Ég hef alltof lítið náð að spila síðustu vikuna. Ég var eitthvað að möndla við að æfa tóneyrað – aðallega með því að pikka upp hljóma í lögum sem ég hlusta á og spila melódíur sem ég man án þess að hafa neitt til hliðsjónar. En svo var Nadja lasin fyrstu daga síðustu viku og ég svo strax í kjölfarið og gítarsmíðin tók yfir allan lausan tíma frá fimmtudegi (ásamt því reyndar sem ég smíðaði Zelda-sverð fyrir Aram, til notkunar á maskadaginn). Nú er ég að fara til Münster á miðvikudag og kem ekki aftur fyrren á mánudag svo það verður líklega lítið úr spileríi og smíðum. En ég ætti samt að reyna að læra a.m.k. eitt nýtt lag í kvöld eða á morgun. Var að spá í Jesus Left Chicago með ZZ Top. Það er mjög einfalt en ég kannski læri þá textann líka. Það er hægt að gera það gítarlaus í Münster. *** Hlynurinn kom með póstinum á miðvikudag. Ég reif mig upp úr flensunni til að líma hann saman svo ég kæmist með hann til Dodda í Fab Lab á fimmtudeginum – því það er bara opið á fimmtudögum og þriðjudögum. Alla jafna. Það var óþægilega mikil sveigja í spýtunni og við Doddi tókum hana yfir í trésmíðadeild til Þrastar til að spyrja ráða og hann mælti með því að við myndum pressa hana yfir nótt í til þess gerðri pressu. Doddi kom mér þá til bjargar með að hleypa mér inn á föstudeginum þótt það væri alls ekki opið. Við byrjuðum á að fræsa spýtuna niður í 6,5 mm þykkt og fræstum svo fyrir útlínunum.
Ég fór beint með spýtuna heim og sagaði í hana f-gatið og límdi hana fasta á búkinn. Ég vildi gera þetta hratt og örugglega áður en hún myndi sveigjast aftur til baka. Ég gerði líka einhverjar tilraunir með að festa bindingu í f-gatið en þær voru ekki sérlega uppörvandi og kannski sleppi ég bara bindingu þar. Þetta eru mjög skarpar beygjur og erfitt að fá plastið til að setjast almennilega að kantinum. Þegar ég fór að mæla fyrir staðsetningu á hljóðdósum og hálsvasa kom í ljós að sennilega hef ég gert dálitla skyssu. Hálsinn er í Gibson hlutföllum – 628 mm skali – en ég hafði verið að reikna fjarlægð vasans að brú útfrá Fender hlutföllum, sem er með 650 mm skala. Sem þýðir að í staðinn fyrir að brúin komi til með að vera 181 mm frá vasanum verður hún 170 mm frá vasanum – sirka – og færist því fram um heilan sentimetra. Ef ég er ekki eitthvað að rugla. Þetta gæti þýtt að ég þurfi að færa hljóðdósirnar nær hver annarri og skera aðeins í klórplötuna (þessi á myndinni er aukaplata – sú alvöru er í Reykjavík í prentun, það er líka verið að grafa í hálsplötuna). Svo það sé bærilegt pláss fyrir allt. Ég ætla samt ekki að fræsa fyrir hljóðdósum eða hálsi fyrren ég er kominn með hálsinn í hendurnar og get reiknað þetta allt nákvæmlega út. Ég var vel að merkja að fylla út tollskýrsluna fyrir hann og fæ hann vonandi á morgun. Ég fræsti samt fyrir hnappaholinu og tengdi það við innputholið. Það var bölvað moj. Ég var ekki með nógu langan bor og þurfti að koma báðum megin að þessu og bora nokkrum sinnum til að finna leiðina. Svo gerði ég smá trékítti úr gömlu sagi til að fylla í götin. En það er nú ekki sérlega fallegt – skiptir kannski litlu svona innan í, en ég hugsa að ég reyni nú samt aðeins að fixa það. Ég prófaði mig líka áfram með bæsið, bæði á hlyn og mahóní. Ég byrjaði á að bæsa svart á hlyninn og pússa það næstum alveg upp. Svo smá rauðsvarta blöndu sem ég pússaði líka upp, svo nokkur lög af rauðblárri búrgúndarblöndu. Ég setti smá af sömu blöndu á mahóníið til samanburðar, þótt ég sé ekki búinn að grain-fylla það. Þetta er vel að merkja allt afgangsefni (ég nota kannski þennan hlyn einhvern tíma en sný honum þá hinsegin). Mahóníið er ósnert þarna neðri hlutinn. Svarta bæsið dregur svona fram æðarnar í hlyninum – ofan á þetta fer svo tung-olía og bílabón. Næst fræsti ég rásina fyrir bindinguna með dremli og til þess gerðum bita og græju frá Stew Mac. Það var rosalegt moj að ná því sæmilegu án þess að skemma gítarinn. Þessi mynd er tekin áður en ég pússaði rásina með 60 gritta sandpappír. Það skánaði nú umtalsvert við það. Næst notaði ég tonnatak til þess að líma bindinguna fasta. Og hárþurrkuna sem ég gaf Nödju einu sinni til þess að hita og beygja bindinguna. Það var líka mikið þolinmæðisverk og ég er ekki alls kostar ánægður með hvernig til tókst – aðallega vegna þess að rásin var skemmd á a.m.k. einum stað. Þar er dálítið gap milli bindingar og búks sem ég þarf annað hvort að fylla með bindingu uppleystri í acetoni eða tréfylli. Einsog sjá má var drukkið í vinnunni í gær. Þetta er Biska – króatískur snaps úr mistilteini. Mjög gott. Ég keypti á sínum tíma líka þykkari bindingu ef ég skildi klúðra – auðveldara að stækka rásina en minnka hana. Og nýtti mér það í gær þótt það væri reyndar ekki vegna neins klúðurs. Ég ákvað bara að fela alveg skilin á hlyninum og mahóníinu með bindingunni – meðal annars vegna þess óhjákvæmilega litamismunar sem verður eftir bæsingu. Svo veit ég auðvitað ekkert hvernig þetta lítur út undir öllu þessu teipi. Ég kem til með að þurfa að pússa þetta helling til. Ég gerði tilraunir með lím áður en ég valdi eitthvað „industrial grade“ tonnatak og þetta ætti nú að halda. En það er ómögulegt að segja hvort það séu mörg álíka göp undir teipinu fyrren ég er búinn að fjarlægja það og pússa svolítið. Það gerist í kvöld og á morgun kemur vonandi hálsinn og þá fræsi ég fyrir honum. *** Gítarleikari vikunnar er St. Vincent / Annie Clark. Ég átti rosa erfitt með að velja gott myndband – en fann svo þetta best off þar sem hún fer fullkomlega á kostum, og stundum hamförum. Það sakar heldur ekki að signatúr-gítarinn hennar frá Ernie Ball er ógeðslega fallegur – en hann er reyndar ekki í neinni af þessum klippum, hann er ekki nema svona 2-3 ára gamall, svo ég henti bara með einni mynd af honum í bónus. Jack White spilar líka stundum á svona.