Endur í Svíþjóð

Ég hef sinnt þessu bloggi mest allra minna bókmennta það sem af er sumri. Að minnsta kosti ef við teljum frá allan lestur, því ég hef mikið lesið. Bróðurpartur júnímánaðar fór í húsaviðhald og þaðan fór ég beint í sumarfrí. Ég átti afmæli 1. júlí og hélt upp á það í Stokkhólmi með Nödju. Börnin komu svo með frænda sínum til Västerås daginn eftir. Nadja gaf mér inneign í tónlistarverslun og leiddi mig þangað að morgni dags – þar keypti ég mér sörfgrænan Fender Jazz Bass sem ég hef varla getað lagt frá mér síðan. Börnin gáfu mér Sail On með Muddy Waters og Aino skrifaði litla bók fyrir mig um önd sem heitir Einlægur (einsog bókin, sem heitir vel að merkja bara Einlægur en ekki Einlægur Önd , það er önnur bók). Einlægur þessi týnir fjölskyldunni sinni í frumskógi en verður svo fyrir stórri öldu og berst með henni fram af fossi og hittir þar aftur fjölskylduna (þau heita Aram, Aino og Nadja). Bókin er að sjálfsögðu myndskreytt – heftuð og handgerð einsog ungskáldi sæmir. Hér skiptast á skin og skúrir – rignir reyndar lítið en er reglulega mikið skýjað og svona háþrýstingur sem veldur mér gjarnan andlegri mollu. En það hefur líka verið reglulega fallegt inn á milli. Við Aino ætlum til Berlínar á næstu helgi. Þar ætlum við meðal annars að líta í dýragarð, fá okkur Berlínarbollu og kebab, fara í bíó og hljóðfæraverslun og kíkja á DDR-safnið – þetta er allt pantað, þetta er afmælisgjöfin hennar (og kannski mín líka, en það er samt hún sem ræður för). Við hlökkum bæði mikið til. Ég veit ekki hvort ég skrifa mikið í júlí heldur. Þetta á að heita sumarfríið mitt og ég er í viðstöðulitlum krísum gagnvart öllu sem ég skrifa hvort eð er. Mér gengur ekki einu sinni sérstaklega vel að svara áríðandi tölvupóstum. Sem betur fer gekk ég frá skattinum áður en ég fór (og hafði þá ekki gert það frá áramótum, uppgötvaði ég). Og sem betur fer er ég líka löngu búinn að klára bókina sem á að koma út í haust – barnajólahryllingsbókin Frankensleikir er m.a.s. búin í umbroti (myndskreytt af Elíasi Rúna). Restin reddast svo þegar hún reddast.