id““:““b4nmo““

Þá er gítarinn formlega tilbúinn. Ef ég væri að gera hann fyrir einhvern annan væri þetta augnablikið sem ég myndi afhenda hann. Tíu vikur virðist þetta hafa tekið – auk bollalegginga frá hausti og smá tilrauna, t.d. Mola (sem ég kannski segi aðeins frá hérna síðar þótt einhverjir hafi séð hann á Facebook). Hann heitir Endemi. Áletraður „heyr á endemi“ að framan og aftan. Heyr og Endemi var eða er dúett sem við Haukur Már stofnuðum fyrir Menntstock árið … 1999. Tuttugu ára gamall dúett. Við komum fram í þetta eina skiptið, stóðum okkur fremur illa á tónleikum miðað við hvað við vorum æðisgengnir á æfingum og lögðumst í dvala. Þetta var einhvers konar leiðslupopp, held ég, impróvíserað. Við höfum aðeins sent á milli okkar lagabúta í vetur og það var gaman – en annars höfum við hvílt okkur sleitulaust frá því þarna á Menntstock (þar sem ég kom líka fram með Binna blús og búgíbandinu – íklæddur humarbúning, enda að dimmitera þetta kvöld – Binni blús, oftar þekktur sem Binni bassi, er bassaleikarinn í Beebee and the bluebirds, þið afsakið ofstuðlunina í þessum sviga). Einhvern tíma var því logið að mér að endemi þýddi bara andskotinn.  Heyr á endemi = hlustaðu á andskotann. En það er ekki víst að það sé satt. Endemi er kannski bara útgáfa af einsdæmi. Ég held mig við að báðar útgáfurnar séu réttar. En að smíðinni. Það voru ansi mörg skref tekin í vikunni og raunar fleiri en ég hefði átt að taka. Einsog venjulega bar óþolinmæðin mig ofurliði. Hann var ekki nógu vel þornaður þegar ég byrjaði að bera á hann tung olíuna – svo ég hætti og byrjaði aftur daginn aftur en það var sama sagan. Ég bar svolítið meira á hann samt, leyfði honum að þorna, pússaði niður og alltaf þegar ég setti meiri olíu kom bæs í klútinn (ég gerði þetta allt með klútum, ekki penslum). Þetta finnst hálfsænsku börnunum mínum mjög sniðugt af því að bæs þýðir auðvitað kúkur á sænsku. Loksins kláraðist þetta nú samt og þá keypti ég bílabón og bónaði hann. Ég gætti mín að kaupa sem einfaldast bón – ekki eitthvað sem djúphreinsar og rústver og guð veit hvað annað. Þegar það var búið skrúfaði ég hann allan saman og fór að leika mér á hann – laga intóneringuna og skoða hvernig hann virkaði. Aksjónið var allt í lagi en mér tókst að ná því enn neðar með því að setja hallann á hálsinum alveg í 1,5 gráður (frekar en eina) og hækka brúna á móti. Næst var rafmagnið. Og þá skrúfaði ég hann allan í sundur aftur. Mig vantaði 0.047 míkrórafata lágspennuþétti á tónpottinn – tékkaði á honum í Pólnum en það var eitthvað tæpt, „kannski“ í draslhaug einhvers staðar en hægt að panta. Háli sagði að Geiri ætti kannski og ég hafði samband við Geira sem reddaði þessu. Og svo fór ég bara að lóða. Ég hafði aldrei lóðað neitt á ævinni áður en var með teikningu. Það voru tvö vandamál – annars vegar eru Seth Lover pikköpparnir með vintage-vírum, sem þýðir að í stað þess að vera með fjóra víra eru þeir með einn og skermurinn utan um þennan eina er jörð. Ég fann teikningar sem gerðu ráð fyrir svona vírum en engar sem voru með einum hljóðstyrkspotti og einum tónpotti – þær voru allar með tveimur hljóðstyrkspottum. Internetið fullyrti samt að hitt ætti að vera í lagi, ég gæti elt aðra teikningu með smá breytingum. Hitt vandamálið var að pikköppaskiptirinn var fyrir misgáning í innkaupum „solderless“ EMG skiptir sem passar við EMG kerfi sem gerir ráð fyrir að maður geti bara stungið hlutunum í samband hverjum við annan. Í stað þess að á skiptinum væru fjórir eðlilegir pólar í samræmi við allar teikningar var eitt tengi og út úr því kom ein snúra og inn í henni voru fjórar snúrur sem samsvöruðu þessum pólum. Ég klippti tengið af öðrum endanum og sleppti vírunum út. Mér tókst að tengja þetta einsog á teikningunni og þegar ég setti í samband í fyrsta sinn kom hljóð úr öðrum pikköppnum en ekkert úr hinum og ekkert þegar ég stillti á báða. Ég fór að laga það og það varð bara til þess að hljóðið úr hálspikköppnum, sem hafði virkað, hvarf. Ég hafði samband við Hála og hann mætti til mín í gær með tinsugu og fjölmæli og við reyndum að laga þetta en fundum ekkert út úr neinu. Það hjálpaði kannski ekki til að dóttir hans Laufey vildi ómögulega leyfa pabba sínum að sitja einum og þýddi ekki að bjóða henni teiknimyndir, leikföng eða góðgæti. Þá var kallað í Geira, sem er menntaður í þessum fræðum, og hann kom og sat með mér í ábyggilega tvo tíma að reyna að finna út úr þessu. Á endanum tókum við allt í sundur og settum það saman upp á nýtt – ekki alveg einsog á teikningunni, en samt þannig að sama lógík gengi upp (það hefði ég aldrei getað séð, enda skil ég þetta ekki alveg). Og þá kom hljóð úr honum! Pikköpparnir voru lausir og eitt og annað í rugli eftir að ég tók hann í sundur en það var kominn kvöldmatur (Aram og Aino elduðu núðlusúpu upp úr heimilisfræðibókinni hans Arams). Eftir matinn gekk ég frá í fljótheitum og fór svo að sinna Endemi aftur – rétt náði að skrúfa allt saman og spila nokkra tóna áður en Gylfi í næsta húsi kom að sækja okkur Nödju til að fara í bíó (Vice, fín). Eftir bíó fór ég svo strax að leika mér aftur en byrjaði auðvitað á því að slíta streng. Í morgun keypti ég nýja strengi, setti blý í hnetuna svo strengirnir renni betur og hann verði síður falskur þegar ég tek í bigsby-tremoloið. Þá ákvað ég að prófa eitt ráð – til þess að minnka núning ákvað ég að rekja strengina yfir bigsby stöngina fremur en yfir. Þá fara þeir beinna yfir búkinn aftan við brúna og mér er sagt að það hjálpi til. Þetta gekk samt ekki með granna e-strenginn – sem stökk þá alltaf upp úr brúarslottinu, svo hann er strengdur á hefðbundinn máta. Skýringarmynd! : Með þessu fæst næg spenna á e-strenginn en hinir eru ólíklegri til að verða falskir. Ég gæti líka þurft að víkka slottin á hnetunni. Ég vigtaði líka gítarinn og hann er 5,1 kg með öllum búnaði og ól. Miðað við SG-inn sem er 3,2 kg. Mér skilst að gömlu þungu Les Paularnir séu yfirleitt ríflega fjögur kíló. Ég finn engan sem er meira en 4,5. Svo þetta er níðþung skepna og þykkt boddí – þótt hann sé hálfur holur. Aksjónið er 0.7 á háa e-strengnum og 0.95 á lága e-strengnum – sem er það sama og á SG-inum (Gálkninu) og lægra en á Telecasternum (Djásninu). Ég hef ekki reynt að lækka það meira en yrði ekkert hissa þótt það væri ekkert mál. En þetta er enginn shreddaragítar og tónninn skiptir meira máli en hraðinn. Hér eru svo nokkrar nærmyndir fyrir þá sem vilja rýna í gallana. Maður þarf tvennt til að geta gert eitthvað svona og það er þolinmæði, sem ég á lítið af, og góða að – maður gerir ekki rassgat einn. Sem betur fer er ég umkringdur góðu fólki. Geiri og Háli redduðu mér með rafmagnið, Óli Stef gullsmiður gróf í krómplötuna fyrir hálsinn, Valur bróðir lánaði mér verkfæri og veitti ómetanleg ráð, Haukur Már hjálpaði mér að ganga frá teikningum að bæði búknum og klórplötunni, Smári fór með mér margar ferðir að fræsa og hefla, Doddi í Fab Lab var afar rausnarlegur á tíma sinn þegar við vorum að fræsa útlínurnar á búknum og hlyntoppnum, Þröstur í trésmiðjunni leyfði mér að nota pressuna sína, Aram hjálpaði mér að nefna gripinn og Aino veitti aðstoð við litablöndun. Þá eru ótaldir allir þeir sem kommentuðu á Facebook eða sendu mér skilaboð og veittu stuðning og ráð (eða spurðu ráða og juku mér þannig sjálfstraust) og Nadja sem knúsaði mig þegar ég eyðilagði eitthvað og var miður mín. Tengdur. Wired. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 3, 2019 at 12:01pm PST En einsog ég segi – ef ég ætlaði að afhenda þennan gítar myndi ég afhenda hann í dag. En vegna þess að ég er ekki að afhenda neinum hann er ævintýrinu auðvitað ekki alveg lokið. Ég henti inn fyrstu tónunum sem ég spilaði á hann á instagram en nú í vikunni ætla ég að leika mér aðeins að því að sjá hvað ég get kreist út úr honum og í næstu viku verða tóndæmi. *** Gítarleikari vikunnar er meistari bigsbysins – Brian Setzer úr Stray Cats.