Ég sit á O’Leary’s á Helsinkiflugvelli á leiðinni heim frá Tékklandi og Slóvakíu. Þar er „Upplestrarmánuði rithöfunda“ að ljúka um þessar mundir en allan júlí hafa íslenskir og tékkneskir og slóvakískir rithöfundar lesið upp í fimm borgum – Brno, Kosice, Ostrava, Presov og Bratislava – á viðstöðulausu spani. Hálf rithöfundastéttin var þarna en fæstir hittust neitt – heldur var þetta ein halarófa. Ég rétt náði í rassgatið á Sigurbjörgu Þrastar og fór svo með Dóra DNA á síðnæturhangs á bar sem var opinn allan sólarhringinn. Annars fann ég ekki svo mikið sem svitalyktina af kollegum mínum. Þetta voru misstórir viðburðir. Mest var 50-60 manns en fæst var 8 – það var í höfuðborginni, Bratislava, í gærkvöldi (og stólarnir voru ekki nema tíu – ég fékk þá útskýringu að í höfuðborginni væri alltof margt að gerast og kæmi aldrei neinn á neitt). Í Bratislava var ég reyndar síðast í nóvember (á sama hóteli meira að segja) og las upp fyrir miklu fleiri á Ars Poetica hátíðinni – þá var líka Covid og ekki rassgat að gerast neins staðar nema á ljóðahátíðinni. Reyndar var alltaf gaman á þessum túr núna, líka þegar mættu fáir. Ég naut meðal annars góðs af því að ferðast með viskubrunninum Pavel Drabek og dóttur hans Anastasíu (sem er kölluð „Stasí, einsog leyniþjónustan“). Ég er annars illa sofinn og ringlaður og hef ekki verið heima hjá mér í að verða mánuð – þangað kem ég í fyrramálið og hlakka mikið til. Bæði sakna ég fjölskyldunnar og vil fara að komast aftur á skrið í bókinni minni. Ætli ég fari þá ekki líka að blogga meira? Þessi tölva hefur eiginlega bara verið netflixtæki í sumar. Hvað gerðist fleira? Við Aino fórum til Berlínar – kíktum í dýragarð og á söfn og keyptum nýjan bassa fyrir hana. Urðum svo innlyksa vegna aflýstra flugferða á vegum Eurowings og fórum heim tveimur dögum of seint með millilendingu og gistingu í Amsterdam, fyrir svo svívirðilega upphæð að ég varð að aflýsa minni eigin Amsterdamferð síðar í haust. Það átti að vera svona strákaferð á tónleika með Pavement – það vill til að mér finnst Pavement ekki skemmtileg, hef þó gefið henni ríflegan séns, og þess utan séð hana á sviði áður (á Hróarskeldu). Við Aram fórum líka til Gautaborgar á Iron Maiden tónleika. Við fjölskyldan héngum mest í Västerås en litum líka við í sumarbústöðum með vinum. Það var óbærilega heitt megnið af tímanum – 37 og 38 stiga hiti í Svíþjóð þegar það var sem hæst.