Það er hellings umræða um bókmenntakrítík í sænskum miðlum í vikunni eftir að Linda Skugge – sem er sennilega þekktust á Íslandi sem einn höfunda Píkutorfunnar – birti gagnrýni um nýja bók eftir Kristinu Sandberg, margverðlaunaðan metsöluhöfund hinnar svonefndu Maj-trílógíu (sem hefur ekki komið út á íslensku – en er til á ótal öðrum málum). Bókin er sjálfsævisöguleg og fjallar um viðbrögð Kristinu sjálfrar við því að vera greind með krabbamein. Í sem stystu máli er dómur Lindu Skugge sá að bókin sé algert drasl – og hún fer ekki beinlínis fínt í það. Titillinn á gagnrýninni er „Verður ekki list bara fyrir að fjalla um krabbamein“. Skugge segir bókina þungaða af sensasjónalisma – og telur það afleiðingu af Storytel-væðingu forlagsins, Norstedt (sem Storytel á) – og bera þess merki að höfundur sé (illa) ritlistarmenntaður. Ekki kemur fram hvort Skugge er þar að gagnrýna rithöfundaskólann á Biskops-Arnö eða Litterär Gestaltning í Gautaborg, en Sandberg er með diplómu frá báðum. Skugge segir bókina ekki hafa neitt að segja. „Vilji hún skrifa um sína persónulegu einkahagi, sem eiga nákvæmlega ekkert erindi við okkur hin, ætti hún ekki í það minnsta að reyna að vera svolítið skemmtileg? Með smá heppni geta þá orðið úr því bókmenntir.“ Og bætir svo við: „Einsog t.d. þegar ég skrifa fljótlega um það þegar ég las nýlega upp pistil í útvarpið með WeVibe í píkunni á mér.“ Þá segir hún afstöðu Sandbergs til dauðans – sem er kjarni bókarinnar – hversdagslega og áhyggjur hennar af að krabbameinið taki sig aftur upp ómerkilegar. „Tja, velkominn til lífsins. Lífið er allt ein áhætta. Maður getur alltaf orðið fyrir strætó. Eða lent í öndunarvél vegna covid-19 og smám saman kafnað í hel. Þess utan held ég að það sé skárra að deyja sjálfur en að missa einhvern sem maður elskar.“ Þá bætir hún við að titill bókarinnar – Einmanalegur staður – sé út í hött. 65 þúsund manns greinist með krabbamein árlega. Sjálf sé hún með Addisons og í hvert sinn sem hún fái niðurgang eða uppköst standi hún frammi fyrir dauðanum. Sandberg sé því alls ekki á „einmanalegum stað“. Svo klykkir hún út með að ef Sandberg og maður hennar eigi í vandræðum með kynhvötina (sem virðist koma fram í bókinni) þá ættu þau að prófa svona WeVibe, það sé engu líkt. Einsog gefur að skilja hefur þetta vakið talsvert umtal. Flestir eru á því að dómurinn sé of grimmdarlegur – en einhverjir benda líka á að hann sé góður, taki upp sértækar spurningar og laus við hið almenna orðalag sem annars plagi flesta gagnrýni – „vel skrifað“ og „mikilvægt verk“ og „ákveðinn byrjendabragur“ eða „skortir heildarsýn“ og það allt saman, sem segi mest lítið um bæði verk og afstöðu gagnrýnanda, feli hana í svona „faglegum“ og „hlutlausum“ og fullyrðingarögum menntaskólastíl. Þá hafi Skugge fagurfræðilega afstöðu – gegn metnaðarlausum sensasjónalisma – og taki skýr dæmi um hvað sé vont í bókinni. Einhverjir nefna WeVibe-ið sem dæmi um bæði afturbeygða metakrítík – að byggja inn svona sensasjónalískt element í textann – og aðrir nefna að með því afhjúpi Skugge sjálfa sig og beri sig, svipti sig hulu hins ósnertanlega og ógagnrýnanlega gagnrýnanda, gefi viljandi höggstað á sér, hafandi slegið frá sér lyfti hún upp handleggjunum og bjóði fólki að slá á móti. Þá eru nú kannski flestir á því líka að dómurinn sé skemmtilegur. Sem er auðvitað ljótt að segja, af því hann er líka kvikindislegur. Umræðan er í öllu falli áhugaverð og áhugavert líka að það hefur enginn krafist þess að dónaskapurinn „hafi afleiðingar“ eða höfundurinn fái afsökunarbeiðni – þótt Åsa Linderborg segi reyndar að Linda muni á endanum fá samviskubit og biðjast afsökunar. Raunar hafa tilfinningar höfundar lítt verið ræddar og blaðamenn alls ekki falast eftir neinum viðbrögðum. Svíar eru almennt frekar uppteknir af því að reyna að viðhalda stórþjóðastandard – þeir ná því svona „næstum því oftast“ – og hann er auðvitað í ofsalegum kontrast við smáþjóðarblaðamennskuna á Íslandi. Ég man t.d. ekki eftir því að hafa nokkurn tíma séð sænsk dagblað skrifa frétt upp úr Facebook- eða Twitter-umræðum – og hvað þá þeir stundi svona „sniðugast af Twitter á helginni“ eða „Instagram vikunnar“ bílífi. Íslenskir fjölmiðlar eru miklu persónulegri en sænskir og ekki nærri jafn vandir að virðingu sinni. Það er líka óhugsandi í Svíþjóð að gerð væri uppsláttarfrétt um skoðun einhverrar manneskju á einhverju fyrirbæri nema manneskjan væri vottaður sérfræðingur í málefninu. Á Íslandi eru reglulega gerðar fréttir um að einhverjum sem er með eitthvað poddkast eða skrifar stundum á Twitter finnist eitthvað. Væntanlega af því að viðkomandi kann að gera sig breiðan. Þó eru einmitt dæmi einsog nefndur texti Skugge, sem má kalla lærðan sensasjónalisma eða álíka – það eru persónur (oft konur, a.m.k. í seinni tíð – Kajsa Ekis Ekman, Ebba Witt-Brattström, Åsa Linderborg, Cissi Wallin o.fl. o.fl.) sem skrifa skoðanagreinar sem verða mjög umtalaðar og allir þurfa að lesa og taka afstöðu til. Umdeildar. En það þarf venjulega að vera einhver intelektúal-vinkill á þeim. Og það er óhugsandi að fjölmiðlar myndu gera „best-of viðbrögðin á samfélagsmiðlum“ frétt upp úr því – en hins vegar fremur líklegt fastir pistlahöfundar, þekktir menningarkrítíkerar/álitsgjafar og ritstjórar blaða skrifi um það næstu daga og þar er talsvert algengara að „sitt sýnist hverjum“. Það þykir til marks um sjálfstæða hugsun að skila séráliti – og þykir að einhverju leyti óþarfi að leggja fram sama vinkilinn mörgum sinnum. Íslendingar sýnist mér gjarnan taka einhvern einn pól í hæðina, sérstaklega í erfiðum málefnum, og hamra svo bara á honum einsog einhver sé að rífast við þá (sem einhver gerir kannski í hálfum hljóðum og þarf svo að biðjast afsökunar á eftir). *** Annars er fátt að frétta. Ég er of meiddur til að halda maraþonáformunum til streitu en ætti að geta verið í styttri hlaupum. Þarf að gera meira langtímaplan – kannski fyrir næsta vor. Nenni varla að vera í heilsusamlegu líferni í haust, nýkominn heim. Langar að drekka bjór með vinum mínum og grilla óhollan mat. Það er sól og blíða. Ég hef verið duglegur að kaupa plötur upp á síðkastið. Plata vikunnar er Rainbow People með Eric Bibb. Hann er giftur finnski/sænskri konu, einsog ég, og býr í Stokkhólmi og hefur gert áratugum saman (fyrir utan nokkur ár í Kirkkonummi í Finnlandi). Hann er fæddur 1951 og alinn upp innanum alls kyns stórstjörnur í tónlistarheiminum – Pete Seeger og Paul Robeson voru fjölskylduvinir. Hann byrjaði að spila á gítar sjö ára og fékk meðal annars tilsögn frá Bob Dylan 11 ára („hafðu það einfalt – gleymdu öllu prjáli“). 19 ára yfirgaf hann Bandaríkin og hefur lítið búið þar síðan. Rainbow People er önnur platan hans og kom út 1977, þegar Bibb var 26 ára. Hún er tekin upp í Svíþjóð og er lágstemmd blús-„heimstónlistar“-folk-djass-plata. Hljómar ekki endilega vel en er gott. Fyrir utan klassísk blúsáhrif var hann víst undir áhrifum frá Milton Nascimento, Antonio Carlos Jobim (sem samdi Stúlkuna frá Ipanema) og George Gershwin. Platan er öll falleg en þetta er uppáhaldslagið mitt af henni: