Klukkan er að nálgast miðnætti. Ég var að senda barnapíuna heim. Allt virðist hafa gengið vel. *** Viðburðaríkur dagur. Einn af þessum sem manni finnst eftirá að hafi verið heil vika. Við byrjuðum á morgunverði saman, sá trekvartur fjölskyldunnar sem er á svæðinu. Hann var ekki flókinn – ekki pönnukökur einsog í gær, eða boozt eða annað álíka, heldur kornflex og koddar (havre fras). Svo skelltum við okkur á hjólin og héldum í siglingu með Páli Pálssyni í tilefni dagsins. *** Páll Pálsson hefur þjónað Ísfirðingum (og Hnífsdælingum) í 45 ár; oft verið meðal aflahæstu skipa landsins. Þetta er pláss, einsog heitir, alvöru pláss. En nú lýkur þjónustunni. Hugsanlega á Páll bara einu sinni enn eftir að koma að landi í Ísafjarðarbæ – ein löndun eftir. Við kvöddum hann, ég, Aram og Aino – og sægur bæjarbúa sem flestir eru, einsog við, nokkuð yngri en Páll. Alla siglinguna þvældumst við fram og aftur bátinn og nutum okkar mjög, skoðuðum hvern krók og kima, dáðumst að hafinu, stálinu og trollinu. *** Eftir siglingu fórum við í grillveislu við Guðmundarbúð í boði björgunarsveitarinnar. Átum pylsur og sóluðum okkur. Því næst heim – skutluðumst með hraði í málningarbúðina þegar við áttuðum okkur á að það færi að loka, rétt náðum tveimur lítrum af hvítri steinsteypumálningu, málningarteipi og litlum karmapensli (til að mála gluggakarma, ekki sitt eigið karma). Svo léku krakkarnir sér um stund á meðan ég tók aðra umferð á bílskúrsvegginn. Það var svo heitt á pallinum að það var óþægilegt að vera berfættur. Þannig er það ekki alltaf. *** Á meðan ég var að mála – krakkarnir höfðu stungið af út í bæ – kom Aram Nói aftur með neyðarkall. Aino var svo illa slösuð úti á leikvelli (hafði að sögn grátið í korter viðstöðulaust) að ég þyrfti að koma og fara með hana út á spítala. Ég rauk auðvitað af stað en þegar ég kom á Skipagöturóló voru harmurinn og sársaukinn að mestu liðnir hjá. *** Þegar ég kom aftur heim lauk ég við að mála, henti mér í sturtu og rakstur, skipti um föt og fór á myndlistaropnun í gamla Slunkaríki, sem nú heitir Gallerí Úthverfa. Þar var Haraldur Jónsson með sýningu sem nefnist Innhverfa/Úthverfa og ég skrifaði texta fyrir – eins konar myndlýsingu, eða viðburðarlýsingu, frá því þegar við Haraldur skoðuðum verkið í skítakulda um miðja síðustu viku. Það var nokkuð önnur upplifun en núna. Sem var viðeigandi, þegar maður spáir í verkið (þið þurfið að sjá þetta verk, maður sér það í gegnum göt á glugganum). Mynd: Melkorka Ólafsdóttir. *** Á sýningunni voru líka Bjarni Ben og Illugi Gunnarsson. Halli kallaði okkur Bjarna póla Íslands, og ég var mjög ánægður með það. Ég heilsaði Binnu vinkonu minni og leið skringilega með hversu illa ég hef talað um Illuga, manninn hennar, á opinberum vettvangi. Meina þó allt sem ég hef sagt – hann var voðalegasti menntamálaráðherra landsins frá því ég man eftir mér og ég hef litla trú á honum hjá Byggðastofnun. Þótt ég kveði ekki fastara að orði að sinni. En það er asnalegt að tala svona um eiginmenn vina sinna. Að þurfa þess. *** Við ræddumst ekkert við og þekkjumst enda ekkert (Bjarni var mestmegnis í símanum og svo hurfu þeir bara ásamt sínu fólki). En þegar þeir voru farnir ræddum við hin dálítið um það hvort stjórnmálamenn yrðu fyrir miklu aðkasti á götu, vegna starfs síns. Hvort fólkið sem á ættingja sem hefur þurft á aðhlynningu sjúkrahúsa að halda – sem hefur verið gert gjaldþrota með lyfjakostnaði – eða ókleift að stunda nám vegna aldurs eða fjárskorts – hvort það kasti sér aldrei á þá, hræki á eftir þeim á götu, eða æpi að þeim ókvæðisorð. Ég held það gerist sjaldnar en maður heldur. Og sennilega ætti það að gerast oftar. Bjarni og Halli á opnuninni. „Svo bara tók ég hann og braut hann í tvennt, einsog trjágrein, bara snapp.“ Mynd: Melkorka Ólafsdóttir. *** Mér skilst að Illugi og Bjarni hafi mætt blaðskellandi á sýninguna. Léttir eftir langan hádegisverð á Tjöruhúsinu. Og þegar þeir hafi nálgast hafi gestir spurt sig hvort þar færu kannski sjómenn í landi – að fagna deginum, hlæjandi svo fjöllin nötruðu. En þá reyndust það bara vera Illugi og Bjarni. Að hlæja að einhverju í farsíma annars þeirra. *** Það sló mig – og slær mig oft – að stjórnmálamenn eru meira og meira einsog teiknimyndaillmenni. Bjarni er þannig, með þessa ofsalegu kjálka – bláeygða ófyrirleitnina – og auðvitað kökuskreytingarnar. EngeyjarWildBoy. En erkitýpurnar þessi misserin eru Donald Trump og Pútín. Þeir þrír þurfa ekki að eiga meira sameiginlegt – þessum samanburði lýkur í það minnsta hér – en þeir eru allir svolítið teiknaðir. *** Eftir opnun hjólaði ég út í bæ þar sem Aino var komin á leiksýningu – henni hafði verið boðið á Litla ljóta andarungann. Miðar kostuðu 2.300 krónur og ég hafði veigrað mér við að borga það – en svo var henni sem sagt boðið af móður vinkonu sinnar. Aram stóð áleiðis og fylgdist með úr fjarlægð og ég studdi það fullkomlega. Mér finnst líka ekki hægt að halda leiksýningu fyrir börn á miðju túni, á sjálfan Sjómannadaginn, og rukka 2.300 krónur inn. Að vísu var ókeypis fyrir þau börn sem eiga foreldra sem tryggja hjá Sjóvá (sem ég held reyndar að ég geri, ekki að ég muni það nógu vel). En það gerir það heldur ekkert skárra. Ef maður vill halda lokaðar leiksýningar fyrir börn þá gerir maður það innanhúss. Þetta er álíka og að rukka inn á 17. júní skemmtun (og haldið á sama stað; og á þeim stað þar sem voru oft skemmtiatriði á sjómannadaginn í gamla daga). *** Ég sagði krökkunum að koma heim strax eftir sýningu og fór heim að gera túnfisksalat og kvöldmat fyrir börnin. Bolognesesósan var enn að malla í ofninum og þau fengu hana með pasta í kvöldmat. Túnfisksalatið er fyrir morgunverð/bröns í fyrramálið með Skúla frænda (Mennska), sennilega Sigga Hoxha og hans Aude, sem og Nödju auðvitað sem kemur með morgunfluginu. Svo gaf ég börnunum, burstaði tennur og gekk frá öllu fyrir barnapíuna. Ég var sennilega aðeins of pirraður á lokametrunum. *** Barnfóstran kom hálfátta og ég stakk af upp í brekku, á Bjarg, þar sem Gunnar Jónsson bauð til kvöldverðar til heiðurs Haraldi Jónssyni og hans föruneyti – sem samanstóð af kærustu hans, Melkorku, tvíburasystrum hennar (sem eru tvíburasystur hvor annarrar, ekki tvíburar af henni, enda væru þær þá þríburar en ekki tvíburar) og foreldrum þeirra systra. Og Fjólu, dóttur Gunnars. Ég tók með mér bologneseið, sem mæltist vel fyrir, ekki síður en rækjupasta Gunnars og salöt tvíburanna. Svo var setið yfir menningarlegum samræðum fram eftir kvöldi. Þá hélt föruneytið á tónleika Skúla í Tjöruhúsinu, en ég fór heim til að leysa barnapíuna af. Allt var þetta sehr schön. *** Og nú er kominn háttatími. Því hér verða brönsgestir í fyrramálið. Buona notte.