Nú er allt að eiga sér stað. Smám saman. Páskar í lofti. Ísafjörður er byrjaður að fyllast af Reykvíkingum í lopapeysum – sumir eru hálfgerðar Mugisondúkkulísur, búnir að safna skeggi og farnir að ganga svona með hressilegu vaggi, rétta öllum spaðann og alltaf gjöðbilað hressir. Svona eru þeir aldrei á Laugaveginum. Sennilega er bara eitthvað þunglyndislegt við Laugaveginn. En það er auðvitað bara einn Mugison. Og kannski einn Örn Elías og einn Öddi. Aino á fjögurra ára afmæli á þriðjudag. Hún fær Frozentertu og froskalappir (ekki segja henni samt, það er leyndarmál). Hún er ógurleg sunddrottning og hefur eiginlega verið synd frá því áður en hún varð tveggja ára. Við fórum svo mikið í sund þegar við bjuggum í Víetnam. Og hún er svo óhrædd, annað en við kjúklingarnir skyldmenni hennar. Ég er að ljúka við þýðingu. Eða var að því, ég er nú bara í einhverju snurfusi. Á leikriti. Og að fara að gefa út bók auðvitað, alveg á nippinu – Óratorrek – kominn með kassa af bókum en hún fer ekki í búðir fyrren eftir páska. Svona er að vera höfundurinn, því fylgja alls konar fríðindi, þið mynduð ekki trúa því ef ég segði ykkur frá því. Á fimmtudag les ég úr bókinni í tvígang – fyrst í Gallerí Úthverfu, þar sem ég ætla að endurtaka gjörning sem ég framdi fyrst í Norræna vatnslitasafninu í Skärhamn og lesa sama ljóðið aftur og aftur í eina klukkustund. Ljóðið heitir „Ljóð um list þess að standa kyrr í galleríi“ og var samið fyrir opnun á sýningu úr Guerlain-safni Pompidou. Í Úthverfu er það opnun hjá Erni Alexander Ámundasyni, sem er það heitasta í íslenskri myndlist. Og um kvöldið er ljóðalistatónlistarkvöld í Tjöruhúsinu með Skúla mennska, Björk Þorgríms, Kött Grá Pje og Lomma. En annars er ég bara í páskafíling. p.s. Það er skandall að Stryper skuli aldrei hafa verið boðið á Aldrei fór ég suður. Þeir ættu auðvitað að spila í páskamessu á Ísafirði. Hér myndi ég tagga rokkstjórann en það er bara ekkert hægt að tagga í þessu ömurlega bloggkerfi.