlilegt er, fyrst og fremst áherslu á að styðja Palestínu – þar er verið að fremja fjöldamorð á saklausum borgurum og það er ekkert sem ríður jafn mikið á og að koma á vopnahléi. Varanlegur friður og friðsæl sambúð er lengra og flóknara mál – þetta er infekterað ástand – en tafarlaust hlé á árásum er skýr og augljós krafa sem allir ættu að geta komið sér saman um. Hún er ekki flókin. Hvað sem manni finnst um ástandið almennt – öll erum við með lausnir á reiðum höndum – þarf að stöðva þau voðaverk sem er verið að fremja núna. Ég get samt ekki internetið þegar kemur að umræðu um Ísrael og gyðinga. Mér finnst blasa við að andsemítismi sé í ógurlegum blóma í Evrópu – ekki síst á Íslandi og norðurlöndunum – og finnst óafsakanlegt að fólk leyfi sér að daðra við slíka fyrirlitningu í nafni þess að styðja Palestínu. Það er ekki empatía, það er bara heift – og hún getur ekkert af sér annað en meiri heift – og skilar málstaði Palestínumanna engu. Sumt af því sem sagt er um Gyðinga, Ísraela og Ísraelsríki (sem eru þrír aðskildir hlutir) þessa dagana ber óþægilega mikinn keim af Gjörðabókum öldunga Zíons . *** Ég man ekki hvað það var sem RÚV sagði að Svíar hefðu gúglað mest á árinu en það var ekki það sama og sænskir fjölmiðlar sögðu að þeir hefðu gúglað mest. Í fyrsta sæti samkvæmt sænskum miðlum var „Hvað er Hamas?“ og í öðru sæti var „Hvað er ljóðlist“ („vad är lyrik“). En ætli það þýði að færri viti hvað Hamas er en vita hvað ljóðlist er? Eða ætli það þýði að þangað til í ár hafi margir hvorki þekkt til Hamas eða ljóðlistar og nú viti allir allt (sem stendur í wikipedia-færslunni) um bæði? Hafa Svíar fræðst eitthvað á þessu gúgli? Minn gamli ritstjóri og núverandi framkvæmdastjóri Forlagsins, Sigþrúður Gunnars, var til viðtals í Víðsjá á dögunum ásamt formanni FÍBÚT, meðal annars til þess að komast til botns í því hvers vegna ljóð hlytu síður tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sögðu þau margt forvitnilegt og Sigþrúður kom meðal annars inn á að ljóðskáldin sem ynnu (eða væru tilnefnd) hefðu alltaf þurft að vera mjög óumdeild og rótgróin – Stefán Hörður, Gerður Kristný, Þorsteinn frá Hamri und so weiter. Ljóðlistina í dag einkenndi gróska og tilraunamennska og væri hún þar með ólíklegri til að fá verðlaun. Ég held ég taki undir helminginn af þessu. Verðlaunaljóðskáld eru ljóðskáld af tilteknum toga og kannski koma ekki út margar ljóðabækur af verðlaunatagi um þessar mundir – það þarf helst að tala af einhverjum hól, í það minnsta vera á stalli, svolítið landsföðurlegur, módernískur (en alls ekki of módernískur, það þarf líka að „ná máli“), vera með hefðinni í liði og kunna sig innanum fólk. Og kannski eru mest áberandi ljóðskáld dagsins í dag ekki þannig – þótt ég hefði nú haldið að Gyrðir ætti að sleppa inn. Hann er a.m.k. „óumdeildur“ (höfum það í gæsalöppum, enginn er í alvöru óumdeildur). Og það er gróska í ljóðlist, ég neita því ekki heldur – en það er ekki nein tilraunamennska. Hvað sem gæðum og jafnvel frumleika líður eru þær ljóðabækur sem út koma allar á keimlíku ljóðmáli og falla meira og minna allar í þann flokk sem Jacques Roubaud kallaði „ le vers international libre “ – hið alþjóðlega fríljóð. Manni getur þótt það fínt – og það væri bylting ef normið væri háttbundin kvæði – en það er ekki tilraunamennska. Að minnsta kosti ekki einsog ég skil það konsept. En ef við horfum framhjá fríljóðum og tilraunaljóðum, hvað er að gerast með landsföðurljóðið og þjóðskáldið? Hvers vegna stendur það veikt? Ég gæti trúað að það hangi annars vegar saman við fall hámenningar almennt – það er enginn status í því lengur að vera vel lesinn í ljóðum, frekar en borgarastéttin getur slegið um sig með vísunum í heimspeki og klassíska tónlist, þetta er í besta falli nördalegt áhugamál, Pokémon fyrir fullorðna – og hins vegar (og kannski er þetta sama atriðið) þá er ekkert skrifað um ljóðlist í akademíunni lengur. Mér skilst það sé afar fátítt að nemar í bókmenntafræði taki fyrir ljóð í ritgerðum sínum – og þeir telji sig jafnvel ekki hafa nein verkfæri til þess að lesa þau, hugsa um það eða greina þau. Og þannig hefur það verið öll mín fullorðinsár. Skáldsagan hefur alltaf verið gjörningur á markaði á allt annan máta en ljóðið – meira að segja á þeim tíma þegar Svava, Thor, Fríða og Guðbergur voru á metsölulistunum. Lýðræðislegri, gæti maður sagt, en líka popúlískari – og á köflum sannarlega kapitalískari. Ljóðabækur hafa náð status í miklu minni kreðsum, eru vonlausasta „vara“ sem þekkist á markaði – þær eiga sér griðastað í afkimum: Í mjög borgaralegu rými; í akademíunni; í róttæka vinstrinu; hjá næma tilfinningaliðinu; og hjá framúrstefnulistafólki. Það er fyrst og fremst í tveimur fyrstu rýmunum sem verðlaunaskáldin hafa orðið til – en auðvitað hafa mörg þeirra líka náð að tala (a.m.k. eitthvað) til fólks í hinum afkimunum. Nefndin – sem mér skilst að sé jafnan skipuð bókmenntafræðingum eða fólki með álíka menntun og reynslu – hlýtur auðvitað að markerast af því að stofnunin sem hefur meðal annars haft á sinni könnu að raða í þessa hírarkíu, að rýna í, sigta út og segja okkur hver séu merkilegustu skáldin, hefur ekki gert það í 20 ár. Og borgarastéttin er bara á Baggalútstónleikum og Bubbasjóinu með öllum hinum. Besta ljóðabókin sem ég hef lesið í ár er annars Anatómía fiskanna eftir vin minn Sölva Björn. Ég myndi ekki kalla hana tilraunabókmennt þótt hún sé að einhverju leyti nýstárleg. Það sem Sölvi gerir í henni er kannski að stilla sér út á báða jaðra fríljóðsins, með textum sem eru annars vegar endurtekningasamir og hversdagslegir (út yfir allan þjófabálk) og hins vegar textum sem eru botnlaust ljóðrænir og illskiljanlegir (út yfir allan þjófabálk). Og vekja mann þannig til meðvitundar um mátt orðsins – hún „performerar“ tungumálið á máta sem mér finnst íslensk ljóðskáld varla gera lengur. Og skemmtir – ég flissaði viðstöðulaust. *** Talandi um ljóð. Strætó. Eins undarlega og það kannski hljómar fór útvarpsfólkið í Lestinni í strætó á dögunum og talaði við fólk um daginn og veginn – hvað það væri að gera í strætó og svona. Ég ætlaði svo sem ekkert að segja um það, beinlínis, heldur nefna bara aðeins að stundum festumst við í þessari tvíhyggju – að maður geti ýmist farið sinna ferða í einkabíl eða ekki-einkabíl: í strætó, hugsanlega á hjóli eða rafhjóli og þeir róttækustu vilja jafnvel neðanjarðarlest eða sporvagnakerfi. En auðvitað er fyrst og fremst fáránlegt að við skulum velja að skipuleggja líf okkar þannig að við komumst ekkert án samgöngutækja. Að þau séu forsendan fyrir sæmilega virkri þátttöku í mannlífinu. Við ættum að „kjarna okkur“ meira og ganga. *** Og talandi um tvo jafnfljóta. Á ég ekki að nefna bestu skáldsöguna líka? Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur. Ef ég ætti hana ekki myndi ég biðja um hana í jólagjöf og ég mun sannarlega gefa öðrum hana. Ef ég hefði verið spurður í haust hvaða bók mér þætti líkleg til að klára sísonið klyfjuð af bikurum hefði ég svarað Armeló . Agndofa af aðdáun. Og talandi um verðlaun – ég er sannarlega þakklátur fyrir tilnefningu Náttúrulögmálanna og stemningsmaður fyrir öllu svona, guð blessi stemninguna – þá er ágætt að halda því til haga að verðlaun eru samkvæmisleikur en ekki blessun óskeikuls almættis. Svo við skoðum bara síðustu tvö ár fengu hvorki Tugthús Hauks Más né Merking Fríðu Ísberg tilnefningu. Þær eru samt merkilegustu skáldsögur síðustu tveggja ára. Maður er ekki viðræðuhæfur nema maður hafi lesið þær. Að mínu óskeikula mati.