Untitled

Þegar ég reyni að átta mig á Hvalárvirkjun verður allt svart. Hún framleiðir fullt af rafmagni, meira en við þurfum, og þegar ég spyr hvort þá sé komið nóg er mér tjáð að nei, svo þurfi að virkja meira. Hér og hér og hér (ég man örnefni illa, en þetta er í Djúpinu). Ein stór virkjun og nokkrar minni. Og svo einhverja tengipunkta. *** Og þá er komið nóg. En þá er líka búið að virkja fyrir miklu, miklu meiri orku en við þurfum á að halda. Til þess að við getum fengið hringtengingu. Ef ég er ekki að misskilja eitthvað snýst þetta sem sagt um að láta einingarnar borga hver aðra, koll af kolli, þar til allt er í lagi. Þegar allt er samtengt logar á perunum vandræðalaust og fyrirtækin, svo sem fiskvinnslan, hætta að blæða verðmætum út um logsvíðandi ( trigger warning !) rassgatið í hvert sinn sem rafmagnið fer. Við byggjum Hvalárvirkjun, fáum smá afgangsorku og seljum megnið einhverjum mengunarkapítalistum á meginlandinu (stundum finnst mér einsog við séum eyja, það er auðvitað ekki satt, en við erum samt ekki á hringveginum). Og gróðinn af því borgar næsta legg. *** Þannig fer annar hver foss í Ísafjarðardjúpi í það að halda uppi atvinnu við stóriðju á hringveginum. Því við ætlum að vera stóriðjulaus – stóriðjulausir Vestfirðir er slagorðið – og þá þurfum við ekki alla þessa orku. Mér finnst þar heldur illa farið með „okkar“ auðlindir, ef ég á að segja ykkur alveg einsog er. Þá verður búið að framleiða einhver hundruð megawatta sem við höfum í sjálfu sér ekkert við að gera – í mesta lagi hluta þess, standist raforkuspár (sem ég hef ekkert vit til að meta). *** En okkur er einsog venjulega ekki boðið upp á neitt annað. Það ætlar enginn – enginn – að hringtengja Vestfirði nema í einhverri svona ófyrirsjáanlegri framtíð – svona einsog við ætlum að hætta að treysta á kolefniseldsneyti, einn fagran veðurdag – vegna þess að það tímir enginn að borga fyrir það. Og það þarf ekkert að efast um það, þetta er er dýrt. *** Okkur er boðin hringtenging fyrir fossamergðina. Þetta er næstum einsog í einhverju barnaævintýri. Mér finnst það fullkomlega sturlað en ég get ekki sagt að ég skilji ekki þá sem vilja stökkva á boðið. Ef við hórumst fyrir orkufyrirtækin í einsog áratug í viðbót er útlit fyrir að þjónustan verði komin í gott lag. Pólitíkin tímir okkur ekki. Við erum ekki með í innviðasamneyslunni – vegna þess að við kostum of marga peninga. Kapítalið elskar okkur, ef við elskum það til baka. *** Þetta er einhvers konar realpólitík. Að gera bara það sem til þarf, svo maður nái markmiðum sínum. Ef hringtengingin kostar 200 mw af virkjunum og þrjú hundruð fossa og bandbrjálaða lækna og rithöfunda, þá það, segja menn. En auðvitað er þetta ekki hægt. Meðal annars vegna þess að þetta fer með pólitískt kapítal Vestfjarða – klárar það í stríði við PR-klárasta fólk landsins, til þess að kála víðernum mestmegnis til einskis – og innviðirnir hérna eru ekki þannig að við höfum efni á því, einu sinni fyrir hringtengingu. Atvinnuvegirnir og vegagerðin verða að ganga fyrir. Sjókvíaeldið og Teigsskógur – heilsársvegur til Patreksfjarðar. Fyrir utan kvótakerfið, strandveiðarnar og allt hitt. Við höfum ekki efni á að spreða þessu kapítali. *** Fossar eru verðmæti. Víðerni eru verðmæti. Ég er ekki á því að þau séu ómetanleg – ég myndi henda öllu hálendinu á bálið ef ég fengi fyrir það frið á jörð – en það þýðir ekki að maður megi sólunda þeim í vitleysu. Ef það væru engar aðrar lausnir og það væri gersamlega ólifandi við ástandið, þá mætti kannski athuga þetta. Neyðin kennir naktri konu að selja sig. Það er gott ef hún getur þá selt sig dýrt. En maður kaupir ekki lífrænt ræktaðan grís í kvöldmatinn fyrir öll mánaðarlaunin þegar maður gæti fengið einn sprautaðan fyrir 2000 kr/kg. Eða þú veist, kjúklingabaunir. Maður kaupir ekki hús fyrir meira en maður hefur ráð á. Og fleiri myndlíkingar (þetta kemur allt á bók einn daginn, eins konar best of safni). *** Ég er sem fyrr hlynntur sjókvíaeldi (helst með regnbogasilung, reyndar, sem er miklu betri matfiskur en laxinn og minni hætta með – en það ku ekki markaður fyrir hann, sem er óskiljanlegt, heimurinn er svo vanur að éta lax, og þar til við höfum þjóðnýtt fyrirtæki landsins hef ég víst takmarkað um það að segja hvernig þau haga sér meðan það er innan ramma laganna, og ég veit ekki hvort ég myndi vilja banna laxinn, hann er ágætur líka stundum). *** Og þegar og ef Teigsskógur vex mér yfir höfuð þá stofna ég skæruliðaher og hef höfuðstöðvarnar í kjarrinu – malbika hann innanfrá og brenni hríslurnar, eina af annarri.