Kæra dagbók. Ég er í einhverju undarlegu tilfinningalega ástandi í dag. Ég skiptist á að sýna veröldinni mikla auðmýkt – verja alls konar fólk og málstaði sem ég myndi kannski á öðrum dögum fordæma án minnsta hiks – og að vera fullkomlega vonlaus og svartsýnn. Ég er ekki einu sinni viss um að „skiptist á“ sé rétt – það er eiginlega einsog ég sé í þessum ástöndum báðum í einu. Reiður og dæmandi og bljúgur og afsakandi. Ætli ég sé að fá heilablóðfall? Hvaða lykt er það aftur sem maður á að finna þegar maður er að fara að fá heilablóðfall? Aska? Reykur? Strokleður? Ég held að öfund og valdaátök og hagsmunir og löngun til þess að stýra sögunni um sjálfan sig ráði miklu um það hvernig fólk hagar sér í menningunni (einsog svo víða annars staðar). Hverja það þolir ekki og hverjum það binst böndum. Þetta á líka við um sjálfan mig. Ég held ég sé svolítið þreyttur á því. Þetta er keppni um pláss og ég vildi að hún væri eitthvað annað. Eitthvað göfugra. Sumt finnst mér göfugt og sumt finnst mér lélegt, einsog gengur, en flest finnst mér samt skiljanlegt. Ekki allt, en flest. Menningin er allavega ekki pólitíkin – guði sé lof fyrir það. *** Ég svaf ekki mikið í nótt. Og hljóp 13 km í morgun og fékk mér svo mjög sterkan hádegismat. Og borgaði mjög háan óvæntan reikning. Kannski er ég í einhverri náttúrulegri vímu. *** Gravity’s Rainbow hefur ekkert komið upp úr töskunni í dag. Kannski er ég alls ekki upplagður til þess að lesa hana. Ég hef tekið eftir því að besti tími ársins til þess að hella sér í erfiðan lestur er fyrstu mánuðir nýs árs. Janúar og febrúar og mars. Þá hafði ég séð fyrir mér að lesa Finnegan’s Wake og endurlesa Ulysses – af því ég er að fara í menningarreisu til Dyflinnar með vinum mínum. Við ætlum að lesa Ulysses saman og fara svo í spor Leopolds og Stephens. Það er alltílagi að ná ekki markmiðum sínum. Ég held ég fari bara og kaupi mér Skrípið áður en bókabúðin lokar. Nú er tíminn til að lesa Skrípið. Og kannski hellist yfir mig löngun til þess að tækla Pynchon fyrir áramót. *** Þann 23. nóvember ætla ég og ellefu vinir mínir að halda svokallaða „tribute“ tónleika til heiðurs Tom Waits sem verður 75 ára í desember. Það verða líka haldnir svona tónleikar á höfuðborgarsvæðinu á næstu helgi, minnir mig, en við ætlum að halda okkar eigin hérna. Og svo eru svona tónleikar sjálfsagt haldnir út um allan heim þessa dagana. Tom Waits á mjög heita aðdáendur. Sjálfur hlustaði ég nánast ekki á neitt annað í mörg ár milli tvítugs og þrítugs og reyndi einu sinni mjög mikið að fá miða á tónleika – við Skúli frændi (mennski) vöktum heila nótt, hringdum og hringdum til Írlands og endurhlóðum einhverja miðasölusíðu, en án árangurs. Seinna var ég kominn í eitthvað plott með Ödda mugison um að reyna að redda miðum í gegnum Dag Kára (sem gerði Little Trip to Heaven og var þá í einhverjum tengslum við manninn – minnir mig, þetta er langt síðan). En það gekk ekki neitt. Einu sinni reyndi ég líka að komast á svona tribute tónleika – það var 1999 í Berlín og ég man að heitið var Tom Waits for Charles Bukowski og þetta var svona tvöfalt tribute. En það var samdægurs og allt löngu uppselt.