Ég er túristi í Póllandi. Hér er gott að vera. Maturinn er góður, drykkirnir eru góðir, borgin er falleg og veðrið hefur leikið við borgarbúa – sem voru víst ansi lúnir á haustrigningunni um það leyti sem ég kom. Víða þar sem túristar koma saman eru útskýringar á því hvernig maður segi eitt og annað á pólsku – hvernig maður þakki fyrir sig og bjóði góðan daginn o.s.frv. – og ef maður býður svo góðan daginn af sinni takmörkuðu getu fær maður afgreiðslu á pólsku nema maður sigli samskiptunum algerlega í strand. Matseðlar eru alltaf á tveimur tungumálum. Skilti stundum bara á einu – pólsku. Flestir veitingastaðir heita pólskum nöfnum – ensk veitingastaðaheiti eru álíka algeng og ítölsk sýnist mér, alls ekki óalgeng en sannarlega ekki í meirihluta. *** Ég fór í Auschwitz. Það þarf ekki að útskýra það fyrir neinum hversu þrúgandi heimsókn í Auschwitz getur verið. Og dauðinn er í sjálfu sér líka nálægur í gyðingahverfinu, þar sem ég fór líka í sögugöngu, og þar sem er nóg af gyðingaveitingastöðum og menningarstofnunum en fjarska fáir gyðingar af holdi og blóði. Þeir voru 68 þúsund þegar best lét – eftir stríð sneru 2-3 þúsund aftur af þeim sem enn lifðu (sem voru ekki mikið fleiri). Í dag ná þeir ekki þúsund – ná ekki íbúafjölda Bolungarvíkur. Enda mætti þeim nýtt pogrom strax og þeir sneru aftur – í ágúst 1945. Það er verslunarmiðstöð alveg ofan í Auschwitz I. Burger King, KFC, McDonalds, H&M. Ég stóð sjálfan mig að því að vilja ekki að hún væri þar og svo sló hugsuninni niður í mig líka hvort ég væri að biðja um „gömlu góðu Auschwitz“ og þá væri kannski betra að Auschwitz væri bara H&M verslun. Bönker Hitlers er undir fullkomlega ómerkilegu bílastæði í dag, þar var ekki einu sinni skilti fyrren 2006. Ég fór í einhverja hringi með þetta í höfðinu en komst ekki að neinni niðurstöðu. Frekar en svo margt annað. Ég eyddi dálitlum tíma í Jurbarkas 2011 – þar sem svo til engar leifar eru um fjöldamorðin og misþyrmingarnar sem gyðingar máttu þola sumarið 1941, þar sem fólkið á tourist information skrifstofunni gat ekki svarað einföldustu spurningum og þar sem enn voru uppi minnismerki um mennina sem höfðu stundað fjöldamorðin (af því þeir voru svo líka hetjur fyrir að hafa barist gegn Sovétríkjunum eftir stríð). Þar sem grafreiturinn var í niðurníðslu – bókstaflega bara athvarf fyrir unglinga til að spóla í hringi – búið að sparka marga legsteinana niður í einhverjum fíflagangi. Þar sem minnismerkin – „hér voru 422 gyðingakonur myrtar“ – voru á stærð við hálfan seríospakka á litlu priki og falin lengst inni í skógi þangað sem lá ekki einu sinni göngustígur nema hálfa leiðina. Þetta er alveg á hinum endanum – hér er allt undirstrikað, áherslumerkt, og sagan ekki óskýr og loðin og samsett úr mótsögnum, heldur straumlínulöguð og skýr. Það fór talsvert af orku minni í þessum sögugöngum í að hlusta á það hvernig leiðsögumennirnir sögðu frá, frekar en bara hvað þau sögðu, sennilega vegna þess að ég veit að í Póllandi gilda ströng lög um hvernig hlutunum er stillt fram og atburðir túlkaðir. Í Auschwitz lagði leiðsögukonan áherslu á sérstöðu gyðinga í helförinni og talaði aldrei um nasista án þess að skeyta forskeytinu „þýskir“ framan við. Önnur fórnarlömb voru nefnd lítillega – varla samt án þess að nefna að ekki hefði verið farið jafn illa með þau – en það var ekki einu orði vikið að samstarfsmönnum nasista í Póllandi eða pólskum nasistum – enda er hreinlega ólöglegt að tala um þannig lagað . Bæði í göngunni um gyðingahverfið og í Auschwitz var kastljósinu beint að pólverjum sem hefðu hjálpað gyðingum – aðallega Jan Karski, Oskar Schindler og Maximilian Kolbe. Fyrir utan Auschwitz II er skilti sem auglýsir annað safn sem fjalli um sögu Roma-fólksins í helförinni – 3 km í burtu (sem er lengra en frá Auschwitz I til McDonalds). Ég varð ekki var við að margir færu þangað. Það kom minna á óvart að ekki væri orði vikið að samtímanum. Hvorki þjóðarmorðinu á Gaza eða þeirri sífellt ágengari stefnu evrópuríkja að reka fangabúðir fyrir „óæskilegan útlendingaskríl“ samtímans í nágrannalöndum – fjarri vinveittum stofnunum, fjarri aktívistum sem flækja málin og fjarri eftirliti, þar sem ekki sést til þeirra. Eiga þessar fangabúðir að taka við af því sem nú er kallað „lokuð búsetuúrræði“ – og eftir því sem ég kemst næst er varla nema tímaspursmál fyrren allir hælisleitendur (og allra fyrst ungir karlar) verða sendir til Albaníu og Túnis og svo framvegis – þar sem þeir verða alveg áreiðanlega látnir daga uppi. Og nei, ég er ekki að halda því fram að neitt af þessu sé einsog Auschwitz – eins ljótt og það er. En það væri líka lélegur sagnfræðingur sem héldi að helförin hefði bara óforvarendis skotið upp kollinum í Auschwitz – hún átti sér langan aðdraganda og sá aðdragandi er stundum ansi líkur stefnu evrópuríkja í málefnum flóttamanna og hælisleitenda. Og ég veit ekki hvaða tilgangi öll þessi sögukennsla á að þjóna ef við megum ekki læra af henni. Það gerir fórnarlömbum Auschwitz lítið gagn að við grátum í koddann 70 árum seinna. Það sem við þurfum að læra af sögunni er að stöðva harmleikina áður en þeir eiga sér stað.