createdTimestamp““:““2024-06-10T09:38:46.152Z““

Ég er að gleyma einhverju. Ég hef ekkert lesið – varla litið í bók – svo það er ekki það. En ég er að gleyma einhverju. *** Ég las upp sjálfur í Madrid á föstudag – með Önnu Axfors, Adam Horovitz og Gaiu Ginevri Giorgi. Ég held talsvert upp á Önnu, sem er sænsk og ég hef þýtt, en þekkti ekki Adam og Gaiu fyrir. Hann er breti, frá Stroud, og hóf ferilinn á því að lesa upp – átta ára gamall – með Allen Ginsberg. Pabbi hans var stórbokki í ensku performanssenunni í gamla daga og þetta æxlaðist bara einhvern veginn. Hann var að hluta til með músík undir, sem gerði lítið fyrir mig, en ljóðin voru góð. Gaia, sem er ítölsk, var líka með músík og looper – tók upp og talaði ofan í sjálfa sig. Ég skildi ekki ljóðin og það var engin þýðing (ekki heldur á spænsku) en heyrðist þau vera í rómantískari kantinum (það sem ég skildi). Þetta var hluti af Versopolis-dagskrá – sem er evrópskt ljóðaprójekt og samstarf milli hátíða – og einsog hefði býður voru gefin út hefti með ljóðunum okkar á frummáli, ensku og markmáli hátíðarinnar. Heftin hjá Poetas hátíðinni voru mjög falleg og þegar þeim var raðað saman á borðinu mynduðu forsíðurnar borðspil – og við fengum kalla og teninga með til að spila. *** Seinna kvöld Poetas hátíðarinnar var Griotskvöld. Griot er vestur-afrískt hugtak yfir ljóðskáld og sögumenn og höfundarnir áttu það allir sameiginlegt að vera af afrískum uppruna – en á ólíkan hátt. Sumir voru frá Ghana, aðrir svartir katalónar og enn aðrir frá Jamaica. Ég kom inn þegar Mutombo da Poet var að flytja sögur og leist eiginlega ekkert á blikuna. Hann var mjög upptekinn af internetinu og á köflum var þetta eiginlega meira einsog að hlusta á einhvern röfla um samfélagsmiðla – hvað þeir væru frábærir og hvað þeir væru samt hættulegir – og ég sá ekki alveg hvað þarna var sagnamennska eða skáldskapur. Á eftir honum kom Koleka Putuma frá S-Afríku. Hún byrjaði ofsalega sterkt – kannski spilaði inn hvað skáldið á undan var leiðinlegt, kannski spilaði inn hvað hún er ung (tuttuguogeitthvaðlítið) – en mér leið nánast einsog ég væri að horfa á eitthvað sögulegt. Hún hélt svo ekki alveg dampi og seinni helmingur upplestrarins var ekki jafn svakalegur, textinn ekki jafn sterkur – en alltaf góður. Ég ætla að kaupa bókina hennar, Collective Amnesia, og langar að þýða a.m.k. 1-2 ljóð úr henni. D’Bi Young Anitafrika var næst. Frá Jamaica. Hún las blaðlaust einsog Mutombo en var jafn grípandi og hann var það ekki – kallaði þetta dub-ljóðlist, las, talaði, söng, æpti, hvíslaði. Ég veit ekki hvort það var nokkuð varið í textann – sem ljóðlist – hún var einfaldlega of töfrandi og fær, of mikill ofsi í henni til að maður gæti lagt nokkuð yfirvegað mat á það. En svo skiptir það kannski ekki neinu máli – maður á ekki að gefa blaðsíðunni þetta æðislega vægi. Á sviðinu birtust bókmenntirnar sem flutningur og hún negldi salinn með sögum. Ég þoli yfirleitt ekki neitt sem minnir of mikið á slamm – og þetta gerði það sannarlega – en þetta var epískt. *** Casa de Papel – þriðja þáttaröð. Þetta er nú ljóta sorpið! Fyrsta serían byrjaði skemmtilega en þynntist hratt út. Önnur serían hraðspólaði út í melódrama og ódýrar lausnir – en þriðja er alveg gersamlega út úr kú. Prófessorinn er alltaf búinn að hugsa fyrir öllu en lausnirnar eru gersamlega sértækar. Plottholurnar eru á stærð við budgetið, tónlistin er generískt stemningsrokk (ég fíla alveg Black Keys, en ég meina kommon). Leikararnir eru alltaf með tárin í augunum. Af hverju er ég að horfa á þetta! Af hverju er ekki búið að cancela þessu! *** Brooklyn 99 – fimmta þáttaröð. Jafn mikil dásemd og Casa de Papel. Rosalega næs, fyrirsjáanlegt en fyndið. Jafn gott og meinstrím-skemmtisjónvarp getur orðið. Og eitthvað svo heilnæmt – PC og millennial en heilnæmt. Ef Bill Cosby hefði ekki reynst vera Bill Cosby væri Cosby-show líkingin við hæfi hérna. Sögupersónurnar eru mjög mótaðar og fyrirsjáanlegar og kunnuglegar og þetta er stundum einsog að vera á færibandi – en bara of vel gert til að maður geti haft neitt á móti því. *** Ég horfði loksins á Roma. Mér fannst hún frábær þegar ég slökkti á sjónvarpinu. En svo situr eiginlega fátt eftir. Sagan – um þjónustustúlku ríka fólksins sem verður ólétt eftir einhvern dólg – er bæði falleg og átakanleg og realísk. Tökurnar eru ótrúlega vel gerðar – upphafssenan þar sem vélin starir lengi ofan í poll af skúringavatni sem skolast til og frá og svo birtist flugvél sem speglast af himninum – er einsog svona konfektmolalistaverk. Eitt af því sem truflaði mig á meðan ég var að horfa á hana – sennilega það eina – var einmitt hvað hún var falleg. Það skyggði nánast á sjálfa söguna, á harminn – setti hana í eitthvað instagram-filterbox af óraunveruleika. Kannski er það bara vandamál í samtímanum að allt er orðið listgert – allt er stílíserað – og þar með verður jafnvel mjög góð stílísering hálfgert kits. Samt frábær mynd, einhvern veginn. Svolítið óþægilega miklir stétt-með-stétt straumar fyrir sósíalistann í mér – en samt frábær mynd. Segjum það bara. *** Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó eftir Þorvald Þorsteinsson er sennilega bara ein af bestu barnabókum í heimi. Hún er ofsalega falleg, sorgleg, djúp og dásamleg – og á þannig máli að ég skil varla að börnin mín, sérstaklega það yngra, hafi enst í að hlusta á mig lesa hana alla án þess að kvarta yfir ljóðrænu orðfærinu. Það var áreiðanlega fullt af orðum og orðasamböndum sem þú skildu ekki. En bókin er einhvern veginn alveg fullkomlega dáleiðandi og við vorum öll sprengfull af höfgi þegar lestri lauk. *** Ace Ventura. Það var Ace Ventura sem ég var að gleyma. Úff. Frábær mynd. En úff. Meistaraverk í slappstikk – Jim Carrey er magnaður. En jesús almáttugur hvað hún er hómófóbísk. Fyrir þá sem ekki muna – eða hafa ekki séð hana – gengur plottið (spoiler alert!) allt út á að höfrungaþjófurinn er geðsjúkur f.v. fótboltakappi sem hefur breytt sér í konu – þegar það uppgötvast eru allir spýtandi í sífellu af viðbjóði. Ég velti aðeins vöngum yfir nokkru. Sameiginlegt einkenni minnar kynslóðar og sambands okkar við barnamenningu foreldra okkar er að við tengdum lítið – hvort sem það var Roy Rogers eða Ármann Kr. Einarsson – og ástæðan var áreiðanlega eitthvað sakleysi. Samband mitt og minnar barnamenningar við börnin mín er svo öðruvísi – yfirleitt finnst þeim þetta allt mjög skemmtilegt (og Aram var í skýjunum með Ace Ventura). Við foreldrarnir erum hins vegar stundum einsog kleinur yfir þessu. Á aðra höndina er mikið af mjög góðu stöffi þarna og ég er 100% talsmaður þess að maður hafi innsýn inn í aðra tíma en sína eigin – önnur viðmið. Á hina höndina fylgja auðvitað allir fordómarnir með. Annað sem ég velti síðan vöngum yfir var hvort það væri síðan í grunninn nokkuð að því að gagnkynhneigðum karlmanni þætti ógeðslegt að kyssa (óvitandi) annan karlmann. Mér finnst það ekki sjálfum en ég held ég skilji alveg tendensinn (og hugsa að ég væri ekki sáttur við blekkingarnar). Tendensinn er svo náttúrulega líka til staðar með breyttum gerendum – lesbía sem léti karlmann plata upp á sig keleríi á fölskum forsendum væri sennilega ekkert í skýjunum með það. En það er aðallega ekki sambærilegt vegna pólitískra aðstæðna (sem börn eru sem áhorfendur að einhverju leyti stikkfrí frá – þau hafa nægan tíma til að öðlast sögulega vitund seinna og hluti af því er að þekkja heiminn einsog hann hefur verið). Þriðja var síðan bara hvað þetta var landlægt í gríni á tíunda áratugnum og hvað maður spáði lítið í því. Þetta var samt ekki einhlítt – þetta er líka áratugur Priscillu og Rocky Horror gekk endalaust í leikhúsum – og ef maður færir fókusinn yfir í dramað erum við með allt frá Philadelphia til Fresa y Chocalate til Fucking Åmål og svo framvegis og svo framvegis. Ég held það hafi margt opnast og kannski var ekki alveg tilviljun að grínið hafi líka verið meira riskí – kannski fór það bara ágætlega saman að Andrew Dice Clay hafi verið á fullu á sama tíma (og ég er ekki viss um að þetta hafi verið pólitískir kontrastar beinlínis, heldur einhvers konar undarlegir samferðarmenn – maður átti að vera á jaðrinum og Dice og My Own Private Idaho uppfylltu þau skilyrði. *** Gítarleikari vikunnar er The Surrealist. Lagið heitir Enigma.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *