Ég er búinn. Handritið er komið í yfirlestur. Annað hvort er ég úti á þekju eða þetta er það besta sem ég hef skrifað. Með þeim tveimur fyrirvörum þó 1) ég gæti sannarlega verið úti á þekju og 2) ég trúi eiginlega ekki á hírarkískar mælingar á bókum. Nema kannski metsölulistana, þeir eru þó konkret og segja ekkert nema það sem þeir segja: hvaða bækur seljast mest. Og blaðsíðutalið (þessi er heillöng!) Allt hitt er bara einhver sirkus. Ekki síst huglægur samanburður manns sjálfs á eigin bókum. Sennilega er ég bara að reyna að lýsa minni eigin ánægju. Ég er mjög kátur. Það var líka gaman að skrifa hana. Að minnsta kosti bróðurpartinn af tímanum. Annars hræðilegt. Þjáning, satt best að segja. Þetta er í senn gleðileg bók og ógleðileg – einsog veisla sem fer stöðugt úr böndunum. Og kannski líka alvarlegri bók heldur en ég ætlaði að skrifa, sem reyndist gleðilegt þegar allt kom til alls. Það síðasta sem ég gerði var að setja saman þetta kort hérna að ofan. Það er unnið upp úr korti frá 1913 en lítillega breytt svo það passi við 1925. Þetta er vel að merkja engin síldarbók eða Salka Valka, þótt bæði síld og saltfiskur komi við sögu. Hjartað í henni er 100 manna prestastefna og gömul þjóðsaga sem segir að ef „sjö prestar og einn eineygður“ komi saman fyrir dyrum Ísafjarðarkirkju hrynji Gleiðarhjalli. Hún er mjög rækilega staðsett á Ísafirði eina viku sumarið 1925 en það eru engar sögupersónur í henni sem hafa verið til í alvöru – öllu raunverulegu fólki var skipt út fyrir miklu raunverulegra fólk. Ég er búinn að skila henni en nýi ritstjórinn minn tekur ekki til starfa fyrren á mánaðamótum. Í næstu viku þarf ég að semja og flytja eitt erindi, sem er fyrsta aukaverkefnið sem ég tek að mér í ár. Svo er ég að fara til Grikklands og að fara að ferma dreng (borgaralega) og þarf að dytta aðeins að húsinu og svona. Sofa og svona.