Ein helsta vísbendingin um að maður búi í stéttasamfélagi er að sumt fólk virðist halda að allir aðrir hafi það jafn gott og það sjálft. Til dæmis þegar Össur Skarphéðinsson heldur að „venjulegt fólk“ geti skottast um heiminn fyrir lítið fé – og það hafi ekki að gera með stöðu hans eða tekjur, heldur með uppgang „deilihagkerfisins“. *** Annað dæmi er að því finnst ákveðin vinna vera fyrir neðan virðingu þeirra. Einsog þegar Agli Helgasyni finnst fásinna að „venjulegt fólk“ eigi að skanna vörurnar sínar sjálft í stórmörkuðum. Því venjulegt fólk vill ekki „vinna á kassa í Bónus“. *** En auðvitað vinnur venjulegt fólk á kassa í Bónus. Og venjulegt fólk getur ekki leyft sér að ferðast út um allar trissur án þess að setja efnahag sinn á hliðina – hvað sem líður „deilihagkerfinu“ (sem er auðvitað ekki deilihagkerfi heldur harðkjarna markaðshagkerfi). *** Og þetta skrifar maður sem skottast um heiminn, vill ekki vinna á kassa í Bónus og AirBNBar heimili sitt á meðan hann eyðir sumrinu í Svíþjóð. Sem er sennilega ekki mikið ódýrara en að eyða því á Folegandros eða Boston, þótt flugmiðinn kosti minna. *** Þetta hefur að vísu meira með stöðu mína að gera en stétt – að minnsta kosti í þeirri merkingu að ég hef frekar lágar tekjur (langt, langt undir landsmeðaltali). En ég fæ ansi mikið af ókeypis flugmiðum vegna starfs míns. *** Mig grunar samt að ég hafi það betra en flestir. Í það minnsta betra en mjög, mjög margir. *** Í sumar fer ég í tvígang í eiginlegt frí. Annars vegar var helgarferðin til Berlínar með Aram – við keyptum okkur ódýrasta miða með Norwegian, án þess að tékka inn farangur, og gistum á sófanum hjá Hauki Má. Óvæntasti og dýrasti liður ferðarinnar var að við neyddumst til þess að leggja í dýrara stæði á Arlanda en við ætluðum – ódýru stæðin voru öll full – og það setti okkur næstum á hliðina. *** Í hinu fríinu förum við Nadja til San Francisco í sex daga. Það er um miðjan ágúst, rétt áður en við komum heim. Nadja fékk flugmiðana í jólagjöf (og ég leitaði einfaldlega að ódýrustu tilboðunum eitthvert út fyrir Evrópu). Þar er deilihagkerfið svo langt á veg komið að það er ódýrara að búa á hóteli en á AirBNB. *** Sennilega hefði ég ekki efni á neinu af þessu ef ég ynni á kassa í Bónus. Eða ef ég væri næturvörður á hóteli eða blaðamaður á héraðsfréttablaði, einsog ég var, eða starfsmaður í skipasmíðastöð, rækjuvinnslu, sambýli, leikskólakokkur eða ræstitæknir í skemmtiferðaskipi, einsog ég hef líka verið, og svo sannarlega ekki sem öryrki eða sjúklingur, sem ég hef blessunarlega aldrei verið. *** Ég hef verið sjálfstætt starfandi rithöfundur í tíu ár um þessar mundir og af þeim árum hefði ég kannski getað leyft mér eitthvað svona lagað í tvö. Tvö önnur gat ég varla leyft mér að taka strætó. *** Samt hef ég alltaf verið venjulegt fólk.