Þrjú flug

Þrjú flug. Það er það sem ég þarf yfirleitt til þess að komast eitthvað. Eitt frá Ísafirði, eitt á einhvern flugvöll til millilendingar og svo eitt þaðan á áfangastað. Og svo þrjú til viðbótar til baka. Ekki getur þetta verið mjög gott fyrir umhverfið. Mestu skiptir samt hvað mér sjálfum leiðist þetta. Ekki kannski flugið sem slíkt en allt havaríið í kringum það. Fyrst flýg ég til Varsjár – þar þarf ég að sækja töskuna mína og tékka mig aftur inn í Keflavíkurflugið. Svo þarf ég að gista í Keflavík (enda komið fram yfir miðnætti þegar ég lendi). Og á morgun flýg ég svo heim. Mig dreymir um að fljúga beint. Ef einhver finnur upp sjálfstýrandi flugbíl skal ég gerast vinur einkabílsins. Annars finnst mér skemmtilegast að fara um fótgangandi. Nú eða á hlaupum, það er líka ágætt, þótt ég hafi lítið notað hlaupin beinlínis til þess að komast á milli staða.