Bókmenntasmekkur fallega fólksins

Í morgun fór ég inn á Vísi og las þar stutt viðtal við konu sem er þátttakandi í fegurðarsamkeppni. Ein af spurningunum sem lögð var fyrir hana var hver væri uppáhalds bókin hennar. Hún sagðist aldrei lesa en uppáhaldsbókin hennar væri The Fault in Our Stars . Sem fjallar einmitt um fólk – krabbameinsveika bókaorma – sem les uppáhaldsbækur hvers annars. Ég hef vel að merkja ekki lesið hana og ekki heldur séð myndina, bara skoðað wikipediusíðuna. En kannski bæti ég úr því einhvern daginn. Fyrir neðan viðtalið sá ég svo að þetta var bara eitt af mjög mörgum sams konar viðtölum, svo ég tók mig til og skimaði þau. Ég hef mjög gaman af svona viðtölum – svörin eru oft skemmtilega skrítin. Helsti ótti einnar þeirra var til dæmis „smjatt“ – en það kom ekki fram hvort það skelfilegasta sem hún vissi í þessari viðsjálu veröld væri að smjatta sjálf eða að heyra (sjá?) aðra smjatta eða hvort það væri hreinlega tilvist smjattsins, að einhvers staðar væri einhver að smjatta, sem setti meiri beyg að hjarta hennar en villidýr, stríð og sjúkdómar samanlagt. Nema hvað – ég staldraði auðvitað lengst við spurninguna um uppáhaldsbókina. Svona voru svörin: Lífsreglurnar fjórar
The Fault in Our Stars
The Perks of being a Wallflower
The Tattooist of Auscwhitz
„Nótt sem er nóbelsverðlaunabók um seinni heimsstyrjöldina“
101 Essays That Will Change the Way You Think eftir Briönnu West
Sister sister eftir Sue Fortin
„Horfnar eftir frænda minn Stefán Mána“
„Eins og er þá er ég ekki mikið að lesa bækur, þannig ég á mér ekki einhverja uppáhaldsbók í augnablikinu.“
„Ef ég á að segja alveg eins og er þá les ég nánast aldrei bækur.“
„Erfið spurning. Myndi segja Bangsímon sem ég las alltaf með mömmu sem barn. Gefur mér góðar minningar.“
„Ég elska Harry Potter bækurnar.“
„It Ends With Us eftir Colleen Hoover“.
„Ég les mjög sjaldan bækur vil frekar hlusta á hljóðbækur, en mín uppáhalds er The Color Purple.“
„Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson“. Af þessum bókum hef ég sjálfur lesið Bangsímon, fimm Harry Potter bækur og Nótt eftir Elie Wiesel. Og kannski Purpuralitinn. Mér kom á óvart að sjá þarna tvær helfararbækur – Nótt og Tattúverarann – og alveg sitthvoru megin á spektrúminu. Nótt er endurminningar manns sem lifði helförina af og Tattúverarinn er samtímaskáldsaga, sem þrátt fyrir að vera byggð á heimildum, hefur verið mikið gagnrýnd fyrir ónákvæmni. Nótt er vel að merkja ekki „nóbelsverðlaunabók“ í ströngum skilningi þess hugtaks – Elie Wiesel fékk friðarverðlaun Nóbels, ekki bókmenntaverðlaun Nóbels, en það er auðvitað smámunasemi. Sister sister og Horfnar eru reyfarar, The Perks of Being a Wallflower er þroskasaga, It Ends With Us er ástarsaga (einsog Tattúverarinn), Harry Potter er fantasía, Bangsímon er barnabókmenntaklassík, 101 Essays That Will Change the Way You Think og Lífsreglurnar fjórar eru sjálfshjálparbækur, The Color Purple er fagurbókmenntaklassík með Pulitzerverðlaun í hnappagatinu og Fólkið í blokkinni er kómedía „fyrir alla aldurshópa“. Tvær segjast aldrei lesa bækur og ekki geta nefnt neina og tvær segjast aldrei eða sjaldan lesa bækur en nefna samt eina. Ég veit ekki alveg hvers vegna mér finnst þetta svona fasínerandi. Bókmenntasmekkur fólks – og kannski einmitt sérstaklega fólks sem starfar ekki við bókmenntir eða listir, en eru samt einhvern veginn sambærilegar hver annarri, stúlkur á sama aldri og áreiðanlega að mörgu leyti með lík viðhorf og gildi, demógrafískur hópur. Síðan finnst mér líka bara áhugavert að spurningin sé með – þrátt fyrir allt, þrátt fyrir hnignandi lestur og lítinn áhuga á bókmenningu almennt. Að það sé enn hluti af því hvernig við skilgreinum persónuleika einhvers hvaða bókum viðkomandi hrífst af. Ég hélt það væri búið. Og hvað segir það svo um mann hver uppáhaldsbókin manns er? Hvað les ég í þessa titla? Af einhverjum orsökum hef ég mestan áhuga á fólki sem les mikið og hugsar um það sem það les – og skáldskap, umfram allt annað – þá hugsa ég: hér fer manneskja af viti. Af þessum á listanum heillast ég mest af Bangsímon, þar er einhver óskiljanlegur galdur. Nótt er auðvitað klassík og ég var lengi með helförina á heilanum en ég er bara meiri Primo Levi maður, ef maður má leyfa sér svo grófan samanburð. Ég held að ég hafi lesið Purpuralitinn á íslensku þegar ég var í menntaskóla – en ég er ekki alveg viss hvort ég sá bara myndina. Það er svo langt síðan. Íslensku bækurnar, Horfnar og Fólkið í blokkinni, er ekkert ósennilegt að ég lesi, en restin kallar ekkert á mig. Sjálfur nefni ég gjarnan Glæp og refsingu eftir Dostójevskí – ég var 17 ára þegar ég ákvað að það væri uppáhaldsbókin mín og ég hef bara haldið mig við það svar. En ég er ekki viss um að það segi mikið um 44 ára gamla Eirík – annað en að hann sýni 17 ára fortíðarsjálfi sínu nokkra tryggð. Hvað um það. Eftir þessar vangaveltur er ég nú orðinn mjög spenntur að vita hvaða bókaormur er sætastur á þessu landi. Ég verð brjálaður ef einhver sem ekkert les vinnur. Þá mun ég aldrei aftur taka mark á þeim sem halda því fram að fegurðin komi að innan (því auðvitað eru bækur bæði andlitskrem sálarinnar og crossfit andans). Og ef fegurðin kemur að innan, sem hún gerir, má af því leiða að sá sem fagrastur reynist hafi lesið bestu bókina – og þar er eiginlega komið nýtt módel fyrir íslensku bókmenntaverðlaunin til þess að miða sig að, ef þetta með „almenna lesandann“ úti í bæ virkar ekki sem skyldi.