Untitled

Guns sviku ekki. Hafi nokkrum dottið það í hug. Og kom heldur ekkert á óvart, vel að merkja. Það eru heilu tónleikarnir úr ferðalaginu á YouTube og búið að skrifa þúsund jákvæðar umfjallanir um allt saman. *** Þeir spiluðu í rúmlega þrjá klukkutíma. Eru að mér sýnist farnir að spila næstum allt tónleikaprógramið sitt í hvert einasta sinn. Settið var hálftíma styttra á Bandaríkjatúrnum. *** Og byrjuðu seint. Sennilega ekki eftir þann tíma sem til stóð að fara á svið, en seint. Það var auglýst að dyrnar opnuðu klukkan 15 og ég sá fyrir mér dagtónleika. Nadja var búinn að bóka einhvern lúxus fyrir okkur í Helsinki í um kvöldið og þangað ætluðum við og sáum fyrir okkur að vera komin þangað svona 22 (það er 1,5 tíma akstur/lest til Hämeenlinna). Þegar klukkan var sjö og hvorug upphitunarhljómsveitin byrjuð afbókuðum við það. Fengum svo aftur pössun í kvöld og förum núna. Þetta er s.s. afmælisgjöfin mín. *** Hálfátta sirka byrjaði Michael Monroe úr Hanoi Rocks að spila drulluþétt glamrokk og spranga um sviðið einsog 15 ára unglingur (hann er 55 ára; jafnaldri Axl). Og söng mjög vel. Þeir spiluðu sennilega í 30-40 mínútur og 30-40 mínútum eftir það tóku The Darkness við og voru … bara hressir. Ég sveiflaðist á milli þess að finnast þeir fínir og finnast þeir þreyttir. Það er hluti af sjarmanum að vera alltaf að kvarta („Ég vil þakka þeim sjö sem tóku undir“) en varð leiðinlegt til lengdar. Sennilega ættu þeir bara að fara að vinna í verksmiðju ef þeim finnst þetta svona leiðinlegt. *** Og svo tók við svolítil bið. Ég er ekki viss hvað klukkan var þegar við byrjuðum að bíða en við biðum til klukkan tíu og vorum sannarlega orðin ansi lúin. Við vorum mætt í bæinn klukkan 13 – fórum og fengum einhvern þann albesta tælenska mat sem ég hef étið, alveg sturlaðan, fyrir algera tilviljun uppúr Yelp-appinu – hittum svo bróður Nödju á lestarstöðinni og komum okkur niður eftir. Vorum þar í bolaröðinni klukkan rétt um 15. *** A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jul 1, 2017 at 5:38am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js *** En það er hluti af kúltúrnum að bíða. Ef maður hefur ekki beðið fullur eftirvæntingar hefur maður ekki farið á Guns N’Roses tónleika. Að vilja sleppa biðinni er svona einsog að hraðspóla 4 ’33 eftir Cage. *** Settlistinn er á netinu. Þið getið gúglað honum. Allt var hápunktur. Koverin voru sum dálítið skrítin. Eina lagið sem mér fannst Axl ekki valda var Estranged – en djöfull sem var gaman að heyra það samt. Slash hefur aldrei verið betri – sennilega eru fingurnir á honum ekki jafn liprir og þeir voru fyrir 30 árum, en hann er heldur ekki alveg jafn fullur þegar hann er að spila (er að vísu alger meistar í að spila fullur, það eru til myndbönd af honum að brillera í ástandi þegar hann getur ekki staðið í fæturna). *** Duff setti upp kúluhatt mér til heiðurs. Það þótti mér fallega gert. *** Ég saknaði Izzy mest í Nightrain. Hann á fyrri hlutann af sólóinu – Richard Fortus ræður ekki við þannig blús. Hann lúkkar svolítið einsog Izzy – eða er með skylt lúkk, eitthvað úr Rolling Stones fataskápnum – en hann er miklu meiri Buckethead í spileríinu. Teknískur og full gefinn fyrir að spila einfalda lítt úthugsaða skala mjög hratt. En ófrumlegri í skalavali en Buckethead. Voða mikið bara eitthvað pentatónískur. Samt mjög góður. En ég skil að það gekk auðvitað engan veginn að láta hann vera burðarmann í svona bandi – hann er óravegu frá því að vera nokkur jafnoki Slash, og rétt svo ræður við að vera sidekick. Sem Izzy er snillingur í. Hann keyrir ekki vélina og reynir það ekki, heldur fyllir í sprungurnar og viðheldur þéttleikanum. *** Slash var fokkins ótrúlegur. Valdið sem hann hefur á ólíkum stílum – rokk og blús segir sig sjálft, og metall að einhverju leyti, en líka alls kyns latínóbrjálæði, fönk, köntrí og obskúr etnóinflúensar. Þegar hann datt í reggíkaflann í Knockin’ on Heaven’s Door (sem Dylanfólk hefur aldrei getað sætt sig við að ER einfaldlega Gunslag) kom Axl aftan að honum, bankaði í öxkina og sagði „Ja man“. Ég hló. *** Það erfiðasta við að vera svona hetjugítarleikari er að vera viðstöðulaust intressant. Á þriggja tíma konsert eru kannski þrjú korter af sólóum. Flest þeirra eru auðvitað samin – Slash kastar ekki til hendinni, hann er ekki bara að krúsídúlla út í loftið, þetta eru lýrískar kompósísjónir með pásum á réttum stöðum, hárnákvæmum teygjum og vibratói sem titrar alla leiðina úr sálinni á honum út í himingeiminn. En innan þessara tónsmíða er síðan rými til að hrista sig svolítið – breyta út af og skreyta – og þetta rými notar Slash af fádæma innsæi til þess að koma okkur sem þekkjum hverja einustu nótu alltaf aðeins á óvart. Stundum er það lævíst, einsog að færa sig til á hálsinum svo nótur sem við þekkjum á þremur neðstu strengjunum birtist okkur á vöfnum strengjum, eilítið dekkri en sömu nóturnar – og stundum er það augljóst, einsog þegar hann trillar í kringum nótur í laglínum. *** En nú fer ég að sinna öðru. Kannski fylli ég betur út í þessa skýrslu á eftir eða á morgun.