Untitled

Nadja kemur heim A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jun 11, 2017 at 2:45am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js

Nadja kom í morgun. *** Skúli, Siggi og Aude komu í bröns. Svo fóru Aude og Nadja á kajak og þegar þær voru búnar fékk ég mér lúr. Ég svaf lítið í nótt og rauðvínið frá því í gær lagðist illa í mig – þótt það hafi vel að merkja ekki verið mjög mikið. *** Síðan dundaði ég mér við að gera pizzu. Eina með bologneseafgöngum, eina með kjúklingi og allskonar, eina með skinku og ólífum og eina með rækjum, ansjósum og alls konar. *** Eftir kvöldmat horfðum við á Rogue One: A Star Wars Story. Þá erum við Aram Nói búnir að horfa saman á allar Star Wars myndirnar. Nema þrjár: Ewoksmyndirnar tvær og Jólamyndina. Ég finn þær hvergi textaðar. En þessi grunnsaga er komin og okkur er ekkert vanbúnaði að fara í bíó þegar næsta kemur út. „Nú mega jólin koma fyrir okkur“, einsog maður segir. *** Ég skil ekki fólk sem talar um Macron í Frakklandi sem vinstrimann. Einhvers konar krata. Það er sami mislestur og að Tony Blair væri krati. Eða að bandarískir demókratar séu kratar. Þetta eru allt frjálslyndir auðræðissinnar. Fólkið sem vill fjarlægja öll höft af fjármagnsmörkuðum, leyfa kapítalistunum bara að ráða þessu. Af því að money knows best. *** Það var annars leiðinlegt veður í dag. Kalt. Rok. Ég hefði átt að fara að vinna en er bara alveg máttlaus og viljalaus. Listamannslífið er að gera út af við mig. *** Upp á síðkastið lendi ég æ oftar í samræðum um myndlistargagnrýni. Hvernig sem á því stendur. Ekki er til nein myndlistargagnrýni til þess að ræða. Og myndlistarsýningar eru meira og minna non-event – óburðir, ef ekki hreinlega útburðir. Myndlistin í landinu og almenningur eru í fýlu; og nú er að fara eins fyrir ljóðlistinni. Ég spái því að skáldsögurnar fari næst – einfaldlega af því að ritdómarnir eru ekki nógu krassandi, það er ekki nógu mikið í þá spunnið, almennt séð, þeir eru ýmist skrifaðir af póstmódernískri afstöðu til þess að taka viljann fyrir verkið (gagnrýnendur hafa þá enga eigin fagurfræðilega afstöðu heldur meta verkið algerlega út frá eigin forsendum – slíkt nennir enginn að lesa, þá mætti allt eins bara mæla bókina, hæð, breidd og þyngd, og birta með stjörnugjöf) eða af svo takmarkaðri andagift, skilningi á skáldskap eða líf og fjöri að maður kemst varla í gegnum þessi 200 orð sem þeim er úthlutað í þessum aukakálfum sem ætlaðir eru til að selja auglýsingar fyrir reyfara. Leiklistarrýnin verður síðust – því þar er þrátt fyrir allt enn smá metnaður í skrifum, þar er skrifað þannig að takast megi á um það sem sagt er, þótt það sé misgáfulegt. *** Guð hvað ég vona að ég sofi almennilega.