Bíódagar I

Ég sat í bíó í gær frá 18 til miðnættis. Fyrstu tvær bíómyndirnar voru eins ólíkar hugsast getur en fjölluðu þó báðar um unga gítarleikara sem voru fastir í smábæjum þar sem fábreytni ræður ríkjum. Foreldradauði spilaði stóra rullu og frumsamin tónlist. Og þær enda báðar með því að gítarleikararnir fara til stórborgarinnar með ekkert í farteskinu nema gítar og stóra drauma. Sú fyrri heitir Lunana: Jakuxi í kennslustofunni og fjallar um ungan kennara í Bútan sem er sendur til afskekktasta þorps í Bútan (og hugsanlega veröldinni), Lunana, til þess að kenna börnum. Þessi ungi kennari er trúbador í hjáverkum og dreymir um að flytja til Ástralíu. Hann langar sem sagt ekki að fara Lunana og það fyrsta sem hann ákveður þegar hann kemur – eftir langa rútuferð og sex daga göngutúr upp í fjöll – er að fara aftur til baka til höfuðborgarinnar. En það þarf að hvíla hestana og á meðan þeir eru að hvíla sig binst hann börnunum og svæðinu sterkum tilfinningum. Hann nær ótrúlegum árangri með þau – hann kennir þeim dásemdir vísindanna (lestur og reikning og ensku) og þau kenna honum auðmýkt og að bera virðingu fyrir náttúrunni (þar á meðal jakuxanum sem er komið fyrir í kennslustofunni hans). Á endanum kemur svo að því að hann þarf að fara – eða snjóa inni ella yfir allan veturinn og missa af tækifærinu til að flytja til Ástralíu. Þetta er sennilega eini hluti söguþráðarins sem fer gegn klisjunni, því kennarinn yfirgefur þorpið. Í lokasenunni er hann kominn til Sydney, situr uppi á sviði á pöbb og glamrar eitthvað vestrænt popp. Svo hættir hann skyndilega að spila. Gestirnir þagna. Og kennarinn syngur lag sem hann lærði í fjöllunum og allir eru djúpt hrærðir. The end. Happy FKN Sunshine fjallar um smáþorp í Kanada þar sem allir vinna í sömu sögunarmyllunni. Það er verkfall og lífið er glatað, ömurlegt, allt er viðbjóðslegt og allir eru hrottalegir og fólk notar mikið af eiturlyfjum til að deyfa sig og dreymir um að komast út úr þessu krummaskuði. Aðalsöguhetjan er ungur gítarleikari sem dreymir um að stofna hljómsveit. Sem hann gerir með hópi furðufugla – bassaleikarinn er lygasjúkur, söngvarinn egótískur (leikstjórinn kallaði hann sósíópata í viðtali eftir myndina, sem er kannski svolítið mikið í lagt – en það var allavega ekki alltílagi með hann). Trommarinn er stelpa og foreldrar hennar eru ekki úr verkalýðsstétt, einsog foreldrar hinna. Hún er líka sá karakter sem maður sér minnst til – hún er hálfgerður statisti í myndinni, uppfyllir bara þá rullu að vera ekki af sömu stétt og hinir. Skapar smá kontrast. Fyrirsjáanlega fer þetta allt í handaskolum einmitt þegar útlit er fyrir að draumurinn geti verið að rætast (það er m.a.s. mætt svona Mr. Big týpa til að hlusta á bandið). Myndin endar á því að gítarleikarinn flytur til Toronto og lofar stóru systur sinni (sem er eiturlyfjasali og neytandi) að koma aldrei aftur í þessa skítaholu. Ég þarf kannski ekki að taka fram að þessi saga var eiginlega jafn kunnugleg og sú fyrri. Þótt báðar myndirnar hefðu sinn eigin stíl og legðu sitthvað til þessa ævaforna og margendurtekna smábæjarminnis, þá var þetta fullmikið paint-by-numbers fyrir minn smekk. Þriðja sýning kvöldsins var halarófa. Fyrst var klukkutíma löng heimildarmynd um ítalska smábátasjómenn. Þeir voru mest bara að tala um sjálfa sig og þetta líf og inn á milli voru löng skot af fiskvinnslunni. Þetta var merkilega heillandi og sjómennirnir frábærar týpur – einhvern veginn í senn mjög líkir okkar smábátasjómönnum og ólíkir. Tónlistin – píanó og fiðlur – var hins vegar óbærileg, og sömuleiðis sjómannaljóð leikstjórans sem birtist inn á milli. Svo komu nokkrar stuttmyndir. Best þeirra – og virkilega verulega frábær – var A Brief History of Us eftir Etgar Keret, sem er ekki síður þekktur sem rithöfundur og var meðal annars gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Þetta er teiknimynd sem rekur söguna frá tilurð lífs á jörðinni í gegnum þróun mannsins, ástarinnar og að einsemdinni – í einum samfelldum þræði og á um það bil þremur mínútum. Í dag byrjar dagskráin klukkan fjögur. Ég ætla að taka mér pásu milli átta og tíu til að koma mat í fjölskylduna, en annars sit ég til miðnættis aftur, nema eitthvað komi til.