createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.743Z““

Menningarvikan byrjaði sennilega með árshátíð grunnskólans. Við fórum þrjú að sjá Aram og aðra krakka í 1. til 4. bekk. Þetta er merkilegt menningarfyrirbæri – að hrúga saman öllum krökkunum og láta þau skapa, í samstarfi við kennara, heilu sýningarnar – og gleðin og aðdáunin úti í sal auðvitað meira og minna fullkomin. Fjórði bekkur setti á svið ævintýrið um Aladín og fórst það vel úr hendi. Aram var einn af sögumönnum – og það er nú fátt sem hann gerir áreynslulausar en að lesa upp. Hann sagði okkur að vísu að á einhverri sýningunni hefði hann farið í síðuvillt og ekki fundið réttan texta fyrren eftir dúk og disk. Það var líka alveg eftir honum. Og það er líka allt í takt við framkvæmdina almennt – þetta væri ekki nærri jafn skemmtilegt ef þau væru öll einsog þrautþjálfaðir hermenn. Ég hef orðið vitni að æfingum fyrir slíkt grunnskólasjó – í Víetnam – og það er ekki mjög sjarmerandi, eiginlega bara skelfilegt. Þetta er gaman vegna þess að þetta á fyrst og fremst að vera gaman. Það mættu margir listamenn læra af því. *** Á miðvikudag flaug ég suður og hitti Hauk Má. Við fengum okkur hamborgara á einhverri búllu við Hverfisgötu („þarna götunni þar sem barirnir eru“, sagði afgreiðslustúlkan á American Style, þar sem við stoppuðum fyrst, en gat ekki afgreitt okkur vegna bilunar í posakerfinu) og héldum síðan yfir á Hressó í bjór, kaffi og sígó. Við ræddum ýmislegt og meðal annars hvers vegna Hressó hefði aldrei verið gentrifíeraður – hann er alltaf skemmtilega subbulegur, alþýðlegur, þannig staðir eru ekki á hverju strái í miðbænum. Það þykir líka mjög ófínt að vera þar. Ég fer þangað oft til að vinna þegar ég er í bænum og þarf alltaf að koma með alls konar afsakanir fyrir því gagnvart hváandi vinum mínum og kunningjum. Það sló okkur líka að hugsanlega væri það „sirkusliðið“ – það er að segja okkar kynslóð – sem bæri ábyrgð á gentrifíeringu miðbæjarins. Og væri spes – svona í ljósi þeirrar subbufagurfræði sem var við lýði á sirkusárunum og allri nostalgíunni fyrir þeim árum – að svo væru bara nánast engir staðir eftir þar sem manni liði ekki asnalega á í vinnufötunum. Nema Hressó einmitt – sérstaklega úti á palli. En staðurinn er víst til sölu. *** Það snjóaði á mig í garðinum heima daginn sem ég fór á árshátíðina. Það var mjög leiðinlegt. En Barcelona tók á móti mér með sól og blíðu og var ekki við öðru að búast. Ég kom hingað (þessi orð eru skrifuð á flugvellinum á leiðinni heim) til þess að taka þátt í róttæku bókamessunni Fira Literal. Ég fékk ansi veglegan sess í dagskránni – var aðalatriðið á laugardeginum, en aðalatriðið á sunnudeginum var ítalski femínistinn Silvia Federici. Það mættu að vísu nokkuð fleiri á hana en mig – og skal engan undra – en mér þykir mér mikill heiður sýndur að deila keynote-helgi með annarri eins stjörnu.  Bókin – Illska – gengur líka mjög vel og er að detta í þriðju prentun (á spænsku, ekki katalónsku – útgefandinn, Hoja de Lata, er staðsettur í Asturias). Nadja skrifaði mér líka að heiman og sagði að Aram Nói hefði séð Hatara í sjónvarpinu nefna mig sem áhrifavald – ásamt Peaches, Björk, Rage Against the Machine og fleirum – og hefði samstundis vaxið um heila sex sentimetra. Hvorutveggja, hrósið frá Hatara og grobbið í Aram, urðu svo til þess að ég óx um annað eins. Þetta hafa sem sagt verið góðir dagar fyrir egóið, en það er samvaxið hégómann og þótt egóinu líði vel þarf að halda hégómanum í skefjum og því mun ég sennilega næstu daga einbeita mér að því að hlusta á Stormy Daniels lagið þar sem ég er settur í flokk með Sveini Andra og ljóðabók Eyrúnar Jónsdóttur þar sem ljóðmælandi leggur á ráðin um að taka mig af lífi af því ég er svo mikill drullusokkur. (Ég á talsvert auðveldara með að gangast við því síðarnefnda en því fyrrnefnda, þótt það sé skylt – en ég er að gera mitt besta til að vera heiðarlegur og almennilegur, lofa). Ekki þar fyrir að kannski finnst egóinu líka gaman að hata sig. Að minnsta kosti á góðum dögum. *** Ég gekk um stræti og torg Barcelona-borgar – frá Sant Andreu til Gracía og út um allt í miðbænum – með The Anatomy of a Moment / Anatomía de instante eftir Javier Cercas í eyrunum. Ég hef auðvitað líka verið að lesa Impostor eftir sama höfund, einsog hefur verið nefnt hér. Bókin er sannsöguleg og fjallar um valdaránstilraunina á Spáni þann 23. febrúar, 1981. Þarna er lýðræðið á Spáni mjög ungt og árin á undan höfðu einkennst af efnahagslegu og pólitísku kaosi. Umræðan um nauðsyn þess að velta forsætisráðherra, Adolfo Suarez, úr sessi hafði farið fram fyrir opnum tjöldum árum saman – og mælt með bæði mjúkum og hörðum lausnum í því efni. Honum þótti hafa farist vel úr hendi að skipta út hinu fasíska kerfi Francos fyrir evrópskt lýðræði en stjórn hans að loknu þessu breytingarferli þótti fremur léleg. Áætlanir valdaránsmanna gerðu ráð fyrir „mjúku valdaráni“ þar sem ekki yrði hleypt af, en fóru út um þúfur strax og ráðist var inn í þinghúsið. Þá var orðið úr vöndu að ráða enda ljóst að margir þeirra sem stóðu að baki valdaráninu – eða væru líklegir til að gera það nú þegar það var hafið – myndu snúa við þeim bakinu. Það gerðist fljótlega og munaði mestu um að kóngurinn – sem hafði skipað Suarez en studdi hann tæplega lengur og hafði gælt við alls konar pælingar um að losna við hann – lýsti yfir andstöðu sinni við ráðagerðina. Stór hluti valdaránsmanna voru konungssinnar – annar hluti var falangistar, og svo voru þarna alls kyns metnaðarfullir framagosar sem vildu bara sölsa til sín völd. Í raun virðist það ekki síst vera það sem veldur því að þetta fer út um þúfur – valdaránsmennirnir höfðu mjög ólíkar hugmyndir um hvernig þetta ætti allt að fara og voru búnir að vera að blekkja hver annan til þess að fá stuðning við eigin plön. Svo þegar hljóp snurða á þráðinn vissu menn ekki lengur hver ætti að ráða eða hvað ætti að gerast. Bókin fjallar um meira en þetta – fer vítt og breitt um sögu lýðveldisins og fasismans á Spáni. Megnið af henni er lýsingar á alls konar vélráðum og metnaði til valda – maður kemur ekki út úr henni neitt æðislega bjartsýnn fyrir hönd lýðræðisins, en þó með þá vissu að vélráðin og sérhlífnin og græðgin og undirferlið og innihaldsleysi hugsjónanna sé í öllu falli ekki skárri í fasísku kreðsunum. Samt eru þarna nokkur falleg augnablik – það er eitthvað dásamlegt við að einu mennirnir sem hafi neitað að fara úr sætum sínum þegar herinn ruddist inn í þingsalinn hafi verið Adolfo Suarez, fyrrverandi falangisti, fyrirlitinn forsætisráðherra, Mellado, æðsti yfirmaður hersins og aðstoðarforsætisráðherra og og Carillo, formaður kommúnistaflokksins þar sem hann rakst illa og var í eilífum illdeilum við félagsmenn. Kommúnistaflokkurinn á Spáni hafði þá verið „lýðræðislegur“ – fallið frá hugmyndum um alræði öreiganna – í sirkabát korter áður en þetta gerðist. Það voru þannig í einhverjum skilningi andlýðræðislegustu öflin sem neituðu að láta lýðræðið af hendi – fulltrúar falangista, kommúnista og svo hersins (sem var að reyna valdarán). Maður týnist mikið í þessum plottum samt. Þetta er ofsalega mikil og flókin saga og einsog það sé ekki nógu þá eru flestir þátttakendur í henni margsaga um hvað gerðist. Cercas hefur svo sitt sjónarhorn og sína túlkun og maður er mjög meðvitaður um að þegar svona ofsalega einæðisleg bók er fyrstu kynni manns af atburðum sem maður vissi fjarska lítið um fyrir þá þurfi maður að taka öllu með smá saltklípu. Það er reyndar fyndið að þegar ég nefndi það við fólk hérna að ég væri að lesa Cercas þá varð það skrítið í framan og spurði: „En er hann ekki hægrimaður?“ Ég varð sosum ekkert var við það – hann ver Suarez að mörgu leyti, kannski bara vegna þess að hann er áhugaverðasta persónan í þessu öllu saman, mótsagnakenndastur og fyrir miðju narratífunnar. En Cercas talar líka um að hann hafi sjálfur verið hallur undir málstað ETA og um svik krata við sósíalismann og fleira sem ætti að gefa til kynna að hann væri vinstrimaður. Fyrst og fremst er hann sennilega samt rithöfundur – og þeim er jafnvel enn verr treystandi en vinstrimönnum. *** Impostor er alveg eins og allt öðruvísi. Hún segir sögu Enrics Marco sem var bifvélavirki, verkalýðsleiðtogi fyrir anarkista, baráttumaður fyrir skólaumbótum og formaður minningarsamtaka um helförina – hann var sjálfur eftirlifandi úr Flossenbürg búðunum og fyrrverandi andófsmaður gegn Franco og anarkisti sem hafði lifað ótrúlegu lífi, hálfgerðu Forrest Gump lífi, þegar í ljós kom á gamals aldri að megnið af þessu var bölvað kjaftæði og hann hafði ýkt mjög og skreytt það sem hann skáldaði ekki beinlínis frá grunni. Hann hafði aldrei verið í Flossenbürg – en farið sem verkamaður til Þýskalands á vegum fasista, til að komast hjá því að fara í stríð, þar sem hann var loks handtekinn fyrir liðhlaup og sat í fangelsi nasista um hríð. Hann átti svo einhverja lauslega snertipunkta við anarkistahreyfinguna og andófið gegn Franco en sennilega ekkert meiri en næstum því hvaða Spánverji sem er – og stjórnmálaskoðanir hans voru út um allt, hingað og þangað. Þegar Enric var afhjúpaður var hann orðinn frægur – mjög frægur í Katalóníu og lítið frægur um allan Spán.   Þetta er ekki beinlínis saga lygasjúklings – til þess lýgur hann eiginlega ekki nóg. Lygasjúklingar, það best ég þekki til og hef upplifað, hækka tempóið og kraftinn í lygunum svo hratt að það kemst yfirleitt upp um þá fyrir hádegi á fyrsta degi – þeir ráða bókstaflega ekkert við sig. Marco virðist ráða við sig og stjórna þessu nokkuð vel en þjást af óstjórnlegri þörf fyrir að vera miðpunktur athyglinnar – það er margoft undirstrikað í þessari bók að fortíðin, einsog Faulkner sagði, er alls ekki dauð, eða einu sinni liðin, heldur er hún vídd í samtímanum, og Marco þarf ekki bara að vera miðpunktur hvers samtíma, hvers samkvæmis (sem hann gerir leikandi, verandi sjarmerandi sögumaður) heldur þarf hann að vera miðpunktur fortíðarinnar líka – og með því dómínerar hann yfir samtíma sínum, dómínerar yfir samkvæminu, og sögurnar verða allar magnaðri og ungu stúlkurnar allar æstari í hann (hann nefnir þetta nokkrum sinnum með ungu stúlkurnar – þetta virðist byrja upp úr einhvers konar miðaldurskrísu). Bókin er svo glíma Cercasar við að skrifa hana ekki – stór hluti hennar eru yfirlýsingar um að hann ætli aldrei og geti ekki skrifað þessa bók – og svo glíma hans við sögu Enrics og loks Enric sjálfan. Hún er ekki alveg jafn einæðisleg í staðreynda- og kenningaflutningi og Anatomy of a Moment en næstum því – kaflarnir þar sem hann er að rekja helstu lygarnar á óljósustu æviskeiðunum eru í leiðinlegra lagi en án þeirra hefði maður sennilega ekki komist. Hún er ljóðrænni og meiri „bókmenntir“ að mínu mati – Anatómían fellur nær blaðamennsku, þótt báðar séu á grensunni. Þótt það sé ofsalega mikil frásögn í anatómíunni þá er miklu meiri skáldskapur í Impostor – þótt ekki væri nema bara vegna þess að Enric er svo mikill skáldskapur sjálfur. Mér fannst hann oft minna mig á Rachel Dolezal – sem ég skrifaði um hérna . Rachel gerðist svört – african american – og telur sig það best ég veit enn vera blökkumann þótt hún gangist við því að hún sé ekki komin af neinum blökkumönnum, foreldrar hennar hafi verið snjóhvítir. Einsog Dolezal skapar Enric Marco sögu um sjálfan sig sem verður á endanum miklu stærri og meiri en hann sjálfur – svo stór að hann getur varla tekið hana til baka nema í hænuskrefum, tilneyddur, með sönnunargögnin á borðinu fyrir framan sig. Í öllum lygavefnaðinum verður kjarninn – karakterinn, eða hið skapaða ídentítet – það eina sem viðkomandi upplifir sem fullkomlega satt. Og engu að síður er það lygin sem liggur til grundvallar öllu hinu. *** Ég missti af föstudagskvikmyndaklúbbinum með krökkunum (og veit ekki hvað þau horfðu á) og við frestuðum kvikmyndaklúbbi fullorðna fólksins en ég horfði samt á Hamingjuna, Le Bonheur, eftir Agnesi Varda í hótelherbergiskytrunni minni við Hlemm í gærkvöldi. Henni tekst einhvern veginn að gera myndavélarlinsuna svo látlausa að manni finnst næstum að myndin hafi ekkert perspektíf – að hún sé ekki að „meina neitt“. Á sama tíma og söguþráðurinn er ótrúlega merkingarþrunginn. Sagan er svona (höskuldarviðvörun). Ung hjón eiga tvö börn og eru mjög hamingjusöm og elska hvort annað mikið. Karlinn kynnist konu sem vinnur hjá Pósti & síma og þau hefja ástarsamband og eru mjög hamingjusöm og elska hvert annað mjög mikið. Karlinn er opinn með að hann elski konu sína og ætli ekki að fara frá henni en þau geti samt haldið áfram að hittast af og til og hann elski hana líka og það sé engin ástæða til þess að þau geti ekki bara öll verið hamingjusöm. Seinna, í lautartúr með fjölskyldunni – eftir að börnin eru lögst til síðdegishvílu – segir karlinn konu sinni frá ástkonunni, og hvort þau geti ekki bara öll verið hamingjusöm, hann elski þær báðar, en auðvitað muni hann hætta að hitta ástkonuna ef eiginkonan vill það. Stemningin er látlaus, ekki trámatísk – engin grátur, engin öskur, engin læti. Eiginkonan er efins en virðist svo taka þetta í sátt, fyllist hamingju og þau elskast og sofna. Þegar karlinn vaknar við að börnin eru vöknuð er konan horfin. Þau leita hennar lengi í skóginum og finna hana loks drukknaða í stöðuvatni. Allir verða mjög leiðir í svolítinn tíma en svo kemur ástkonan og gengur börnunum í móðurstað og allir eru mjög hamingjusamir. Þetta býður upp á alls konar lestur. Mín fyrsta tilfinning var að Varda væri að gagnrýna kjarnafjölskylduna og smáborgaralega hamingjuna með póliamorískum hugmyndum – eða hugmyndum um frjálsar ástir. Í upphafi myndarinnar rak ég augu í þennan ramma – þetta birtist bara örsnöggt í sjónvarpi fjölskyldunnar, ég veit ekkert hvaðan það kemur annars: Uppruni hins skipulagða lífs – það er spurningin! En svo hefst ekkert af póliamorískum hugmyndum karlsins annað en harmur og dauði. Póliamoríska fólkið myndi segja að hann hafi farið að þessu mjög illa – en í þessu samhengi er það samt sennilega óþarfa aðfinnsla, hann veður myrkrið og gerir sitt besta til að sætta langanir sínar við samfélagsramma kjarnafjölskyldunnar, eða réttara sagt láta bæði ganga upp. En þá langar mig líka að lesa í þetta sögu um tillitsleysi þeirra sem festast í eigin hamingjuleit – hvernig harmur annarra verður þeim nánast ósýnilegur, af því þeir finna svo sárt til þess sem skortir í eigin lífi. Það er auðvitað svo fráleitur punktur á þessari öld egósins – þar sem allt sem hindrar okkur hið minnsta í að ná 110% sjálfsuppfyllingu er stækasti fasismi – og sérstaklega virkar undarlega á mann að „listamaður“, að ég tali nú ekki um kona eða franskur listamaður eða hugsandi listamaður, búi til verk sem þá sé vörn fyrir kjarnafjölskylduna. Það er líka þarna bara saga um einhvern franskan bastarð sem er að ríða kellingunni á pósthúsinu, þótt hann eigi góða konu og falleg börn heima. Eitthvað svona „týpískt fyrir karl“ dæmi. Sagan styður það – ef þetta væri norrænt sósíal-drama myndi það steinliggja. En stemningin er bara ekki þar. Fagurfræðin er að segja eitthvað annað. Og kannski þarf manni ekki að finnast neitt. Myndin er meistaraverk – alger gullmoli – og hún ýtir við ýmsu innra með manni. Hún þarf ekki að predika neitt. *** Síðast en ekki síst er ég búinn að vera að hlusta á nýjustu plötu Vampire Weekend, Father of the Bride. Ég er bara búinn að renna henni einu og hálfu sinni í gegn og ætti kannski að geyma að segja neitt sérstakt um hana í bili. Allt sem mér dettur í hug enn sem komið er – preppy, vandað, ljóðrænt, mikið pródúserað, mikið útsett menntamannapopp – mætti líka segja um allar hinar plötur sveitarinnar. Og hefur verið sagt. Já, frestum þessu fram í næstu viku, nema ég hafi bara engu við þetta að bæta. Ég ætla líka að lesa dóminn hans Davíðs Roach á RÚV-vefnum. En sjáum til – ef hún lifir vikuna af, ef ég held áfram að hlusta, þá reyni ég að stýra hugsunum mínum í gegnum hana og ef ekki þá ekki. *** Gítarleikari vikunnar er Mary Ford, eiginkona hins fræga (og lipra) gítarleikara og gítarsmiðs Les Paul. Mary mátti svolítið standa í skugga manns síns en var engu síðri gítarleikari nema síður væri, einsog sjá má á þessu myndbandi hér fyrir neðan. Það sem er skemmtilegt við gítarinn sem hljóðfæri er að hann er svo gott performansverkfæri – léttur og meðfærilegur og fallegur og býður upp á svo margs konar sniðugheit. Þetta nýta þau Les og Mary sér í botn.