Höfuðborgin

Ég er í höfuðborginni. Mér bauðst að taka þátt í 40 mínútna panel í morgun og vegna þess hvernig flugi er háttað núorðið fól það í sér tveggja sólarhringa ferð. Ég kom með morgunfluginu í gær og fer með morgunfluginu á morgun. En það væsir svo sem ekki um mig. Ég gisti í gestaíbúð forseta Íslands og verð í mat hjá honum í kvöld. Í þessum panel sátu sem sagt forsetafrúr Íslands og Finnlands, Eliza Reid og Jenni Haukio, auk okkar Gerðar Kristnýjar. Eliza er auðvitað þekkt af sinni bókmenntastarfsemi en Jenni er þekkt ljóðskáld í Finnlandi og hefur verið það frá því áður en hún varð forsetafrú. Hún er meira að segja nokkuð gott ljóðskáld. Það situr alltaf í mér lína frá henni um mann sem skrifar bréf á hverjum morgni og setur svo ómerkt í póstkassann til þess eins að taka á móti því endursendu á hverju kvöldi. Það kemur ekki fram, en segir sig sjálft, að viðkomandi hefur þá haft fyrir því að setja heimilisfang sendandans aftan á – það er einhver sér-finnsk kómísk einmanakennd í þessu athæfi. Panellinn tókst annars ágætlega. En það bregst ekki að svona panelar minna mig alltaf á það hvers vegna ég er rithöfundur en ekki til dæmis hlaðvarpsstjórnandi. Ég skil yfirleitt ekki spurningarnar fyrren svona hálftíma eftir að panellinn er búinn, er ekki búinn að finna gott svar við þeim fyrren nokkrum klukkustundum síðar og veit ekki hvernig best væri að orða þau fyrren daginn eftir. Þess vegna tafsa ég, byrja mörgum sinnum á sömu setningunni, reyni að rifja upp spurninguna og svara svo yfirleitt einhverju allt öðru en að var spurt. Þetta kemst ég samt yfirleitt upp með, hvernig sem á því stendur. Sennilega er ég bara svona sætur. Í gær fór ég í dálítinn bókaleiðangur. Leit við í útgáfuhófi Urðarfléttu eftir Ragnheiði Hörpu og Skurnar eftir Arndísi Lóu. Þar fannst mér ég reyndar vera svo illa gerður hlutur – einn á sólóflugi og þekkti engan til að hengja mig við – svo ég ráfaði bara strax út og ég hafði keypt bækurnar á tilboði. Fór í Eymundsson og keypti Máltöku á stríðstímum eftir Natöshu S. Svo rölti ég við hjá Braga Páli og Beggó og gaf þeim eintak af Frankensleiki – Bragi Páll er sérfræðingur í ógeði, ekki síst í barnabókum, og las yfir handritið fyrir mig. Næst kom ég við hjá Berglindi Ósk, höfundi Breytts ástands , sem átti að vera með tvær bækur sem ég lét Steinar Braga kaupa fyrir mig á Tunglkvöldi fyrir meira en ári síðan – bækur Ástu Fanneyjar og Páls Ívans – en týndust. Þær áttu sem sagt að vera fundnar og bíða mín þar – en Steinar er sjálfur í sveitinni. Svo kom í ljós að þetta voru bækur Dags Hjartarsonar og Elísabetar Jökuls og bækurnar mínar eru enn týndar. Sennilega eyddi Steinar bara peningunum mínum í eiturlyfjaskuldir og þorir ekki að viðurkenna það. Ég át kvöldmat á Austurlandahraðlestinni og fór heim að lesa. Kláraði Dag – sömu bók og átti að pranga inn á mig, en í annarri útgáfu. Ljósagangur er svona Steinars-Braga-Sci-Fi nema ef Jón Kalman hefði skrifað það. Eða ég myndi skrifa það utan á hana ef ég ætti að lýsa henni. Því hún er samt líka Dagslegasta bók sem Dagur hefur skrifað frá því fyrsta ljóðabókin hans kom út. Lá svo yfir Urðarfléttu og Máltöku á stríðstímum þar til það var kominn tími til að fara að sofa. Báðar fyrirtak –  Máltakan frekar sár og Urðarflétta einhvern veginn linnulaus – það er niður í henni (öðruvísi niður samt en bók Dags fjallar um). Ég meina það vel, nota bene – og ég held hún þoli marga lestra og krefjist þeirra jafnvel. Í morgun keypti ég líka Hemmets lugna vrå eftir Kristian Lundberg, kunningja minn, heitinn – og las hana með síðdegiskaffinu. Hún er brútal og erfitt að lesa hana – ekki bara vegna þeirra andlegu veikinda sem kostuðu Kristian lífið. Titillinn þýðir sirka „hið friðsæla afdrep heimilisins“ – og bókin er eins konar rannsókn á því sem getur átt sér stað í þessum afdrepum, sem er á köflum hryllilegt. Að síðustu keypti ég líka sænskar þýðingar á ljóðum Arsenís Tarkovskís, pabba Andrejs – en því er haldið fram á bókarkápu að sonurinn hafi verið undir miklum áhrifum frá pabba sínum. Á eftir mun ég líka skiptast á bókum við Lóu Hlín og fá bók hennar Mamma kaka í skiptum fyrir Frankensleiki . Og svo lýkur þessari bókaferð klukkan níu í fyrramálið þegar ég flýg heim. Annað kvöld er ég svo dómari í eins konar upplestrarkeppni á kaffihúsinu Heimabyggð, þar sem fólki býðst að lesa ljóð eftir dauð ljóðskáld. Eða sálug, einsog það heitir á auglýsingunni.