2-1

Fluginu mínu var frestað um tvo tíma. Sem þýðir að ég lendi ekki fyrren eftir tvö í nótt. Fjögur að pólskum tíma. En svo kom taskan mín önnur af bandinu í Varsjá svo ég er ekki bara óheppinn. En svo kom líka í ljós að einhver hafði gleymt að láta mig vita af því að maður yrði að tékka sig inn netleiðis – ég bókaði ekki flugið mitt sjálfur og fékk ekki tölvupóstana til útskýringar á þessu – svo ég þurfti að leggja út 8 þúsund krónur til þess að mega tékka inn. Svo ég er þá meira óheppinn en heppinn. Það er tvö-eitt, einsog leikar standa. En kvöldið er ungt. Í fluginu frá Katowice til Varsjár hlustaði ég á nýtt hlaðvarp Benedikts. Viðtöl Einars Kára við Brynju Hjálmsdóttur, Tómas Ævar Ólafsson og Dag Hjartarson og fannst þau öll svo gáfuleg og dásamleg bara. Blátt áfram og blátt áfram áhugasöm um það sem þau eru að gera – vel lesin og greinilega í einhverri samræðu – og alltíeinu langaði mig að búa í borg og tilheyra einhverri svona bókmenntakreðsu sem hugsar um eitthvað annað en stjórnmál allan liðlangan sólarhringinn (það er ekki fólkið í kringum mig sem gerir það heldur internetið, internetið er bara svo stór hluti af upplifun minni af öðru fólki – og sjálfsagt á það við um alla). Fer í bíó og borðar pizzu. Og ég var sem sagt eitthvað svo bókmenntavongóður eftir þessa hlustun. Svo lenti ég í Varsjá og tékkaði mig út og náði í töskuna og tékkaði mig inn og fór í flugvallarbókabúðina og þá varð ég alltíeinu bókmenntasvartsýnn af því það var SVO MIKIÐ af bókum – sem maður gæti í sjálfu sér ætlað að væri gott en vandamálið var að mig langaði ekki að lesa nema mjög lítið af þessum bókum. Og ekki af því þetta væri allt eitthvað sjoppudrasl. Ég tók upp The Fraud eftir Zadie Smith og hugsaði bara: nei, ég nenni ekki að lesa meira eftir Zadie Smith. Einsog ég væri bara búinn að uppgötva hana. Hún gæti ekki boðið mér upp á neitt nýtt. Sem er auðvitað ekki satt. Þegar mér finnst bækur vera of margar verð ég líka kvíðinn yfir því að vera sjálfur að bæta í þennan haug. Hvers vegna þarf svona ógurlega margar bækur? Hver á að lesa þetta allt saman? Sennilega var ég bara með lágan blóðsykur. Í hádeginu fékk ég mér lítið zapiekanka (sem er pólskur réttu sem er einsog kroppsæla með engu loki – kroppsæla er ísfirskur réttur, samloka með hakki, lauk, osti og sósu) en hafði ekkert borðað annars og klukkan orðin átta. Ég fór og fékk mér hamborgara og kom svo aftur í bókabúðina og keypti The Books of Jacob eftir Olgu Tokarczuk. Ég hugsa að ég lesi hana samt ekki alveg strax. Hún fer á náttborðið og ég les hana eftir áramót. Hún er líka næstum þúsund síður og það er svo margt á dagskránni. Jólabókaflóðið og Gravity’s Rainbow þar efst á blaði. Annars er ég byrjaður á Rúmmálsreikningi II. Þetta er alveg dæmalaust – umturnandi bókmenntaverk. Ég hélt að Ali Smith væri nýi uppáhaldshöfundurinn minn en kannski er bara kominn tími til að skipta. Strax! Varla nema ár eða tvö síðan ég gekk í Ali-liðið.