Vélin vestur

Fagur dagur í Reykjavík. Var kominn í rúmið í Keflavík upp úr þrjú og rétt náði morgunverðarleifunum á hótelinu fyrir lokun. Stökk svo upp í strætó niður í miðborg og kíkti í bókabúð – Skálda er lokuð á sunnudögum svo það var Eymundsson í Austurstræti. Langaði að byrja á jólabókaflóðinu og Eymundsson á Ísafirði er einsog Skálda lokuð á sunnudögum. Náði mér í Kul eftir Sunnu Dís – sem byrjar á lendingu á Ísafjarðarflugvelli. Eða því sem hlýtur að vera Ísafjarðarflugvöllur. Kláraði bók II af Rúmmálsreikningnum í fluginu. Og frönsku seríuna Détox (drasl, en alltílagi til að hlusta á frönsku og reyna að skilja eitthvað). Og Eternal Sunshine of the Spotless Mind – sem ég hafði nærri alveg þurrkað úr minni mínu á þeim tuttugu árum sem eru liðin frá því ég sá hana. Mig langar að vita hvenær næstu bækur í Rúmmálsreikningnum koma út. Þetta á auðvitað að vera einsog með Harry Potter að þetta komi út á alvöru tempói og jafn óðum. Bókaútgefendur hljóta líka að stórtapa á okkur sem gætum hæglega útvegað okkur svona bækur á öðrum málum – allar fjórar eru komnar á sænsku og ég get svo sem alveg lesið dönsku. Og er svo sem líka með það á langtímaplaninu að koma dönskunni, norskunni og líka þýskunni í eitthvað nothæft ástand. Það er mest æfingaleysið sem heftir mig – en manni leiðist að æfa sig, þá verður maður andstuttur og illt í vöðvunum. Og manni finnst maður svo vitlaus að skilja ekki allt. Þannig fer illa með litla viðkvæma egóið mitt. Bíð nú eftir manni á Rosenberg. Er þetta ekki borgarlífið sem ég var að óska mér í gær? Americano á Rosenberg og svo tölum við áreiðanlega um bókmenntir, ég og vinur minn, sem er frægur rithöfundur. Við höfum að vísu ekki tíma til að fá okkur pizzu og fara í bíó af því ég þarf að ná seinni vélinni vestur.