Ég hafði séð fyrir mér að lesa kannski svona 100 síður af Gravity’s Rainbow í dag. Ég er búinn með 17 og finnst einsog ég hafi lesið þrjár heilar skáldsögur. Mér skilst reyndar að fyrstu 100 síðurnar – af 770 – séu stærsti hjallinn. Þá sé maður búinn að „ná“ þessu og geti lesið restina í rólegheitunum. Kannski er best að gera ráð fyrir að það taki bara út nóvember að lesa hana. Það tók rúmlega mánuð að lesa bæði Ulysses og Infinite Jest. Eða kannski rétt tæplega mánuð að lesa Ulysses. Infinite Jest varð þess valdandi að í fyrsta skipti frá því við fjölskyldan byrjuðum að halda sameiginlega lestrardagbók fyrir hátt í áratug skrifaði ég enga bók einn mánuðinn. Í byrjun árs gerði ég lista yfir ólesna klassík sem ég vildi komast yfir í ár – 12 bækur – og af stóru þungu bókunum er Gravity’s Rainbow ein eftir. Og hinar tvær – Njála og Karítas án titils – báðar íslenskar og KáT meira að segja frekar stutt held ég. Ætli ég taki þær ekki með mér til Bangkok bara. Það er bara spurning hvað ég geri með jólabókaflóðið. Ég iða í skinninu að lesa Skrípið hans Ófeigs og nýjar bækur Brynju Hjálmsdóttur og Tómasar Ævars og Birgittu Bjargar. Að minnsta kosti. *** Í umræðunni um menningarblöndun sem sprottið hefur af miðflokksflörtandi ummælum Bjarna Ben hefur fólk svo sem réttilega haldið því fram að menningarblöndun sé forsenda allrar menningar – það er engin menning án blöndunar. Í þessu blandast reyndar saman mörg menningarhugtök – Bjarni er sjálfsagt ekki að tala um tónlist, t.d., eða matargerð, hann hefur áhyggjur af því að brúna fólkinu fylgi leti og svindl og fyrirlitning og „skortur á umburðarlyndi“ (sem er auðvitað fyndnast af öllu). Og svo talar hann áreiðanlega um einhvers konar skiptingi – klofið samfélag – alveg án þess að átta sig á því að það sem hann er að tala um þar (og vísar til norðurlandanna og annarra landa sem „við berum okkur saman við“) heitir stéttaskipting og hún er ekki litgreind nema af atvinnulífinu sem raðar fólki af ólíku litarhafti í tiltekna röð, frá hottintottum til Garðbæinga. En það sem kemur stöðugt upp í hugann á mér sem skaðleg erlend áhrif – skaðleg menningarblöndun – er einsleitni alþjóðlega markaðssamfélagsins þar sem allir bæir, frá Bangkok til Auschwitz til Reykjavíkur, hanga saman á keðju sömu verslanakeðjanna – H&M og Dressman og IKEA og Subway og svo framvegis. Og meira að segja þegar það eru ekki keðjur þá er mótið sem verslunin er steypt í það sama – ef það er ekki McDonalds þá er Metro (Hesburger, Max, und so weiter), skyndibitastaður skapaður í sömu mynd. Ungt fólk ferðast síðan á milli staða með tékklista – og einkunn hvers staðar lækkar fyrir hvern faktor sem vantar. Það vantar McDonald’s í Reykjavík. Vantar Subway’s á Ísafjörð. Við gerum kröfu um að allir staðir séu helst sami staðurinn – það eina sem Íslendingar krefjast í útlöndum er að verðið sé lægra. Hver staður í heiminum missir þannig dálítið af sérstöðu sinni með því að verslunarrýmið sé allt hernumið af hinu alþjóðlega fyrirsjáanlega og skyldubundna. Það væri mjög gaman ef það væri hægt að vinda eitthvað ofan af þessu. En það er ekki það sem Bjarni Ben er að tala um. Eða Snorri Más eða Sigmundur eða Arnar Þór eða neinn af þessum trúðum sem halda að veruleikanum stafi fyrst og fremst ógn af fjölbreytileikanum.