Í hjartanu

Leikurinn endaði 3-1 fyrir óheppni minni. Fluginu í gær var aflýst. Ég fékk samt fría gistingu á gömlu loftleiðum og kvöldmat og tók því bara rólega en ég missti af bíókvöldi með fjölskyldunni og græddi aukaferðadag. Komst hálfa leið í gegnum Kul eftir Sunnu Dís. Sem mér skildist á Heimildarrýninni að væri síðri hlutinn – myndin af lífi aðalsöguhetjunnar er enn mikið að koma í ljós og svo sem ekki margt gerst. Mér er þvert um geð að segja bækur langdregnar – af því mér finnst það upphefja lesleti og ég fíla tíma í bókmenntum, að maður dvelji með þeim – en ég get ímyndað mér að einhverjum þætti þetta langdregið. En að sama skapi er mikið af upplýsingum þarna – eða vísbendingum – ég er enn að reyna að átta mig á því hvað sé að. Bókin gerist á tilraunaheilsuhæli sem er augljóslega á Flateyri – fílingurinn í tilraunahælinu, listasmiðjur og kajakferðir, er meira að segja svolítið einsog ég ímynda mér að fílingurinn geti verið í Lýðskólanum. Aðalsöguhetjan er í einhvers konar kulnun – en það hvílir augljóslega meira að baki. Stundum held ég að það sé bara eitthvað tráma sem sé smám saman að koma í ljós, stundum virðast þetta vera einhvers konar reiðivandamál (eða bæling á reiði – það er ofsi í sögupersónunni en hún kannski öskrar ekki mikið) en kannski er ég líka eitthvað að spegla hana í Elskling sem ég sá í bíó á útleiðinni og lifir með mér. Landsbyggðarmyndin? Eftir lestur síðustu ára er ég alveg að verða sérfræðingur í því hvernig vestfirsk þorp birtast í bókum – mér finnst þetta sannfærandi lýsing á Flateyri, en með þeim formerkjum þó að flestar sögupersónurnar eru utanbæjarmenn „í leit að sjálfum sér“ eða að „hlaða batteríin“ eða hvað maður kallar þetta fjallablæti borgarbúa (en það er einmitt það sem maður gerir á heilsuhælum, held ég, hleður batteríin og finnur sig, meira að segja á stórborgarhælum). En Flateyri er líka rosalega mikið þannig staður. Kannski helst að fjarvera útlendinga sé áberandi. En þá er þetta auðvitað ekki Flateyri – þetta er ónefndur staður í bókmenntaverki og lýtur sínum eigin demógrafísku lögmálum. Hér tók ég pásu til að reyna að fljúga til Ísafjarðar. Við hringsóluðum smá og flugum svo aftur til baka í Vatnsmýrina. 4-1 fyrir óheppni minni. Næsta athugun er klukkan 12. Í fluginu komst ég langleiðina út á enda. Una – söguhetjan – er á leiðinni aftur til Reykjavíkur. En hún kemst auðvitað ekki nema að það verði flogið. Sem er í sjálfu sér ekki mjög líklegt.