Dagur 93: Hanastél á jarðhæð

Af og til langar mig bara að skríða í fósturstellingu og sofa í svona tvö ár. Eða ganga í jökulinn. Ég er hér um bil næstum svo gott sem búinn. Og þá hellist eitt og annað yfir mig. Ég sé glitta í eftirbókartómið. Á sama tíma er ég auðvitað langt í frá búinn – það hefur enginn lesið neitt af þessu, ef frá eru taldar nokkrar síður sem Nadja fékk síðasta sumar. Ég veit ekki einu sinni ennþá hver kemur til með að vera ritstjórinn minn. Kannski segir viðkomandi mér að breyta öllu. Gefa þessu fimm ár til viðbótar. Fá mér aðra vinnu. Ganga í jökulinn. En handritið fer samt úr húsi á föstudag. Hvað sem tautar og raular. Einhver hluti af mér vildi óska þess að ég sæi það svo aldrei aftur. Það færi bara út í heim og kæmi mér ekki við lengur – ég gæti kannski fengið einhvern ungverskan höfund til þess að „fylgja því eftir“ og í staðinn gæti ég fylgt eftir bók eftir þennan ungverska höfund. Mætt í ungversku Kiljuna, ungversku bókamessuna – jafnvel farið í opinskátt einkaviðtal í ungverska Mannlífi. Ég sveiflast reyndar mjög á milli þess að vilja í alvöru bara vera í útlöndum allt jólabókaflóðið og að vilja pakka bókum í skottið á bílnum og keyra hringinn til þess að lesa upp í öllum mögulegum krummaskuðum. Sprikla og sprikla. Eins sveiflast ég á milli þess að vilja ekki halda nokkurs konar útgáfuhóf og hins að halda eitt heima, annað úti í bæ á Ísafirði og þriðja í Reykjavík. Og þess að vilja helst ekki svara neinum spurningum um innihaldið og vilja semja tveggja tíma powerpoint fyrirlestur um það. Þegar ég skilaði handritinu að Einlægum Önd – sem ég gerði vel að merkja eftir að ég hafði skilað Frankensleiki, sem ég kláraði á undan – ákvað ég að mig langaði að starta einhverri hefð við handritsskil. Því það er þrátt fyrir allt eini staðurinn í ferlinu sem gerist einhvern veginn í friði – áður en sagan verður pródúkt, meðan hún er ennþá bara sagan og hefur ekkert gildi nema gildið í sjálfri sér. Nadja stakk upp á því að við myndum fara og fá okkur kokteil – við vorum í Örebro – og á hverju ári þyrftum við að finna okkur stað sem væri hærra uppi. Planið var að byrja á jarðhæð – sem hefði auðvitað helst þurft að vera kjallari, svo gera mætti ráð fyrir löngum ferli og mörgum bókum – en svo voru engin sæti laus á jarðhæð kokteilbarsins í Örebro svo við enduðum á annarri hæð. Sem þýðir að í ár þarf ég að vera hærra en á annarri hæð. Ég ætlaði að fara til vina minna sem búa á annarri hæð aðeins uppi í brekku – með þeim rökum að þá ætti ég þriðju hæðina enn eftir til góða – og hræra sjálfur kokteil en svo reyndust þau upptekin. Nú veit ég ekki hvernig ég leysi þetta. Hugsanlega kalla ég barinn bara jarðhæðarbar af því við fengum kokteilinn afgreiddan á jarðhæð og fer og fæ mér kokteil á Húsinu – sem er hálfri hæð yfir jörðinni. Eða segist eiga jarðhæðarbarinn eftir og fer á Hótelið eða á Verbúðina í Bolungarvík. Það er auðvitað breyting á prinsippi en ég er sveigjanlegur maður. Þá ætti ég líka eftir kjallarabar. Ég er 45 ára og hef sirka 20 sinnum skilað handriti – ef frá eru taldar þýðingar og ritstjórn og samstarfsverkefni – á 21 árs ferli. Ef ég skrifa 30 bækur í viðbót áður en ég drepst, 95 ára grafomaníker, gæti þetta orðið mjög erfitt ef ég sýni mér ekki líka ákveðna linkind í túlkun á skilmálum. Annars fallast mér eiginlega hendur strax við tilhugsunina um að skrifa heila aðra bók í viðbót við þessa. Hvað þá þrjátíu. Ég er, einsog maður segir, gersamlega búinn á því. Ég er búinn að bæta á mig 15 kílóum frá því ég byrjaði á bókinni, þar af 10 bara síðustu þrjá mánuði. Ég get varla gengið upp tröppurnar heima án þess að verða móður. Skrifstofan mín hefur breyst í ruslakistu af matarleifum og glósumiðum og bókahrúgum og drasli sem ég veit varla hvaðan kom. Í sjálfu sér er það auðvitað bara viðeigandi. En fyrsta verkefnið sem tekur við – þegar ég er búinn að fá mér kokteil og vera þunnur í sundi eina helgi – er að reyna að endurheimta svolitla reglu í líf mitt. Og jafnvel heilsuna líka.