Ég sporðrenndi fyrsta hlutanum af Rúmmálsreikningsseptólógíu Solvejar Balle. Af áfergju. Ef hún heldur þetta út – sjö bækur af sama krafti, sömu dýpt og sama bókmenntalega intensíteti – er þetta einfaldlega sögulegt. Á Joyce-skalanum sögulegt. Annars var ég bara að leggja hana frá mér svo ég ætla ekki að segja meira um hana í bili nema þetta – þennan hástert. *** Það eina sem mér finnst undarlegt við að „frægt fólk“ (sem er auðvitað frekar abstrakt konsept í 400 þ. manna landi) fari í framboð er hversu viljugt þetta fólk – listamenn, fræðimenn, blaðamenn o.s.frv. – er að tefla trúverðugleika sínum í tvísýnu. Það vita það allir sem hafa tekið þátt í pólitísku starfi – jafnvel bara óflokksbundnum en skipulögðum aktífisma – að það kallar á alls kyns málamiðlanir sem eru ekki endilega samræmanlegar listrænum eða heimspekilegum metnaði. Þú skuldbindur þig til þess að gera það sem þarf til þess að ná pólitískum árangri – sem er þá meðal annars að láta vera að gagnrýna flokkinn í fortíð, nútíð og framtíð, sérstaklega á meðan kosningabaráttunni stendur, og jafnvel leggja þig í líma við að verja óverjandi hluti. Óverjandi málamiðlanir. Óverjandi afleiðingar málstaða. Óverjandi fórnarkostnað. Og í stjórnmálastarfi geta komið upp ófyrirsjáanlegar aðstæður – einsog Covid – þar sem stjórnmálaflokkar taka alls konar óvæntar afstöður og þá verður hópeflið undantekningalítið til þess að hver fylgir bara sínum listabókstaf, sínum bönker. Sérstaklega er þetta undarlegt þegar listamenn eru annars vegar því stjórnmálin – og aktífistarnir, lobbíistarnir – eru mjög fljót að snúa sér gegn allri list sem er óþægileg fyrir málstaðinn. Auðvitað er þetta samt spurning um persónuleg heilindi og fólk hlýtur að svara þessu fyrst og fremst fyrir sig sjálft. Ég fór tvisvar í framboð í kringum tvítugt og fékk strax ógeð – þótt fólkið væri frábært og málstaðirnir góðir; það er mekaníkin, dýnamíkin, sem gerir þetta vonlaust, ferlarnir og menningin. Eitthvað undarlegt sambland af fylgispekt og þrætugirni – einsog að láta barmmerkið stýra sér. Og svo þegar maður er búinn að fara í framboð situr maður uppi með það, a.m.k. í dágóðan tíma á eftir. Þá er maður þetta fyrirbæri – þessi flokkur – og þegar hann hreyfir sig og breytir um lögun gerir maður það líka, nema manni takist með harmkvælum að skera sig einhvern veginn lausan.