Bíddu nú við. Þrjú ljóð? Þýddi ég þrjú ljóð í viðbót í dag? Nei, tvö – svona er ég í alvöru minnislaus. Ég skrifaði líka einu skáldinu og hóf póstinn á að segjast ekki viss hvort við hefðum nokkru sinni hist. Mér fannst það kurteisi þegar ég skrifaði það, finnst einsog við höfum verið í sama rými nokkrum sinnum en kannski aldrei heilsast, en nú er ég farinn að ímynda mér að sennilega höfum við setið hlið við hlið í langri flugferð og síðan kannski hrunið í það saman og lent á trúnó, étið saman morgunverð á sjö ólíkum hótelum í jafn mörgum löndum, allir vinir mínir séu líka vinir hennar og svo framvegis. Og þegar ég segist ekki muna hvort við höfum sést þá sjái hún bara að ég er skíthæll sem man ekki fólk (mér er sagt að maður muni ekki svona vegna þess að manni standi á sama um fólk og ég er of samtvinnaður sjálfsefa mínum til að debatera við slíkar kenningar). Hér er annars allt við það sama. Ég sé ekki betur en bókinni minni heilsist vel – hef að vísu ekki fengið sendan neinn metsölulista í dag, var í þriðja sæti í síðustu viku – en fæ talsverð viðbrögð svona annars, héðan og þaðan. Fólk brýtur jafnvel tveggja metra regluna til að þakka fyrir sig. Mig klæjar orðið mikið í hendurnar af öllum þessum handþvotti – í því hef ég ekki lent áður og kannski er það til marks um óhreinlæti mitt í gegnum tíðina. En þá kemur sprittið sér vel – til að sótthreinsa þurrksárin. Bono er búinn að semja lag um kórónaveiruna. Ég er mest hissa að hafa ekki séð meira af þessu. Þessi vagn fer alltaf af stað þegar stórviðburðir eiga sér stað – ég orti sjálfur heila ljóðabók í hruninu miðju. Hjá sumum má ekki verða röskun á sjónvarpsdagskrá án þess að það verði að baráttuljóði. Aðrir nota hvert tækifæri til þess að snúa athyglinni að eigin málstað. Það er auðvitað góð og gild pólitík en verra í listum. Eða segjum að það sé gott og gilt í sumri pólitík – stundum fer nú fólk líka alveg út í skurð. Vinkona mín fór í útvarpsviðtal í gær um veiruna og veitingastaðarekstur og vinur okkar skoraði á hana að koma byggðakvótanum einhvern veginn að. Sem hún auðvitað gerði. En það má líka hengja þetta á feðraveldið, raforkubúskap þjóðarinnar og fleira og fleira. Loftslagsmálin hafa mikið komið upp – svona afleitt, að fyrst við getum brugðist við kófinu getum við brugðist við loftslagsvánni (sem er sennilega satt en á meðan tímarammi kófsins er sem stendur í mesta lagi hálft ár talar loftslagsfólk í áratugum og árhundruðum – og það er skiljanlega erfiðara að fá pólitískt samþykki fyrir t.d. loftferðabanni það sem eftir lifir lífstíð okkar en bara „núna í sumar“ – neyðarástönd eru ekki endilega alltaf fullkomlega sambærileg). Ég hlustaði ekki á lagið hans Bono. Í einhverju amerísku blaði var grein um allar kórónaskáldsögurnar sem eru núna í gerjun. Og auðvitað hefur sennilega hver ein og einasta skapandi sál á jörðinni velt þessu fyrir sér – kórónalistaverkinu. Þau verða mörg – og verða margs konar. Sum verða tækifærismennska – sölupunktur. Önnur verða tilraunir til þess að setja heiminn í samhengi – misgóðar einsog gengur en stærstur hluti ærlegra lista er þetta, mettun og pot og tilgátur um raunveruleikann. Og svo verða bækurnar sem lifa – og þær falla líka í tvo hópa. Annars vegar meinstrím metsölubækur sem grípa einhvern tíðaranda – eldast kannski ekki endilega vel, eru að einhverju leytinu kits, væmnar, en sennilega ærlegar samt og vel gerðar, með heilum tón í gegn. Og svo verk sem eru meira krefjandi en eitthvað minna lesin (ansi mikið samt). Í sjálfu sér ræður tilviljun (og menningarpólitík) miklu um hvað lendir í hvaða flokki. Fyrir utan svo auðvitað bækurnar sem munu fjalla um eitthvað allt annað. Báðar tvær.