Untitled

Nótt á Clarion. Í lúxus. Í afmælisgjöf frá Nödju. *** Svíar tala um að fara í stéttarferðalag – og meina reyndar yfirleitt eitthvað sem ég myndi kalla stéttarflutning. Að hætta að vera fátækur og verða ríkur (hitt er kallað „öfugt“ stéttarferðalag, að hætta að vera ríkur og verða fátækur). En við erum á sannkölluðu ferðalagi. Gerðum þetta líka um jólin og fórum í japanskt spa í Stokkhólmi. Það er merkilegt að umgangast fólk sem finnst þessi lúxus svo augljóslega sjálfsagður. *** Ríkt fólk er heilbrigt ásýndar og í góðu líkamlegu ásigkomulagi. Með fallega húð. Það er kurteist, upp til hópa, frjálslynt og röggsamt. Það sýnir þjónustufólki biðlund. *** Sennilega eru á þessi mikilvægar undantekningar. Ef maður er ríkur getur maður líka leyft sér að vera mjög óhóflega ruddalegur ef manni svo sýnist. Ef maður er illa fyrirkallaður. Þá kannski bara lemur maður þjónustustúlkuna og borgar henni svo fyrir að halda kjafti. *** Þess eru allavega fordæmi. Og það er hægt. *** Í herberginu er skilti þar sem stendur að sé 150 evru sekt við því að reykja inni. Fyrir sumum er það áreiðanlega algert smotterí. *** Ég sá fyrirsögn í vikunni þar sem fullyrt var að ríkt fólk keypti ekki drasl á yfirsprengdu verði. Ég held að ríkt fólk – og ég minni á þá innsýn sem ég hef öðlast af því að sofa eina nótt undir sama þaki og þessi stétt manna – beri ekkert skynbragð á verðmiða. Það veit ekkert hvað hlutir eiga að kosta. En það hefur engan áhuga á drasli. Það hneykslast ekki á verðinu. Það hneykslast á gæðunum. *** Í mörgum kreðsum á Íslandi er ekki gerður neinn greinarmunur á því að vera frjálslyndur og að vera vinstrimaður. Við köllum alls konar fólk vinstrimenn sem eru fyrst og fremst frjálslyndir – og oft nánast sama um efnahagslega faktorinn. Það vill jafnrétti en er sama um jöfnuð. Sennilega er mjög lítið um raunverulega vinstrimenn á Íslandi – þeir eru kallaðir efnishyggjumenn eða óraunsæir draumóramenn. Ég held það sé enginn eftir í Samfylkingunni og kannski þrír í Vinstri Grænum. Þess vegna tóku svo margir Sósíalistaflokknum vel í vor. *** Helsta hugmyndafræði þessarar frjálslyndu „vinstristefnu“ sprettur annars úr einkareknum, kynjaskiptum leikskóla. Reynið einhvern tíma að útskýra það fyrir útlendingi. *** Íslenskir vinstrimenn eru mjög ginnkeyptir fyrir fagurgala. Ef orðin eru rétt skiptir stefnan minna máli. Þess vegna erum við líka svona hrifin af mönnum einsog Trudeau og Macron. Pistlahöfundur Guardian kallaði þann fyrrnefnda einu sinni „ the social media equivalent of a puppy video “. Mér fannst það fyndið. Og sennilega er það líka rétt. *** (Og já, þeir eru samt skárri en Trump; en kannski er eitt það versta við Trump hversu hann hefur lækkað standardinn).