Þýddi þrjú ljóð í dag. Þetta eru grófþýðingar, vel að merkja og ég hef ekki verið í neinu öðru. Ekki jafn tilraunakennt stöff og í gær en það er ekki endilega auðveldara að þýða það fyrir því – oftast er erfiðast að þýða það sem er í hversdagslegasta tóninum. Af því að orðin þurfa samt að halda sér, hugtökin og leiðirnar í gegnum þau, og textinn þarf að virka jafn eðlilega á frummálinu og markmálinu – tilraunaljóðin hljóma undarlega á frummálinu og eru knosuð, snúa upp á málið, afmynda það. En svona grófþýðingar eru ekki lengi að verða til – ég geri þetta aldrei eðlilega í fyrstu atrennu. Ég sé ekki klaufalegt orðfæri í dag, meðan orginallinn er enn dómínerandi í hausnum á mér, en það blasir við í næstu viku. Krakkarnir fóru ekki í skólann. Aram var með smá kvef, örfáar kommur (í gær, ekki í morgun) og spáði þannig að skólinn hafði þegar gefið út að það væri ekki bráðnauðsynlegt að senda alla af stað. Svo Aino fékk einfaldlega að ráða því hvort hún færi nokkuð. Ég held við séum að klára okkur ágætlega á þessu enn sem komið er. Kófinu. En þetta er ekki búið enn! Þjóðleikhúsið ætlar að lesa ljóð fyrir fólk. Fólk velur sér ljóð og svo les einhver leikari fyrir viðkomandi – sem situr þá einn í salnum að mér skilst. En ljóðin verða send í streymi. Úrvalið er á RÚV.is og svo er hægt að bæta við. Hingað sýnist mér þetta nánast einvörðungu vera einhver ægileg klassík – dauðir eru í miklum meirihluta, karlar líka og allir, hver einn og einasti, eru Íslendingar. Það er einsog það hafi aldrei verið ort ljóð utan landsteinanna. Sem er auðvitað sorglegt og ekki veit ég beinlínis hvað veldur – en þetta er bara lýðræðið. Hjá okkur í Tangagötunni er kvöldlestur á ljóðum á hverju kvöldi. Eitt í eftirrétt – en verða stundum nokkur þegar upplesarinn er í stuði. Aram Nói fær þá að lesa fyrir okkur hin úr bókunum Kärlek och uppror eða Berör och förstör. Sú fyrri er frægt ljóðasafn sem kom út árið 1989 og ætluð grunnskólanemum. Sú síðari er nýrri en tekin saman fyrir sama þjóðfélagshóp. Ég veit ekki hvort það hefur komið út nokkur svona bók á Íslandi frá því Gegnum ljóðmúrinn kom út árið 1987. Á næsta ári, þegar við verðum í Svíþjóð, er planið að kvöldlesturinn fari fram á íslensku og ég veit ekki alveg hvernig það verður. Ég á Gegnum ljóðmúrinn og eitthvað af eldri söfnum – nokkur ljóðaþýðingasöfn – en ekkert sem stenst samanburð við þessar ágætu bækur. Báðar hafa ágæta breidd – kannski ekki síst sú fyrri – og þar kennir ýmissa skrítilegra grasa og ólíkra stemninga. Það er ekki bara höfgin eða væmnin sem ræður öllu, einsog vill verða þegar Íslendingar fara að taka saman ljóð, þótt bæði sé til staðar – og Aram fer vel að merkja með ljóðin eftir eigin nefi og gerir stundum raddir og fíflast og hefur meira að segja performerað eitt hljóðaljóð – og það algerlega án þess að við séum eitthvað að skóla hann til. Ljóðin bara kalla á þetta og við sitjum ekki og hlustum einsog við séum að hlýða á guðsorðið. Gegnum ljóðmúrinn er að vísu mjög fín bók. Og ég tek hana ábyggilega með. Og kannski eitthvað gott ljóðaþýðingasafn líka. Ég nenni samt ekki að taka með mér heilu kassana af ljóðabókum þótt það væri auðvitað best. En það er stór ljóður á ljóðmúrnum að ungskáldin í henni eru sextug og eldri í dag. Unga ferska efnið í henni er orðið að bókmenntasögu.