Ég horfði á aðra seríu af Casa de Papel. Hún var kannski snöggtum betri en sú fyrsta en ekki er þetta enn „gott“ í neinum eiginlegum skilningi. Harry Met Sally endirinn á karabíska barnum varð næstum því til þess að ég henti mér út um gluggann. Þáttaröðin keyrir á engu nema orðspori og cliffhanger-spennu. Maður byrjar að horfa vegna þess að aðrir eru að horfa og eru húkkt – gefur þessu séns í nógu marga þætti til þess að maður vilji sjálfur vita hvað gerist næst. En svo er ekkert þarna nema tómið. Jú og spænskan, ég fer ekki ofan af því að hún gefur þessu í alvöru smá aukastig. Að vísu er hægt að horfa á þetta döbbað – ég er ekki frá því að það gæti verið spennandi líka. Döbb er kúl. *** Ég fór á tvo ljóðaupplestra í Münster. Eða hálfan. Þetta var fjögurra tíma dagskrá og ég sá tvö skáld af fjórum. Hin tvö voru bara á þýsku og án þýðinga og ég gafst upp á því. Skáldin sem ég sá voru Johannes Heldén frá Svíþjóð og Eva Tind frá Danmörku. Þau höfðu bæði um 45 mínútur til að lesa og sátu svo á spjalli í korter á eftir. Eva sýndi ljóðmynd bróðurpartinn af sínum tíma. Þar var hún meðal annars að krota í snjóbreiður – fyrst „istid“ og svo bæta við r-i svo úr varð „ristid“; fyrst „iskoger“ og svo bæta við r-i svo úr varð „riskoger“ og svo framvegis. Johannes las úr sci-fi ljóðum og lét meira að segja í veðri vaka að hann hefði ekki skrifað þau sjálfur heldur algóritmi sem hann smíðaði. Hann hefur áður gert það og gengist við því en sagði fyrir einhverju að hann væri hættur að skrifa og neitaði – góðlátlega – að svara því hvort hann hefði skrifað nýju ljóðin sjálfur. Eitt af því sem var svolítið rætt var tilhneiging algóritmans – sem byggði á orðaforða úr fyrri skrifum Johannesar – til þess að tala um Toyota Landcruiser, sem Johannes mundi ekki til þess að hafa skrifað um. Algóritminn fékk þráhyggju fyrir þessum Landcruiser sem endaði með því að Johannes (og forritarinn hans) þurftu að skrifa reglu um að hann yrði að hætta að nefna þennan helvítis Landcruiser. Þetta mætti töluverðri andstöðu í sal og Johannes viðurkenndi að þetta hefði verið óþarfa inngrip, algóritminn yrði að fá að skrifa það sem hán sýndist. Eva – sem er fædd í Pusan í S-Kóreu en ættleidd til Danmerkur (einsog önnur dönsk skáldkona og vinkona mín Maja Lee Langvad) – las líka ljóð af spegilsíðum, þar sem ljóðin voru eins hægra megin og vinstra megin nema að öðrum megin fengu allir hlutar líkama ljóðmælanda einkunnina „danskur“ en hinumegin „kóreskur“. „Danskir armar mínir umvefja þig“ gæti þá staðið öðrum megin en „Kóreskir armar mínir umvefja þig hinumegin“. Þetta er vandmeðfarið en Eva gerði það mjög vel. *** Ég fór á dróntónleika hjá hinum mikla og fræga og mínimalíska drónlistamanni Phill Niblock. Hvernig lýsir maður dróntónleikum? Ég heyrði þrjú lög – hvert þeirra var kannski korter og samanstóð af einni nótu. Þessi nóta birtist í djúpum drungalegum drónum og háum ískrum og alls konar litbrigðum þar á milli og verkin voru merkileg ólík. Tveir skjáir sýndu vídjóverk – mikið til tré og vatn á hreyfingu en líka fólk á stangli sem beygði sig niður og snerti jörðina og í lokin var fólkið orðið nakið. Phill sat sjálfur aftast og stýrði öllu en á sviðinu – eða á miðju gólfinu í hlöðunni þar sem verkið var flutt – var einleikari. Í fyrsta laginu var það sellóleikari sem lék eina nótu, í næsta var það þverflautuleikari sem gekk á milli fólks og blés í flautuna alveg ofan í andlitinu á manni, lágt og varlega, en í því síðasta var það lítið eitt íturvaxin ung kona í adidasgalla sem dansaði varlega. Það er rosa klikkað fyrir hausinn að sitja í svona hávaða svona lengi. Mér skilst að á meðan það var löglegt hafi Phill alltaf spilað miklu hærra – þetta verður sónn í hausnum á manni og hann fylgir manni langt fram eftir kvöldi. Sennilega hefði maður verið með hann í marga daga ef maður hefði farið fyrir 20-30 árum. *** Ég fór á myndlistarsýningu þar sem hópur listamanna sem kallar sig Global Glitch Gardens safnaði saman rusli á listahátíðinni Natur am Bau (þar sem ég var s.s. staddur á dögunum) og gerði úr því listaverk. Hér er t.d. mynd af gröfu. Svo fóru þau líka í kappsiglingu á hallarsíkinni við Burg Hülshoff. Á svona sólarstrandabátum. En ég rétt missti af því. *** Í safninu í Burg Hülshoff var ljóðskáldið Monika Rinck – ásamt fleirum, en hún stýrði held ég – búin að fikta í og gera alls konar sniðugt. Safnið er í raun bara kastalinn þar sem ljóðskáldið og náttúruvísindamaðurinn Annette von Droste-Hülshoff bjó og alla jafna er hægt að rölta um það með heddfóna á hausnum og fá upplýsingar um málverk og dót. Stór hluti sýningar Rinck og félaga gekk út á að manipúlera þennan audio-túr og bæta í hann – en auk þess var búið að gera alls konar furðulegt, meðal annars líma dauðar flugur í alls kyns mynstur út um allt (en nógu lævíslega til að maður gæti í fyrstu haldið að flugurnar hefðu bara dáið í þessu mynstri). Þá var búið að skipta út einni hillu í hinum virðulega innglerjaða bókaskáp leðurbundinna bóka fyrir ágætis safn af Andrésar-syrpum. *** Ég horfði á mynd sem Tobias Yves-Zintel hafði gert upp úr textum frá mér, Ann Cotten, Hamed Aboud, Maríu Ceciliu Barbetta og Yoko Tawada. Við sátum saman konferans um loftslagsmál – með gleiðlinsu, það var fjallað um allt frá örverum yfir í Bauhaus yfir í gróðurþök í stórborgum – í febrúar og fengum síðan það verkefni að skrifa texta sem átti lauslega að vera út frá bókinni The Shape of Things to Come eftir HG Wells og bíómyndinni Things to Come, sem gerð er upp úr skáldsögunni. Við fórum – og máttum fara – mjög lauslega í kringum þetta allt saman en enduðum öll með texta um tré. Ég kannski mest vegna þess að ég var þegar byrjaður að vinna í texta um tiltekna ösp – sem er síðan skáldsagan Brúin yfir Tangagötuna (sem kemur ekki út um jólin og ég veit ekki hvenær). Annars hefði ég ábyggilega valið að sleppa trjám. Ég hef ekki lesið texta hinna – ég fékk þá á þýsku bara í fyrradag – en við Hamed ræddum svolítið okkar texta svo ég vissi hvaða textabrot hann átti. Við virðumst samt öll hafa skrifað einhvers konar sögu en Tobias fór þá gáfulegu leið að taka ýmist bara brot úr sögunum eða stytta þær mikið og gera úr þessu heild sem meikar meira ljóðrænt sens en narratíft. Mín saga kom öll en án aðalprótagonistans, þess sem horfir á herlegheitin, og verður einsog anekdóta í ljóði. Myndin var mjög ljóðræn og svolítið Roy Anderson-leg. Við höfundarnir vorum ánægð og ég gat ekki betur séð en það væru áhorfendur líka. *** Ég horfði á Paper Tiger uppistandið með Bill Burr. Hann er kannski engin lifandis ósköp að velta sér upp úr því hvað hann megi og megi ekki segja – það er woke-strengur í mönnum einsog Chappelle og ég tala nú ekki um Louis CK, hvað sem líður afboðunum (vinsælasti búturinn úr uppistandi Louis snýst um að konum standi gríðarleg ógn af körlum) – en Bill Burr er meira næntís en svo. Hann gerir sér meira far um að vaða áfram (kannski einsog Ricky Gervais) og bíða svo eftir viðbrögðunum (eða skamma fólk fyrir þau). Ég veit síðan ekki hvort það er rétt að kalla það eðlishyggju, þegar menn segja „konur eru svona“ og „karlar eru svona“ – einsog hann eyddi í sjálfu sér talsverðum tíma í (en gagnrýndi þess á milli sams konar brandara um svarta vs. hvíta). Að einhverju leyti er hann sennilega bara að lýsa veröldinni einsog hún blasir við honum og það væri erfitt að fara að halda því fram að hann færi með fleipur, beinlínis, þótt hann geri nákvæmlega ekkert í því að útskýra hvers vegna hlutirnir eru einsog þeir eru eða gefa í skyn að hann sé í sjálfu sér eitthvað ósáttur við þetta. Ég hugsaði líka eitthvað um tilganginn með ákveðinni kven- eða karlfyrirlitningu – a.m.k. fyrir heterónormatíft fólk. Þetta að geta gargað „konur! djísus!“ eða „karlar! dæmigert!“ Ótrúlega stór hluti lífs hinnar heterónormatífu manneskju fer í að spegla sig í þessu fólki sem maður ýmist þráir eða er ætlast til að maður þrái eða er alls ekki ætlast til að maður þrái. Þegar maður er einn skapar það ákveðna tensjón og þegar maður er í sambandi skapar það aðra tensjón – maður er mjög viðkvæmur fyrir þrám sínum og löngunum, viðkvæmur fyrir þeim sem maður elskar mest o.s.frv. Í raun gildir þetta líka yfir foreldra og börn – sem koma líka oft fyrir í uppistandi og sjálfsævisögum sem problematískar verur. Og auðvitað maka almennt, sama hver kynin er, þótt það sé erfiðara að formúlera þá maka sem „þjóðfélagshóp“ ef maður deilir með þeim kyni. Þetta eru erfið sambönd og kynin verða að statistum fyrir eitthvað sem kveikir samtímis þrá og gremju. Að einhverju leyti kemur upphrópunin og handafórnin líka í staðinn fyrir að maður beini gremju sinni að einstaklingum – oh, mamma! oh, Sigurjón! – eða að kynjakerfinu sem slíku og hlutverkunum sem okkur og öðrum er gert að gegna þar innan. Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt – en það er, hvað sem öðru líður, um það er ég sannfærður. Að því sögðu held ég að ég hefði ekki viljað horfa á þetta með neinni konu sem mér þykir vænt um, eða bara neinni konu, og að því sögðu þá var hann samt mjög fyndinn og alls ekki alltaf úti að aka (þótt hann hafi líka stundum verið úti að aka og þá keyrt hressilega á af og til – en það er líka partur af fjörinu, grínistar eiga ekki að vera nákvæmir greinendur heldur tilraunatrúðar). *** Ég las Trick Mirror eftir Jiu Tolentino eftir að ríkisútvarpið hafði mælt með henni. Hún er að mestu leyti alveg frábær. Þetta er ritgerðarsafn og eðli málsins samkvæmt er maður misánægður með ritgerðirnar. Sú sem fjallaði um þátttöku Jiu í raunveruleikasjónvarpsþætti fannst mér full átakalítil og hún eyðilagði eiginlega líka svolítið fyrir mér alla aðra sjálfsævisögulega þætti bókarinnar. Maður verður svo meðvitaður um hvað hún er meðvituð um eigin ímynd – og auðvitað eru intelektúalar ekkert yfir það hafnir að þurfa, vilja og hanna sjálfa sig sem brand. Ég er ekki frá því að hún hafi eitthvað tekist á við einmitt það en það hefði hreinlega þurft meiri átök í það – meira púður. Sömuleiðis var brúðkaupsgreinin of mikið einsog eitthvað úr Opruhþætti og í einni grein þvældist hún á milli sæborga og kvenna og kvenna sem sæborga og klykkti svo út með að konur þyrftu að læra meira af sæborgum og tortíma heiminum bara – eða, þú veist, vera miskunnarlausari, og þótt ég sé í sjálfu sér ekki ósammála punktinum náði ég bara aldrei að fylgja eftir lógíkinni, hoppin voru of stór. Að þessum aðfinnslum frátöldum er þetta hins vegar alveg svakalegt ritgerðarsafn – ég hefði skallað hvern sem hefði sagt eitthvað þvíumlíkt um sjálfan mig þrítugan (og alls ekki átt það skilið raunar) af því að auðvitað er maður fullorðinn þrítugur en það er fáránlegt að rétt þrítug manneskja sé svona mikil gáfnanegla. Hún er ekki bara mikið lesin – vísar austur og vestur í menningarsöguna, ekki síst í kvennakanónuna – heldur vel lesin, hefur lesið það sem hún hefur lesið mjög ítarlega og maður fær það aldrei á tilfinninguna (einsog maður gerir annars iðulega í svona bókum) að hún sé að nefna bækur bara til að sýna að hún hafi lesið þær (sem er reyndar líka mikilvægt, ég þreytist ekki á því að þakka fólki fyrir að neimdroppa höfundum og verkum, þannig smitast áhugi og athygli, en það er önnur saga). Fyrst og fremst er hún hins vegar ofsalega glögg og hugrökk – og þótt auðvitað örli á því að hún sé að þóknast einhverjum eða fylgja vanahugsun, það er nú einu sinni hið mannlega ástand, þá ryðst hún oftar út úr henni og storkar væntanlegum lesendum sínum á máta sem maður á varla að venjast frá millenníulum (sem eiga að heita aldir upp í bergmálsklefum, aldir upp á eigin bergmáli). Ég reifst fullt við hana í huganum þótt ég væri í grunninn alltaf með henni í liði og er strax farinn að hlakka til að hún gefi út fleiri bækur. Þetta er svona verk sem er líka skilgreinandi fyrir ritgerðina sem slíka – eða blaðamennskuna – einsog Hunter S. Thompson eða Joan Didion eða Tom Wolfe eða Susan Sontag voru einhvern tíma. Unaður að lesa. *** Ég fór á rokktónleika sem voru líka einmannsleikrit. Ljóðskáldið Senthuran Varatharajah flutti mónólóg yfir rokktónlist frá hljómsveitinni Rán. Þemun í leikritinu eða ljóðinu voru mörg og mikið vísað í heimspeki og mikið um óljósar vísanir sem flestar vísuðu samt í „heimili“ og „landamæri“ og „tungumál“ og textinn var feykisterkur og upplesturinn – frekar flatur megnið af tímanum en maður fann þá sterkar fyrir því þegar hann lækkaði eða hækkaði raustina. Sveitin spilar iðnaðarrokk á þrjá gítara og þau voru öll klædd í rauða samfestinga. *** Loks fór ég í bíóið Wolf – sem er líka bar – og sá bíómyndina Synonymes. Þetta er ísraelsk mynd sem gerist í París. Ungur maður flytur til Frakklands eftir herþjónustuna og er kominn með viðbjóð á heimalandi sínu – líkt og afi hans sem flutti frá Lettlandi til Ísrael af svipuðum ástæðum, og líkt og afinn þá hafnar hann meira að segja móðurmálinu og neitar að tala það. Maðurinn kynnist ungu pari, strákurinn í því pari er jafn ríkur og ísraelinn er fátækur. Fyrst býst maður eiginlega við því að þeir byrji saman en það fer nú nær því á endanum að ísraelinn og kærastan byrji saman. Umfjöllunarefnin eru militarisminn/karlmennskan, þjóðernið og stoltið og kyn … ja, kynhvað? Kynverund? Aðalsöguhetjan er regulega allsber og það allra fyrsta sem er sagt um hann í myndinni er að hann sé umskorinn. Eftir dásamlega senu þar sem hann vaknar nýkominn til Frakklands, hoppar yfir íbúðina þvera og endilanga í svefnpokanum sínum, smeygir sér svo úr honum nakinn (manni verður óhjákvæmilega hugsað til bæði endurfæðingar og umskurðs), fer í sturtu, fróar sér, uppgötvar að það er búið að ræna öllu sem hann á og hleypur um allt hús í leit að hjálp áður en hann frýs svo nærri því í hel í sturtunni sinni (parið finnur hann, þannig kynnast þau). Myndin er rosalega hlaðin. Sennilega væri hægt að fylla heila bók einsog símaskrá bara af táknunum í henni – hvernig tónlistin er valin, myndirnar á veggjunum, symbólisminn í öllum gjörðum og orðum og svo framvegis. Mér finnst það gaman þótt það sé auðvitað engin leið að fylgja þessu eftir eða púsla því saman – það verður fljótt einsog með saltkornin sem tvöfaldast á öllum reitum taflborðsins, 1, 2, 4, 8, 16 o.s.frv. (á endanum eru þau á þyngd við jörðina minnir mig). Og hún hangir líka saman á stökum senum frekar en söguboganum. Hún er ekki mikið plottuð, næstum ekkert, en senurnar hver um sig meika sens í heildinni og sumar þeirra (senurnar þar sem hann annars vegar syngur Marselasinn í frönskutíma og hins vegar þar sem hann er að putta sig í rassinn fyrir einhvern klámmyndaframleiðanda sem vill svo að hann fari að tala á hebresku koma upp í hugann) eru ooooooooofsalegar. Hún snertir ekki nema örlítið á málefnum Palestínumanna og sambúðinni þarna niðurfrá en samt fjallar hún auðvitað eiginlega varla heldur um annað. Það – og saga Gyðinga í Evrópu – er toxíkin að baki öllu, ofsinn, harkan. *** Gítarleikari vikunnar er Son House.