Guðbergur Bergsson. Kóngurinn. Ekki bara færasti listamaðurinn heldur öflugasta tröllið. Guðbergur veit alltaf hvað maður á ekki undir neinum kringumstæðum að segja. Listamaðurinn lætur okkur gráta, lætur okkur fyllast hlýju og hlæja; en tröllið setur okkur af sporinu, kemur okkur úr jafnvægi og neyðir okkur til þess að verja þær skoðanir okkar sem við héldum að væru yfir gagnrýni hafðar. Það er fíllinn sem gerir okkur ljóst að við höfum breytt lífum okkar í postulínsverslanir. Muniði eftir Gillzmálinu? Gillz var kannski ekki alltaf fínlegasta tröllið og svo sannarlega ekki það gáfaðasta – en hann náði árangri. Gillz var jarðýta í bransanum. Hann skemmti hinum Þórðarglöðu og ýfði fjaðrir hinna skælandi stétta. „Það þarf bara að gefa þessum leiðinda rauðsokkum einn granítharðan í háruga bílskúrinn til þess að þagga niður í þeim.“ Muniði eftir þessu? Ofsa-lol! Þessi tími, fyrsti áratugur 21. aldarinnar, var gullöld tröllsins og Gillz átti ekki í neinum erfiðleikum með að heilla lýðinn, allra síst þvenghoruðu menningarvitana með tjúguskeggin sem honum þótti svo gaman að gera gys að – hann lofaði meðal annars að „kjöta upp“ Sjón – sem á móti líktu drengjasveitinni hans á kallarnir.is við Fjölnismenn, gerðu við hann útgáfusamninga, réðu hann í vinnu á helstu fjölmiðlum landsins, og hrósuðu honum ad absurdum. „Hann er mjög vel máli farinn, talar litríkt mál.“ Muniði eftir þessu? Hehe. Eða eru allir búnir að gleyma – hló ekkert ykkar þegar hann kallaði konur ílát til að sprengja í? Enginn? Það var óhjákvæmilegt að hann lenti að endingu í hakkavélinni sjálfur. Ærslatröllum er ekki annað skapað en að farast í eigin rauðabruna. Þann 2. desember, 2011, birtust fréttir í öllum helstu fjölmiðlum um að Gillzarinn, Gillzenegger sjálfur, Egill Einarsson – einkaþjálfari, útvarpsmaður, kvikmyndastjarna, kellingabani – hefði, ásamt unnustu sinni, verið kærður fyrir nauðgun og alltíeinu var internetið mjög alvarlegt. Alltíeinu var gríðarlega alvarlegt mál að tala óvarlega um sakleysingja. Alltíeinu var bráðnauðsynlegt að kæra dónalegt fólk fyrir meiðyrði – heilu hópana, alla sem dirfðust að gera því skóna að Egill, aumingja litli Egill, væri sekur um annað og meira en að raka sig á pungnum. Ónefnt listaháskólatröll varð fyrir þeim ósköpum að uppnefna Stóra G, sjálfan Störe, Þykkeh „rapist bastard“, var dæmdur fyrir meiðyrði, sennilega í einhverjar botnlausar sektir. Svo korteri síðar var sama listaháskólatröll sjálft sakað um nauðganir í fjölmiðlum. Og þá fannst tröllinu skyndilega gríðarlega alvarlegt mál að tala óvarlega um sakleysingja – fólk sem hafði ekki einu sinni verið dæmt! Hvað var eiginlega að verða um internetið? Hvað var að verða um sómatilfinningu þjóðarinnar? Og mitt í öllu kófinu birtist hann. Kóngurinn. Guðbergur er annars konar tröll en Gillz – Gillz meikaði aldrei að láta hata sig, Gillz vildi bara láta fólk hlæja með sér þegar hann híaði á minnihlutahópa. En Guðbergur hefur alltaf verið hataður og þekkir ekkert annað. Samkynhneigður maður fæddur árið 1932 í pínulitlu sjávarþorpi í hómófóbísku landi. Sennilega hefur hann lært að hata sjálfan sig fyrstan allra – lært skömmina nógu snemma til að skilja hana endanlega við sig á mótunarárunum. En umfram allt annað hlýtur hann að hafa lært að skilja samfélagið í kringum sig – og allt sem það stendur fyrir – sem rangt, sem samansafn af villuráfandi fábjánum, læmingjum og fíflum. Guðberg vantaði korter í áttrætt. Og hvað gerir þjóðin við sín stærstu skáld þegar þau verða áttræð? Hún heldur veislu. Heldur ráðstefnur. Gefur út gullbryddaðar bækur með fleygum orðum – perlur úr verkum Guðbergs. Það eru blóm. Langar greinar í blöðunum. Fálkaorðan. Samfélagið sem lagði fæð á Guðberg og allt sem hann stóð fyrir ætlaði nú að elska hann. Einsog ekkert af hinu hefði nokkru sinni átt sér stað, einsog fortíðin skipti engu máli. Það ætlaði að sýna honum – og sjálfu sér – að það léti sko ekki smá hommaskap stöðva sig í hyllingunni, let bygones be bygones, og látum kærleikann ráða ríkjum. Og hver haldið þið að nenni því? Ekki kóngurinn. Kóngurinn hefur engan áhuga á kærleika samfélagsins – einmitt vegna þess að samfélagið er rangt. Rangstæða samfélagsins er óskiljanlegur hluti af grunnstillingu tröllsins. Það eina sem samfélagið á skilið er að gráta og öskra. Og þá skrifaði Guðbergur í blöðin: „Svo henti það, sem alltaf gerist, að glæsimennið er ásakað fyrir að hafa farið í óleyfi upp á stelpu og hún heimtar hjónaband eða pening. Áður var hlegið í þorpum að þannig stelpupussulátum en nú er öldin önnur á íslenska menningarlandinu. Þar er komin í spilið viss nunnuvæðing í nútímastíl og meyjarhaftavörn sem kallast femínismi. […] Stundum er engu líkara en kaþólski Rannsóknarrétturinn frá liðnum öldum hafi verið endurvakinn í nútímahjörtum hér á landi.“ Og þegar tröllið gaggar gjóta hænurnar allar í einu. Það er stundum sagt að netheimar logi. En þeir loga ekki, þeir iða, einsog ormagryfjan sem þeir eru. Hrææturnar fara allar af stað, allar með nefið upp í loft af vandlætingu, með skoltana opna í leit að fæðu, taka andköf hver í kapp við aðra og það ískrar í þeim einsog hýenum á móðurspena. Þegar áttræðisafmælið rann upp þagði þjóðin bara. Það var helst að einn og einn forhertur menningarviti minntist fæðingar módernismans í íslenskum skáldskap – meistaraverksins, Tómas Jónsson – metsölubók – fólkið sem hafði beinlínis eignað líf sitt bókunum hans henti í status á Facebook, og hafði á kærleika sínum alla fyrirvara. Hið fullkomna tröll. Kóngurinn.