Untitled

Málefni sem skipta mig svo gott sem engu (ég er ekki að segja að þau séu ekki mikilvæg og langar nákvæmlega ekkert að rífast um mikilvægi þeirra, þau hafa bara ekki „náð“ mér). Evrópusambandsaðild. Krónan. Stjórnarskráin. *** Ég nennti ekki að hugsa um fleiri málefni sem kveikja ekki í mér. Þetta var bara það fyrsta sem kom upp í hugann. Annars er áhugavert hvaða málefni eru sexí og hvaða málefni eru það ekki. Sum málefni eru þannig að þau kannski skipta ekki  æðislega miklu máli – segjum dónaskapur Brynjars Níelssonar, þótt hann sé emblematískur og það allt – en málefnið er einhvern veginn nógu tælandi til að fólk getur látið alla veröldina snúast um það. Svo eru leiðinlegri mál – vegir og loftslagið og launamunur og slíkt – sem einhvern veginn eru bara útrædd í sjálfu sér fyrir löngu, og skortir alla móralska dýpt. Maður sýpur ekkert hveljur og bendir reiðilega, einsog byltingarhetja, á einhvern þingmann fyrir að standa í vegi (pun!) vegaumbótum (einsog einhver Þrándur í Götu samgöngubótanna). Færð ekki mörg læk út á það. *** Mál sem skipta mig máli: Umhverfismál, jöfnuður og byggðamál. Þetta má brjóta frekar niður, í sjálfu sér og núansera.  Ég hef meiri áhyggjur af jöfnuði en jafnrétti og er frekar mikill efnishyggjumaður – rótin að öðrum ójöfnuði og ójafnrétti er þar og ekkert af því verður leyst nema það verði fyrst leyst þar. Ég hef meiri áhyggjur af loftslaginu og hafinu og ruslinu en t.d. hríslunum í Teigsskóg og jafnvel fallegu fossunum (en finnst forkastanlegt að fórna slíkum verðmætum bara til að gleðja einhverja kapítalista). Fossarnir eru samt mjög sexí. Byggðamálin eru alls konar og flókin og ég hef á þeim alls konar ólíkar skoðanir. En fyrst og fremst ætti að bæta fólki utan höfuðborgarsvæðisins þann aðstöðumun sem felst í því að við borgum öll fyrir sentralíseraða þjónustu þar – bróðurparti skattfjár okkar er eytt í Reykjavík, einsog vera ber, en til þess að það meiki sens þarf að sjá til þess að við hin fáum líka grunnþjónustu í bærilegri akstursfjarlægð, þótt hún sé dýrari, okkur séu tryggðar samgöngur til höfuðborgarinnar og um landið allt, og fólki sé gert kleift að lifa mannsæmandi í heimkynnum sínum (og nei, það þýðir ekki að maður verði að fá til sín hátæknisjúkrahús ef maður stofnar byggðalag á miðjum Hvannadalshnúk). Þá held ég að þjóðin hefði gott af því að búa til a.m.k. eina aðra borg – t.d. á Akureyri – af því að einnarborgarþjóðir eiga erfiðara með að kljást við einsleitni, þar eru engin átök, t.d. er stórslys að öll íslensk menning skuli eiga heima í sama póstnúmerinu (og já ég veit að það eru ýkjur, en nógu satt er það samt), það sé bara ein estetísk miðja í landinu, bara ein klíka og ein fagurfræði (og svo stakir útlagar). *** Svo þarf ég að fara að koma mér upp skoðun á þessu þarna. Ég segi já við eitt og þrjú og nei við tvö (á samt eftir að sakna hennar, helst vildi ég fá gömlu seðlana aftur). *** Já og kynferðisofbeldismálin. Út af þeim var víst kosið. Ég lýsi mig hér með andsnúinn kynferðisofbeldi. Og með gegnsærri og réttlátri stjórnsýslu. Hvaða frambjóðanda fæ ég þá?