Í gær gerði ég tvenn mistök. Hin fyrri voru að segja að við Aram hefðum gist á sófanum hjá Hauki Má þegar við vorum í Berlín. Það gerðum við alls ekki. Við gistum í vellystingum í rúminu hans Hauks Más en Haukur Már svaf sjálfur í ponsulitla sófanum sínum, einsog Kristur krossfestur í jötunni, svo við mættum öðlast góðan svefn. *** Seinni mistökin gerðust á hlaupum í Rejmyreskógi. Ég taldi mig hafa hlaupið sömu leið og venjulega – sem ætti að vera tæplega 7 km hringur – og var satt best að segja ekki mjög vel fyrirkallaður í þá vegalengd, enda lifað á pizzum og kebab og límonaði og bjór í marga daga. En eftir fjóra kílómetra kom ég að sveitabæ sem ég hef aldrei komið að áður. Ég ákvað því að hlaupa bara sömu leið til baka. En þá kom ég ekki aftur á sama stað og ég hafði hlaupið frá, heldur út á hraðbraut. *** Mér fannst sennilegt að nú væri ég norðan við Rejmyre og hljóp því í suðurátt í von um að rekast fljótlega á einhvers konar skilti því til staðfestingar. Eftir 5-6 kílómetra birtist loks skilti og þá kom í ljós að ég var sunnan megin við bæinn og átti að hlaupa í norður en ekki suður. Batteríið í úrinu – sem er með GPS en engu korti – kláraðist þegar ég var kominn 16 km og þá átti ég eftir um 5 km. *** Ég viðurkenni að hljóp ekki alla leiðina. Sérstaklega ekki þessa síðustu 5 km. En ég fór þá sem sagt sirkabát hálfmaraþon, illa fyrirkallaður. Sem er það lengsta sem ég hef farið vel fyrirkallaður – þá undirbjó ég mig mánuðum saman, alla Víetnamdvölina, og hljóp einn af síðustu dögunum. Á miklu betri tíma, að vísu, en samt. *** Ég er í lélegu formi samt. Ég gerði þetta bara á þrjóskunni. *** Í morgun ætlaði ég að taka strætó til Vistinge til að ná öðrum þaðan til Norrköping áður en ég stökk í lest til Malmö. En þá var búið að loka öllum strætóstoppistöðvum í Rejmyre vegna bæjarmarkaðarins. Úr varð heljarinnar hasar, hlaupandi pungsveittur á lúnum leggjum um sveitarfélagið, áður en svili minn kom auga á mig og brást skjótt við – pikkaði mig upp á bílnum sínum og skutlaði mér út á þjóðveg. Þetta hafðist og ég er í lestinni. *** Líf mitt er eitt viðstöðulaust ævintýri. *** Þessir harðstjórataktísku messíasarkomplexar sem hrjá leiðtoga í einkareknu góðgerðar- og umönnunarstarfi eru rannsóknarefni. Eða í öllu falli ástæða til að gaumgæfa rekstrarmódelið. Í sjálfu sér eru þetta að mér sýnist misalvarleg dæmi – sennilega er engin ástæða til að bera saman Stígamót, Hjallastefnuna og Fjölskylduhjálp, við alvarlegri dæmi einsog Landakotsskóla, Breiðavík og Byrgið, en tendensinn er þarna. Einræðisherrastemningin. *** Kannski er hún líka skyld því sem gerðist í alþýðulýðveldunum. Því sem gerist þegar mannúðarstarf verður svo byltingarkennt eða svo réttlátt (eða sjálfsréttlátt, einsog sjálfumgleði heitir á ensku) að ekkert má hamla því; allt verður að láta undan svo ruðningsvélin geti haldið áfram óvéfengjanlegu mannúðarstarfi sínu. Árangur áfram, ekkert stopp, einsog önnur mannúðarmaskína orðaði það um árið. *** Mér hefur líka alltaf þótt skrítið að svo stór hluti góðgerðar- og umönnunarstarfs sé á vegum sjálfseignarstofnana, félaga og fyrirtækja. Mér finnst það til marks um að hið opinbera sé ekki að sinna einhverju sem það ætti að vera að sinna. Í mörgum tilvikum borgar hið opinbera fyrir starfsemi félaganna – en sennilega miklu minna en það myndi gera ef það tæki yfir starfsemina.