Hamfara- og jólabókaflóðið 2024

Ég sit á ansi fínu hótelherbergi í Katowice. Ég þarf ekki að lesa nein ljóð fyrren á morgun. Daginn ætla ég að mestu að nota til þess að vinna. En akkúrat núna sit ég og hlusta á ræstitæknana þrífa herbergin á ganginum og hef áhyggjur af því að þeir banki og trufli mig í miðri setningu til þess að spyrja hvort mig vanti handklæði (mig vantar ekki handklæði en ég gæti þegið meira instant kaffi). Þessar áhyggjur eru nógu miklar til þess að trufla mig einar og sér en ekki nægar til þess að ég standi upp og hengi do not disturb skiltið á hurðarhúninn. Enda er það einsog eitthvert skarlatsmerki sem þýðir eiginlega bara að maður sé þunnur. Og ég er ekki þunnur. Þess vegna er ég að blogga. Til að drepa tímann þar til ræstitæknarnir hafa lokið sér af. Á tveggja til þriggja ára fresti fer mig að langa til þess að eiga rúmgóða heimasíðu … og í þessum orðum skrifuðum bankaði ræstitæknirinn upp á og gaf mér meira kaffi. Nema hvað, já, rúmgóða heimasíðu – ég læt ekki staðar numið fyrst ég er byrjaður – þar sem finna má upplýsingar um það sem ég hef gert en þar sem má líka finna eitthvað af verkum mínum. Hljóðaljóðin, vídjóljóðin, einhver dæmi, þýðingar og svo framvegis. Síðu einsog þessa. Einu sinni átti ég enn rúmbetri síðu þar sem mátti líka finna allar meira alvöru greinar sem ég hafði skrifað. Svo líða tvö-þrjú ár í viðbót og þá fer þessi síða að fara í taugarnar á mér. Einsog þetta sé alltsaman bara til marks um óþolandi hybris, útblásið sjálf mitt, ekki skárra en hver önnur uppáþrengjandi þvottaefnisauglýsing, hvert annað product placement. Og þá langar mig að eyða þessu öllu og opna bara einhverja blogspot síðu. Satt best að segja hefur þetta líka með blankheit að gera. Ég borga helling fyrir að halda þessu úti – og annað eins fyrir að halda Starafugli í loftinu, þar sem ekkert gerist lengur. Og svo hafa þessar heimasíður yfirleitt ekki heldur litið út eða virkað einsog ég vildi helst að þær gerðu. Þegar ég hef fengið aðra til að hjálpa mér hafa hlutir sem virka einfaldir í hausnum á mér reynst illgerlegir og þessi síða er eitthvað wix-módel sem er tregt til að hlýða mér, íhaldssamt, ekki „intúitíft“ og satt best að segja ekki mjög fallegt. En nærtækast af því sem ég fann fyrir mann sem kann ekki að forrita nema allra einföldustu skipanir. Ég er samt ekkert að fara að henda þessu. En ég kannski endurhugsa þetta blogg svolítið – hætti að vesenast með myndir, hætti að senda út tilkynningar um færslur, hætti að deila á facebook og skrifa oftar og minna í einu. Það er allavega planið. *** Og samt læt ég ekki staðar numið. Mér sýnist jólabókaflóðið ætla að drukkna í hamfaraflóði jólakosningabaráttunnar. Og það skánar varla héðan af – það verður kannski ekkert jólabókaflóð fyrren í desember. Þangað til lesum við bara kosningabæklinga. Eða réttara sagt tilkynnningar og yfirlýsingar á net- og samfélagsmiðlum. Ég hef enn ekki lesið neina af skáldsögunum – bara Hníf Rushdies og Karlmann RHV – en ætla að reyna að bæta úr því fljótlega eftir að ég kem heim. Annars ætlaði ég líka að fara að lesa Gravity’s Rainbow og Rúmmálsreikningana hennar Solvej Balle. Telst bók II í þeim flokki vera í jólabókaflóðinu? Hún kom ábyggilega út í ár – en kannski var það í vor? Annars er afstaða mín til jólabókaflóðsins mjög tvíbent. Ef ekki þrí- eða fjórbent. Þetta er auðvitað markaðshátíð. Og dregur stundum fram í fólki … kannski ekki það versta en það grynnsta. Af því það grynnsta er fljótast að skila sér. Rithöfundar mæta í einlæg viðtöl og tala beint inn í eðluheilann á öðrum – yfirleitt meira um sjálfa sig eða einhver dægurmál en það sem þeir voru að skrifa. Menningarfjölmiðlarnir gera yfirleitt betur – Lestin, Víðsjá, Kiljan, bókablöðin – en þar er tempóið samt stundum þannig að yfirveguð vinnubrögð mega víkja svo allir komist að. Sjálfum finnst mér þetta óþægilegt þegar ég er með bók – að hafa áhyggjur af velgengni hennar. Þetta er kannski ekki hræðilegt – ekki viðstöðulaust kvíðakast – kannski meira svona einsog þegar barnið manns kemur ekki heim á réttum tíma og það næst ekki til þess. Ég treysti börnunum mínum og þau skila sér alltaf en ég er samt ekki rór rétt á meðan. Jólabókaflóðið er tveir mánuðir af þessu (jájá ég veit það er asnalegt að líkja bókum við börn; takið líkingunni vinsamlegast með saltklípu). Maður vill vera á metsölulistunum og maður vill fá tilnefningar og verðlaun og þýðingar – og peninga! – en í öllum þeim sirkus þarf maður líka að hafa fyrir því að minna sjálfa sig á að bókmenntir eru eitthvað annað en það; að velgengni á markaði, í bókabúðum, ritdómum og hjá verðlaunanefndum, segir ekkert um eiginleg gæði þess sem maður hefur gert. Því það er enginn annar að fara að minna mann á það fyrren í fyrsta lagi í janúar. Kannski er því jafn ágætt fyrir bókmenntirnar að fá frið í skjóli kosningabaráttunnar og það er vont fyrir bókamarkaðinn. Og kannski hrynur bókamarkaðurinn síðan og tekur með sér bókmenntirnar og á næsta ári verður bara tik-tok-jólaflóð. *** Þetta er sem sagt síðasta færslan sem ég deili á facebook eða sendi út tilkynningu um í bili. Það verður samt áreiðanlega meira skrifað hérna næstu vikurnar.