Einu sinni gaf ég út ljóðabók sem heitir Hnefi eða vitstola orð og alls staðar þar sem ég kom og las upp úr henni sagði fólk „Nei, þessa bók kaupi ég ekki, það þýðir ekkert fyrir mig að lesa hana sjálfur, þú verður að lesa hana upp, þetta er þannig verk – ÞÚ ÆTTIR AÐ GEFA ÚT HLJÓÐBÓK!“ Svo ég gerði það bara. Mér varð hugsað til þessa í vikunni þegar ég fékk uppgjörið frá forlaginu mínu – þessi hljóðbók er nefnilega á Storytel og árið 2021 var hlustað á hana þrisvar sinnum og ég fékk fyrir það fjórtán krónur. Mér sýnist svona fljótt á litið að maður fái 1/10 hluta af því sem maður fengi fyrir að selja bók – svo ef þetta hefðu verið fýsísk eintök á bók hefði ég fengið 140 krónur. Á morgun ætla ég að fara að ryksuga bílinn á bensínstöðinni og ryksugan tekur bara hundraðkalla svo þessi peningur hefði komið sér vel. Það munar um allt. Annars kom uppgjörið bara ágætlega út. Business is booming. Ég er reyndar að reyna að venja mig af því að sletta ensku. Ég er í mótþróakeppni við son minn sem gerir þetta mjög mikið. En business í þessari merkingu er varla kaupsýsla eða viðskipti? Frami? Frami minn er í blóma. Verður er verkamaðurinn launanna. Eitthvað um að ávaxta sitt pund. Ég stend á skýi / í algleymi. Svo getur líka vel verið að það séu bara öll búin að hlusta á þessa bók. Og þau séu bara að hlusta á hinar bækurnar mínar, sem eru þarna næstum allar. *** Ég fór til Finnlands á dögunum. Sána, karókí, gamlir vinir, bókabúðir og tívólí. Svo skildi ég fjölskylduna eftir í Finnlandi og fór einn heim til að sinna því sem ég kalla Tangagötu-resídensían. Og þýðir að ég á að vera að skrifa en ef frá eru talin nokkur erindi í ljóðabók hef ég ekkert skrifað – varla svarað tölvupósti. Þess í stað er ég búinn að bera á pallinn og taka til í bílskúrnum og hreinsa arfa úr gangstéttunum. Það var sem sagt b-planið. Ef ég yrði andlaus ætlaði ég ekki að sitja á rassgatinu. Á morgun ætla ég að hætta að vera andlaus. En fyrst þarf ég að finna glósurnar sem ég gerði í handritið mitt úti í Finnlandi. Um mánaðamótin fer ég svo og finn fjölskylduna aftur í Svíþjóð – svo eru skottúrar til Berlínar, Tékklands, Slóvakíu og Aix-en-Provence í sjónmáli í sumar. Þetta verður alltílagi.