Hér hef ég heyrt mikið af tónlist sem ég hafði ekki heyrt lengi. Veitingastaðir – sérstaklega í Kraká – spiluðu mikið af 90’s poppi og rokki. No Doubt og Metallicu. Mér fannst samt steininn ekki taka úr fyrren ég sá risastóra auglýsingu fyrir fyrirlestur með Francis Fukuyama – sem ég vissi ekki einu sinni að væri til lengur. Einhvern veginn segir það eitthvað um endalok sögunnar. Kannski lifir hann bara tíunda áratuginn aftur og aftur. Hér er kannski í einhverjum skilningi ennþá 1990 – fólk enn að díla við arfleiðina sem fylgir falli kommúnismans. (Í öðrum skilningi er ágætt að halda því til haga að ég er ekki að taka undir einhverja fordóma um að Pólland sé „eftirá“ – enda er það í fyrsta lagi fáránlegt konsept, í öðru lagi er nostalgía og 90’s æði mjög í móð um veröld víða 2024, og í þriðja lagi á það ekki við um neitt nema einstaka eiginleika – ég heyrði músík sem ég hef ekki heyrt lengi, sá plakat með Fukuyama og svo er ýmislegt staðnað í pólitíkinni). Ég átti gott spjall við fólk í gær – um pólska sögu, samskiptin við Úkraínu (sem eru sögulega erfið en allir ákveðnir í samstöðu í dag) og vinstrimennsku. Það er svo undarlegt – eða kannski er það ekkert undarlegt – að allir Pólverjar sem ég hef kynnst eru frjálslyndir vinstrimenn af einu eða öðru taginu. En allt sem maður heyrir um pólska pólitík er auðvitað ekki það – það er hrottaleg og íhaldssöm hægrimennska. Hér hljómar auðvitað sakleysislegasta vinstrislagorð einsog maður sé að kalla á endurkomu kommúnismans (vinir mínir fullyrtu að á tíunda áratugnum hefði gamli kommúnistaflokkurinn verið svo áfram um að sanna að hann væri ekki kommúnistaflokkur að hann hefði eiginlega orðið nýfrjálshyggjuflokkur). Ég fann líka fyrir því að fólk væri í vörn. Mér var margsagt að Pólverjar væru ekki íhaldssamir. Þeir væru ekki hommahatarar. Og svo framvegis. Og ætli fólki sé ekki vorkunn. Í fyrsta lagi ýkjast svona hlutir sjálfsagt eitthvað í fréttalinsunni (alveg einsog ég hitti aldrei vinstrisinnaða Pólverja les ég aldrei fréttir um Pólland sem fjalla ekki um hægrimennskuna – einsog það sé ekki annað í fréttum). Og í öðru lagi er óþarfi að gefast upp fyrir þeirri sjálfsmynd að maður sé vondur – það er áreiðanlega hollt að horfast í augu við sjálfan sig en maður má samt ekki falla fyrir rangri narratífu um sjálfan sig, skipa sig í hlutverk vonda karlsins. Ef maður ypptir öxlum og segir: jæja, þá, við hötum homma – er líklegt að það verði sannara en ella. Altso, ég skil varnarstöðuna. Ég spurði líka út í seinni heimsstyrjöldina og lögin um að maður mætti ekki tala um samstarf Pólverja við nasista en veiddi lítið – vinir mínir sögðu að það væru engin lög í Póllandi sem takmörkuðu tjáningarfrelsið (note to self: skoða það nánar) og þótt þeir tækju undir að auðvitað hefðu sumir Pólverjar unnið með nasistum þá virtist þekking þeirra á sögu pólska samstarfsins talsvert takmarkaðri en þekkingin á pólsku andspyrnuhreyfingunni. Altso, þegar ég spurði um óþokka fékk ég sögur af hetjum. Aftur varnarstaða sem ég skil og þegar ég fór yfir það sem ég þekki af litháískri sögu í þessum efnum (sem er umtalsvert meira en ég veit um pólska sögu) kinkuðum við öll kolli og sammæltumst um að við ættum öll rætur í bæði óþokkaskap og hetjuskap – myndin væri margbrotin og það væri áskorun að takast á við hana og að við værum öll (mismikil, kannski) fórnarlömb sögunnar. Eitt sem mér verður líka reglulega hugsað til hérna: Á sjöunda áratugnum flykktust sænskar konur til Póllands í fóstur … ég get ekki vanið mig af þessu. Þungunarrof. Af því sænska folkhemmet var íhaldssamt en pólski kommúnisminn ekki – kommúnistar ætluðu a.m.k. í orði kveðnu líka að útrýma feðraveldinu, en sósíaldemókratar, sem hafa gjarnan verið hófsamari, stóðu vörð um það á norðurlöndum. Í dag hefur þetta snúist við – eftir hrun kommúnismans tók kaþólskan eiginlega við sem móralskur vegvísir – og sænskir sósíaldemókratar eru hættir að verja feðraveldið (og raunar hættir að verja jöfnuð líka – hafa hlutað sundur folkhemmet og selt einkaaðilum). Að vísu held ég að Svíar takmarki fóstureyðingar við fólk sem er með fasta búsetu í landinu svo þeir eru kannski ekki byrjaðir að endurgjalda pólskum konum greiðann frá því í gamla daga – en það kannski kemur að því.